fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Kampavín í hádeginu og sandkökur á kvöldin

Lútherskur meinlætalifnaður með tilheyrandi samviskubiti er alls ekki lykillinn að löngu lífi. Það er endurtekningin og festan sem heldur okkur sprækum.

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 8. september 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef pælt svolítið í því af hverju sumir eldast vel en aðrir ekki. Hvaða galdur býr að baki?

Sumir borða sandkökur upp á dag og drekka vel af áfengi en verða samt 96 ára. Sitja heima hjá sér með kýrskýran koll og ráða krossgátur með gufuna í botni. Rífa kjaft. Aðrir hrökkva upp af um miðjan aldur, þrátt fyrir að hafa „tekið út sykur og hveiti“ og fylgt leiðbeiningum helstu lífsstílsráðunauta af stakri samviskusemi.

Hvað veldur?

Ég ákvað að leita ekki langt yfir skammt, horfði í kringum mig og velti því fyrir mér hvað elsta og hressasta fólkið í kringum mig ætti sameiginlegt. Svarið var ekki lengi að koma.

REGLUSEMI!

Og þá á ég ekki við reglusemi í hefðbundinni merkingu orðsins, altso bindindi, heldur reglusemi á öllum sviðum hversdagslífsins. Rútínu. Festu.

Keep calm and carry on

Winston Churchill var gott dæmi um mann sem vissi hvað klukkan sló þegar kom að góðum lifnaðarháttum. Hann vaknaði kl 7.30 alla morgna, borðaði morgunmatinn í rúminu, las blöðin og stússaðist fram að hádegi. Klukkan 13.00 fékk hann sér fyrsta kampavínsglas dagsins með hádegismatnum.

Klukkan 17.00 fékk hann sér viskí, púaði vindil og tók svo lúr fram að kvöldmat. Hann málaði líka myndir, dundaði sér við garðyrkju og elskaði og virti konuna sína, hana Klementínu. Var með þetta allt á tæru og kenndi fólkinu í landinu að halda ró sinni og halda áfram, eða eins og hann orðaði það: „Keep calm and carry on“.
Churchill lést níræður að aldri árið 1965.

Elísabet Bretadrottning hefur svipaðan takt. Hún vaknar alltaf klukkan 8.30, fær sér gin og dubonnet eftir kvöldmat og slekkur ljósið á miðnætti. Hún er 91 árs.

Niðurstaðan: Lútherskur meinlætalifnaður með tilheyrandi samviskubiti er ekki lykillinn að löngu lífi. Hreint ekki. Það er endurtekningin og festan sem heldur okkur sprækum. Tólf ára dóttir mín orðaði þetta reyndar afar vel þegar við ræddum málið um daginn: „Líkamanum líður langbest í rútínu og ef honum líður vel þá er líklegra að sálinni líði líka vel, þótt hún þurfi ekki eins mikla rútínu,“ sagði sú stutta. Einfaldara verður það ekki.

Þannig að ég segi bara skál í sérrí og sandköku krakkar mínir og ekki fara of seint að sofa.

Góða helgi!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir