fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

„Ég hef kannski bognað en aldrei brotnað“

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 20. janúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru ekki margir sem myndast jafn vel og Eyjamærin Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir enda var henni nánast nappað úr Vestmannaeyjum til að taka þátt í fyrirsætustörfum. Sextán ára sigraði hún í fyrirsætukeppni Elite og fimm árum síðar landaði hún titlunum Ungfrú Reykjavík og Ísland. Hún stjórnaði morgunþætti á Stöð 2 um nokkurt skeið en dró sig svo úr sviðsljósinu sem, eins og margir vita, getur verið nokkuð eldfimt.

Ragnheiði dreymdi aldrei um að verða fyrirsæta eða fegurðardís þegar hún var krakki. Hún lýsir sér sem strákastelpu enda á hún þrjá eldri bræður og var alltaf mikil pabbastelpa. Foreldrar hennar eru Guðni heitinn Ólafsson, skipstjóri og útgerðarmaður, og Gerður Sigurðardóttir húsmóðir sem býr nú í Reykjavík.

Hún segist hafa verið þekkt sem „stelpan með síða hárið í græna jakkanum“ í Eyjum, var á kafi í körfubolta og fótbolta og aldrei hvarflaði það að henni að hún myndi gerast fyrirsæta, hvað þá fegurðardrottning, enda upplifði hún sjálfa sig sem „ósköp venjulegan lúða“ eins og hún orðar það.

„Ég hef alltaf haft meira gaman af útiveru og einhvers konar hasar heldur en að punta sjálfa mig. Svo var ég eiginlega bara sótt til Eyja til að fara í þessi fyrirsætustörf,“ rifjar hún upp.

„Kolbrún Aðalsteinsdóttir, sem starfaði fyrir Elite, hvatti foreldra mína til að senda mig í keppnina og ég man að það var mikið talað um tækifærin sem þetta gæti haft í för með sér. Þessu fylgdu svolítið blendnar tilfinningar. Ég man að mér fannst þessi þrýstingur frekar pirrandi en svo tóku ævintýrin við þegar tilboðin fóru að hrúgast inn og við Kolbrún byrjuðum að ferðast um heiminn. Ég, kornung fyrirsæta, og hún, umboðsmaðurinn sem foreldrar mínir þurftu bara að treysta,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún sjái ekkert eftir þessu enda bara viðbót í reynslubankann. Hún starfaði meðal annars í stórborgunum London og Mílanó og fékk tækifæri til að kynnast lífinu frá allt öðru sjónarhorni en flestar jafnöldrur hennar.

Eftir að hafa starfað sem fyrirsæta í fimm ár tók Ragnheiður þátt í keppninni Ungfrú Ísland og bar sigur úr býtum. Var fyrst kjörin Ungfrú Reykjavík og síðan Ungfrú Ísland vorið 2001.

„Ég var orðin 21 árs og var því ellismellurinn í keppendahópnum. Hafði ágætis bein í nefinu og fannst þetta því ekki svo mikið mál. Ég eignaðist fullt af góðum vinkonum sem ég held enn sambandi við í dag og í raun var það nægilegt tilefni til þátttökunnar. Framhaldið hefði orðið að taka þátt í Ungfrú Heimur en fljótlega eftir keppnina komst ég að því að ég var barnshafandi. Annar keppandi fór út í minn stað og stóð sig frábærlega. Ég hefði ekki getað gert betur,“ segir hún, en Íris Björk Árnadóttir landaði titlinum Ungfrú Norðurlönd í október 2001 og Ragnheiði fæddist sonur þann 22. desember sama ár.

„Svona gerist bara svo auðveldlega í litlum samfélögum þar sem allir vita allt um alla“

Eins og fyrr segir var Ragnheiður ekki mjög meðvituð um útlit sitt fram að fyrirsætukeppninni. Spurð að því hvort það hafi haft neikvæð áhrif á hana að vera síðar skilgreind út frá hlutverki sætu stelpunnar segir hún það í raun hafa komið síðar.

„Ég upplifði engan samanburð eða aðra neikvæðni hvað varðar útlit mitt fyrr en ég fékk þessa titla. Þá fóru alls konar kjaftasögur og baktal af stað og sumar stelpur, sem ég taldi vinkonur mínar, snerust allt í einu gegn mér. Þetta virðist einhvern veginn loða við margar ungar konur og eflaust þroskaleysi um að kenna enda finn ég ekki fyrir neinni afbrýðisemi eða mótlæti í dag og hef ekki gert í mörg ár. Eða kannski tek ég þetta bara minna inn á mig núna? Ég veit það ekki,“ segir hún og ypptir öxlum.
„Svona gerist bara svo auðveldlega í litlum samfélögum þar sem allir vita allt um alla. Um leið og maður stígur út úr þeim þægindaramma að eiga einkalífið ekki bara fyrir sig þá er maður um leið berskjaldaðri. Á þessum árum þekktist það ekki að stelpur færu út fyrir normið í þessu litla Alcatraz-samfélagi. Stundum var þetta drulluerfitt en ég sé samt ekki eftir neinu enda lærði ég ósköpin öll af þessu.“

„Fólk annaðhvort elskaði að hata mig, eða hataði að elska mig“

Ragnheiður var í sambúð með barnsföður sínum í tæp þrjú ár en leiðir þeirra skildi eins og gengur. Hún réð sig til starfa hjá sjónvarpsstöðinni PoppTíVí sem var og hét og steig þar sín fyrstu skref í fjölmiðlabransanum þegar hún hélt úti lífsstíls- og dægurmálaþættinum Prófíl.

„Þetta var virkilega skemmtilegt og fjölbreytt starf. Við vorum með fjölbreyttar vörukynningar í verslunum, seldum innslög í þáttinn og fjölluðum svo um komandi stefnur og strauma, til dæmis í heilsu- og tískubransanum. Það má segja að þetta hafi verið kostaður lífsstílsþáttur, sambærilegur við vöruumfjöllun sem tíðkast á netinu og samfélagsmiðlum í dag en þar vorum við töluvert á undan okkar samtíð held ég með þessum þætti.“
Með jákvæða reynslu af því að koma fram í sjónvarpi færði hún sig yfir á Stöð 2 og tók við af Ingu Lind Karlsdóttur þegar hún hætti í þættinum Ísland í bítið. Ragnheiður stýrði þessum morgunþætti ásamt Heimi Karlssyni í um eitt ár og segir það hafa tekið verulega á.
„Fólk annaðhvort elskaði að hata mig, eða hataði að elska mig. Ég held að ég hafi bara verið stimpluð sem heimsk ljóska enda var mér gert að fjalla um hluti sem ég hafði aldrei haft áhuga á og átti erfitt með að setja mig inn í. Til dæmis pólitík. Samt var ég eitthvað að reyna að setja mig í stellingar,“ segir hún og skellir upp úr.

„Ég hafði einlægan áhuga á mannlega þættinum meðan Heimir var sterkur í öllu sem sneri að stjórnmálum. Á köflum fékk ég að njóta mín en stundum var ég þvinguð til að fjalla um hluti sem ég hafði litla sem enga þekkingu á og þá kemur maður svo sem ekkert vel út. Svo var þetta á þeim tíma sem NFS, eða Nýja Fréttastöðin, var að fæðast þannig að það var gríðarleg áhersla lögð á allt sem sneri að fréttum og pólitík. Þeir ætluðu sér að verða BBC News Íslands. Ég var fróðleiksfús og gerði mitt besta til að afla mér upplýsinga um hin ýmsu mál – en kannski gaf fólk mér bara ekki séns? Ég veit það ekki. Undir lokin var ég svo bara algjörlega komin með upp í kok af neikvæðri gagnrýni, aðfinnslum og öðrum leiðindum í minn garð enda má segja að þetta niðurrif hafi flæmt mig úr fjölmiðlabransanum,“ segir Ragnheiður og rifjar upp færslur og athugasemdir sem hún las um sjálfa sig, meðal annars á Barnalandi og ýmsum bloggsíðum sem þá gegndu svipuðu hlutverki og Facebook og Twitter gera í dag.

Hefur bognað en aldrei brotnað

„Maður las alls konar rugl eins og til dæmis að maður gæti eins verið með póstkassa í staðinn fyrir haus, fólk var ekkert að spara sitt ömurlega álit. Fyrst um sinn hafði þetta mjög niðurbrjótandi áhrif á mig og ég lét þetta stjórna því hvernig mér leið en þegar NFS fór á hausinn, hætti ég í fjölmiðlum og fór inn á önnur svið,“ segir hún, en Ragnheiði var sagt upp ásamt fjölda annarra starfsmanna þegar fyrirtækið hætti.

„Að vera sagt upp er reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af. Margir líta á uppsögn úr starfi sem gríðarlega höfnun en í dag er ég þakklát fyrir þetta því þrátt fyrir allt sem á hefur gengið í lífi mínu hef ég, innst inni, alltaf einhvern veginn vitað fyrir hvað ég stend. Ég hef kannski bognað en aldrei brotnað – og ég held að ég sé komin með ansi þykkan skráp. Gagnrýnin, afbrýðisemin, mótlætið, umtalið og aðfinnslurnar byrjuðu auðvitað þegar ég var bara fimmtán ára en það var ekki fyrr en eftir þessa reynslu að ég tók þá ákvörðun að álit annarra skyldi aldrei ráða því hvernig mér liði eða hvað mér þætti um sjálfa mig og ef það væri einhver sem ætti að bera ábyrgð á minni líðan þá væri það einungis ég sjálf,“ segir hún.

