fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Barnaland fældi fegurðardrottninguna úr fjölmiðlum

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 22. janúar 2018 13:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru ekki margir sem myndast jafn vel og Eyjamærin Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir enda var henni nánast nappað úr Vestmannaeyjum til að taka þátt í fyrirsætustörfum. Sextán ára sigraði hún í fyrirsætukeppni Elite og fimm árum síðar landaði hún titlunum Ungfrú Reykjavík og Ísland. Hún stjórnaði morgunþætti á Stöð 2 um nokkurt skeið en dró sig svo úr sviðsljósinu sem, eins og margir vita, getur verið nokkuð eldfimt.

Ragnheiður var í viðtali í Birtu, sem fylgir með helgarblaði DV, um helgina þar sem hún sagði meðal annars frá því að hún hefði fengið sig fullsadda af neikvæðri gagnrýni, aðfinnslum og niðurrifi. Hér að neðan birtist brot úr viðtalinu þar sem hún ræðir um þetta.


Ragnheiður var í sambúð með barnsföður sínum í tæp þrjú ár en leiðir þeirra skildi eins og gengur. Hún réð sig til starfa hjá sjónvarpsstöðinni PoppTíVí sem var og hét og steig þar sín fyrstu skref í fjölmiðlabransanum þegar hún hélt úti lífsstíls- og dægurmálaþættinum Prófíl.

„Þetta var virkilega skemmtilegt og fjölbreytt starf. Við vorum með fjölbreyttar vörukynningar í verslunum, seldum innslög í þáttinn og fjölluðum svo um komandi stefnur og strauma, til dæmis í heilsu- og tískubransanum. Það má segja að þetta hafi verið kostaður lífsstílsþáttur, sambærilegur við vöruumfjöllun sem tíðkast á netinu og samfélagsmiðlum í dag en þar vorum við töluvert á undan okkar samtíð held ég með þessum þætti.“
Með jákvæða reynslu af því að koma fram í sjónvarpi færði hún sig yfir á Stöð 2 og tók við af Ingu Lind Karlsdóttur þegar hún hætti í þættinum Ísland í bítið. Ragnheiður stýrði þessum morgunþætti ásamt Heimi Karlssyni í um eitt ár og segir það hafa tekið verulega á.
„Fólk annaðhvort elskaði að hata mig, eða hataði að elska mig. Ég held að ég hafi bara verið stimpluð sem heimsk ljóska enda var mér gert að fjalla um hluti sem ég hafði aldrei haft áhuga á og átti erfitt með að setja mig inn í. Til dæmis pólitík. Samt var ég eitthvað að reyna að setja mig í stellingar,“ segir hún og skellir upp úr.

„Ég hafði einlægan áhuga á mannlega þættinum meðan Heimir var sterkur í öllu sem sneri að stjórnmálum. Á köflum fékk ég að njóta mín en stundum var ég þvinguð til að fjalla um hluti sem ég hafði litla sem enga þekkingu á og þá kemur maður svo sem ekkert vel út. Svo var þetta á þeim tíma sem NFS, eða Nýja Fréttastöðin, var að fæðast þannig að það var gríðarleg áhersla lögð á allt sem sneri að fréttum og pólitík. Þeir ætluðu sér að verða BBC News Íslands. Ég var fróðleiksfús og gerði mitt besta til að afla mér upplýsinga um hin ýmsu mál – en kannski gaf fólk mér bara ekki séns? Ég veit það ekki. Undir lokin var ég svo bara algjörlega komin með upp í kok af neikvæðri gagnrýni, aðfinnslum og öðrum leiðindum í minn garð enda má segja að þetta niðurrif hafi flæmt mig úr fjölmiðlabransanum,“ segir Ragnheiður og rifjar upp færslur og athugasemdir sem hún las um sjálfa sig, meðal annars á Barnalandi og ýmsum bloggsíðum sem þá gegndu svipuðu hlutverki og Facebook og Twitter gera í dag.

Hefur bognað en aldrei brotnað

„Maður las alls konar rugl eins og til dæmis að maður gæti eins verið með póstkassa í staðinn fyrir haus, fólk var ekkert að spara sitt ömurlega álit. Fyrst um sinn hafði þetta mjög niðurbrjótandi áhrif á mig og ég lét þetta stjórna því hvernig mér leið en þegar NFS fór á hausinn, hætti ég í fjölmiðlum og fór inn á önnur svið,“ segir hún, en Ragnheiði var sagt upp ásamt fjölda annarra starfsmanna þegar fyrirtækið hætti.

„Að vera sagt upp er reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af. Margir líta á uppsögn úr starfi sem gríðarlega höfnun en í dag er ég þakklát fyrir þetta því þrátt fyrir allt sem á hefur gengið í lífi mínu hef ég, innst inni, alltaf einhvern veginn vitað fyrir hvað ég stend. Ég hef kannski bognað en aldrei brotnað – og ég held að ég sé komin með ansi þykkan skráp. Gagnrýnin, afbrýðisemin, mótlætið, umtalið og aðfinnslurnar byrjuðu auðvitað þegar ég var bara fimmtán ára en það var ekki fyrr en eftir þessa reynslu að ég tók þá ákvörðun að álit annarra skyldi aldrei ráða því hvernig mér liði eða hvað mér þætti um sjálfa mig og ef það væri einhver sem ætti að bera ábyrgð á minni líðan þá væri það einungis ég sjálf,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kökusmakkari TikTok nýtur lífsins hérlendis – „Ég fokking elska þetta land“

Kökusmakkari TikTok nýtur lífsins hérlendis – „Ég fokking elska þetta land“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“

„Það er ólög að fólk sem finnur einu leiðina til að bjarga lífi sínu sé að gera ólöglega hluti“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Magnús vandar Vigdísi ekki kveðjurnar – „Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði“

Magnús vandar Vigdísi ekki kveðjurnar – „Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenskir Eurovision-aðdáendur bregðast við útspili Ísraels – „Allt til að láta fólk gleyma því hver raunverulegu fórnarlömbin eru hérna“

Íslenskir Eurovision-aðdáendur bregðast við útspili Ísraels – „Allt til að láta fólk gleyma því hver raunverulegu fórnarlömbin eru hérna“