„Pabbi var alltaf kletturinn í mínu lífi“

Eftir þetta beindist athygli hennar inn á önnur svið. Hún skráði sig í nám í mannauðsfræðum hjá Endurmenntun Háskólans og þaðan lá leiðin í sálfræðina en Ragnheiður útskrifaðist með meistaragráðu í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Í dag starfar hún sem framkvæmdastjóri Forvarna ehf. og sinnir bæði einstaklingum og fyrirtækjum, ásamt fleira fólki sem þar starfar, en aðaláherslu leggur Ragnheiður á að hjálpa fólki að fyrirbyggja heilsubrest sem orsakast af völdum streitu og álags. Áhuga hennar á þessu orsakasamhengi má meðal annars rekja til ótímabærs dauða föður hennar sem lést úr krabbameini aðeins 56 ára að aldri.

„Hann vann mikið álagsstarf og ég er viss um að partur af hans veikindum orsakaðist af streitu en hann var bráðkvaddur í sömu viku og hann greindist með krabbamein í ósæðinni við hjartað. Okkur fjölskyldunni var tilkynnt um veikindin á þriðjudegi og svo var hann látinn á föstudegi. Maður veit eiginlega ekki hvort það er betra að missa fólk skyndilega eða fá tíma til að kveðja það, en við áttum góða stund saman áður enn hann fór. Pabbi var alltaf kletturinn í mínu lífi og að missa hann var auðvitað innlegg í reynslubankann líka,“ segir hún og ljóst er að henni þótti ákaflega vænt um pabba sinn.

„Erum við sífellt að bera okkur saman við annað fólk?“

Hún segist trúa því að samhengið á milli þess að veikjast alvarlega og/eða deyja fyrir aldur fram megi oft rekja beint til mikillar streitu. Streitan geti orðið allsráðandi í lífi margra og þá sé það ýmist innri streita, ytri streita eða hvort tveggja, sem hafi tögl og hagldir.

Ytri streitu skilgreinir hún sem uppákomur og aðstæður sem við höfum enga eða litla stjórn á, til dæmis dauðsföll, veikindi, tekjumissi eða þess háttar, en innri streitu segir hún vanalega orsakast af hugsunum sem við gætum oft haft miklu betri stjórn á. Hún telur að margt ungt fólk, á aldrinum tuttugu til fjörtíu ára, glími við innri streitu sem í flestum tilfellum mætti draga stórlega úr.

„Fyrst og fremst þurfum við að byrja á því að skoða viðhorfin okkar og komast að því hvort þau séu að gagnast okkur. Erum við til dæmis á kafi í lífsgæðakapphlaupinu eða föst í einhvers konar útlitsdýrkun? Erum við sífellt að bera okkur saman við annað fólk og kannski setja okkur óraunhæf markmið? Og erum við haldin of mikilli þörf fyrir viðurkenningu? Þetta eru mikilvægar spurningar sem er gott að svara, því ef viðhorfin gagnast okkur ekki þá keyrum við okkur stundum í gegnum lífið, með slæmum afleiðingum, ekki aðeins fyrir okkur sjálf heldur einnig fyrir okkar nánasta fólk, bæði börn og maka,“ segir Ragnheiður.

Áróður um fullkomið líf

Hún segir að mörg gerum við þau mistök að lifa lífinu á forsendum annarra og gleymum stundum að staldra við og spyrja hvort það sem við séum að gera sé raunverulega það sem okkur langar til. Sýndarveruleikinn á samfélagsmiðlum geti til dæmis gert fólki lífið leitt ef það er ekki meðvitað um andlegu áhrifin sem geta fylgt því að verða fyrir stöðugu áreiti og áminningum um einhvers konar fullkomið líf.
„Það dynur á okkur þessi endalausi áróður um að eignast fullkomið heimili, keyra um á fullkomnum bíl, vera í góðu sambandi við fullkominn maka og eiga fullkomin kurteis börn – og síðast ekki síst hafa fullkomið útlit til að lífið geti orðið gott. Auðvitað er ekki til neitt sem heitir fullkomið líf og þetta vita flestir en við þetta áreiti getur samt sem áður myndast ósamræmi milli innri og ytri veruleika sem skilar sér svo í vanlíðan. Fólk veltir því fyrir sér hvernig það muni nokkurn tímann ná að höndla hamingjuna þegar lífið er eins ófullkomið og raun ber vitni. Með öðrum orðum verður bilið á milli þess hver þú ert, og hver þig langar til að verða, of breitt. Og svo er það annað mál að „hver mig langar til að vera“ stjórnast oft allt of mikið af því sem maður telur að aðrir haldi um mann, eða áliti annarra.“

Þú hefur þá kannski dregið þennan lærdóm beint upp úr eigin reynslubrunni?

„Já, auðvitað lærði ég af því að hafa lent á þeim stað í lífinu að skoðanir, álit, hugsun og hegðun annarra stjórnuðu því næstum alfarið hvernig mér sjálfri leið og þótt hún hafi ekki verið skemmtileg þá hefur þessi lífsreynsla einnig nýst mér mjög vel í starfinu. Ég hef til að mynda lært að þekkja eigin tilfinningar nokkuð vel og stjórna þeim eftir bestu getu, en um leið hef ég líka öðlast ágætis tilfinningalæsi og á auðvelt með að skilja fólk og setja mig í spor annarra.“

Áreitið verður alltaf til staðar

Hún segir, að þrátt fyrir margs konar vonbrigði og erfiðleika, hefði hún aldrei viljað að henni hefði verið hlíft við þeim verkefnum sem lífið hefur fært henni til þessa. Í sumum tilfellum hafi hún haft takmarkaða stjórn á aðstæðum og öðrum ekki, en allt hafi þetta verið góðar lexíur sem nýtist vel í dag. Í starfi sínu þakkar Ragnheiður Ólafi Þór Ævarssyni, geðlækni og eiganda Forvarna, sérstaklega fyrir góða handleiðslu en með honum hefur hún starfað allt frá því að hún byrjaði að læra sálfræði. Með tímanum hefur hún svo öðlast mikla sérþekkingu á áhrifum streitu og starf hennar gengur aðallega út á að liðsinna fólki á því sviði.
Þrátt fyrir áðurnefnda útgangspunkta um innri og ytri streituvalda segir hún það þó mjög einstaklingsbundið hvað það sé sem stressar fólk upp.
„Þegar ég tala um streituvarnir þá á ég oftast við svefn, mataræði, hreyfingu og hugarfar. Áreitið verður alltaf til staðar í lífinu en hvert og eitt þurfum við að byggja upp markvissar varnir með því að passa upp á þessi grundvallaratriði.“

Smátt og smátt verður hamingjan meiri

Hvað finnst þér þá um það þegar fólk er að mæla hreyfingu sína og birta svo árangurinn, tíma, þyngd og þess háttar á samfélagsmiðlum eða í þar til gerðum öppum? Verður þessi viðleitni til að lifa heilbrigðara lífi kannski til þess að auka streituna hjá sumum?

„Vissulega. Hjá mörgum verða þessi smáforrit, og aðrir samfélagsmiðlar, einmitt til þess að samanburðurinn við annað fólk verður meiri og óheilbrigðari. Í kjölfarið líður mörgum sífellt verr ef árangurinn er ekki í samræmi við markmiðin. Þessari tækni er vissulega ætlað að bæta líf okkar og einfalda það en ef við kunnum ekki að fara með hana þá getur tilveran orðið erfiðari. Með samfélagsmiðlatengd útivistarforrit á borð við Endomodo, Strava og þess háttar er kannski málið að byrja á því að spyrja til hvers maður sé að stunda hlaup og hjólreiðar? Er maður að þessu til að aðrir geti fylgst með manni, séð hvað maður er fljótur og hvað maður hjólar langt, eða erum við fyrst og fremst að þessu í þeim tilgangi að bæta eigin lífsgæði?“

Hún lýsir huganum sem félagslegu líffæri og að í honum mótist öll okkar félagslega hegðun allt frá því við erum börn.

„Frá upphafi er okkur sagt hvernig við eigum að haga okkur við ákveðnar félagslegar aðstæður, hvernig við ættum að bregðast við og svo framvegis, og smám saman skilyrðist hugarfarið inn á ákveðna hegðun. Þess vegna er fyrsta mál á dagskrá að skoða hugann ef við viljum breyta einhverju í lífinu,“ segir hún og bendir um leið á að allt snúist þetta um ákvarðanir. Að alla daga stöndum við frammi fyrir því að velja ýmist A eða B en styrkurinn og hamingjan séu í raun fólgin í því að velja það sem er betra fyrir mann þegar til lengri tíma er litið.

„Maður hugsar fyrst, ákveður sig og framkvæmir svo. Stundum ákveðum við hlutina svo fljótt að við tökum ekki einu sinni eftir því en því oftar sem maður staldrar við, hugsar málið og velur svo þann kostinn sem er betri fyrir mann til lengri tíma – eins og til dæmis að borða hollan mat í staðinn fyrir skyndibita, því betur líður manni og smátt og smátt verður hamingjan meiri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“