fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Við fylgjum frekar hjartanu

Hún hefur óbeit á ABBA, hann hrífst af klárum konum, bæði láta hjartað ráða för

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 4. september 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau eru listamenn sem hvort í sínu lagi hefur heillað landann með sköpun sinni, hvort á sínu sviði. Gunnar Hilmarsson kannast margir við sem fatahönnuð merkja á borð við Andersen & Lauth, GK og Freebird. Ágústa Eva varð landsþekkt fyrir rúmum tíu árum þegar hún kom fram í gervi Silvíu Nætur og sló rækilega í gegn með laginu Til hamingju Ísland.
Undanfarin misseri hafa þau Ágústa Eva og Gunni starfað saman í hljómsveitinni Sycamore Tree en margir tónlistarunnendur þekkja hið gullfallega lag þeirra „My heart beats for you“ sem náði miklum vinsældum síðasta haust.

Birta fékk að fylgjast með þeim Gunna og Ágústu í myndatöku hjá Sögu Sig en nú undirbúa þau útgáfu plötunnar Shelter sem kemur út þann 24. þessa mánaðar. Ágústa Eva á svo von á lítilli stúlku í nóvember með unnustanum, Aroni Pálmarssyni. Það er því óhætt að segja að árið 2017 verði sérlega frjósamt fyrir söng- og leikkonuna ástsælu.

Tískuljósmyndarinn Saga Sig, Ágústa Eva og Gunni Hilmars við myndatökur fyrir væntanlega plötu með Sycamore Tree.
„Við nostrum við þetta“ Tískuljósmyndarinn Saga Sig, Ágústa Eva og Gunni Hilmars við myndatökur fyrir væntanlega plötu með Sycamore Tree.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

En hvernig kom það til að þau Gunni og Ágústa Eva hófu samstarf í tónlist?

„Ég þekkti Ágústu bara ekki neitt áður en við fórum að vinna saman,“ segir Gunni og rifjar upp að hún hafi reyndar brosað til hans og sagt „hæ“ fyrir nokkrum árum þegar þau mættust á Klapparstíg.

„Þetta „hæ“ var sem sagt kynni okkar áður en ég hafði samband við hana til að spyrja hvort hún vildi skapa tónlist með mér,“ segir Gunni kíminn. „Það var svo þegar við Ómar Guðjónsson útsetjari fórum að vinna í fyrstu lögunum og velta fyrir okkur hvaða söngkonu við ættum að leita að, þá reyndist Ágústa Eva efst á listanum. Lang, lang efst,“ segir Gunni og bætir við að hann hafi alltaf verið mjög hrifinn af söngrödd Ágústu. „Mér fannst hún smellpassa í þennan heim sem við erum að skapa með Sycamore Tree.“

Fylgja bæði hjartanu, láta bara vaða

Eftir einn kaffibolla og kalt vatnsglas á Kex Hostel, tóku þau Ágústa Eva og Gunni ákvörðun um að skella sér saman í þetta verkefni.

„Þá hafði ég fengið grunninn að laginu My heart beats for you og Full of love. Seinna lagið er reyndar ekki komið út en það verður á plötunni,“ segir Ágústa og Gunni skýtur því inn að hann hafi alveg sannfærst þegar hann heyrði hana syngja My heart beats for you. „Það þurfti ekki að hugsa meira um þetta.“

Gunni Hilmarsson hefur hingað til verið betur þekktur sem fatahönnuður en tónlistarmaður, en hann er þó enginn nýgræðingur í tónlist.

„Ég fékk fyrsta bassann minn þegar ég var 12 ára og hef spilað síðan. Svo eignaðist ég gítar tveimur árum síðar og hef í raun spilað daglega alla tíð. Að setjast niður og spila á hljóðfæri er mín hugleiðsla og slökun. Það var bara tímaspursmál hvenær ég færi á fullu í tónlistina. Þetta hefur verið minn draumur síðan ég var unglingur og það er aldrei of seint að láta draumana sína rætast,“ segir Gunni. „Fólk á að fylgja hjartanu og láta vaða. Hver veit hvað gerist. Aldrei hætta. Fyrir mér var heldur ekki hægt að finna betri „partner“ en Ágústu Evu. Hún fylgir líka hjartanu í því sem hún tekur sér fyrir hendur.“

Ekki mikill munur á því að skapa fatalínu eða semja tónlist

Gunni segir að það sé ekki gríðarlega mikill munur á því að skapa fatalínu og semja tónlist. Þetta sé að mörgu leyti sama ferlið, frá hugmynd, stefi og stemningu eða einhverju sem kemur sköpuninni af stað. Síðan taki við brothætt ferli þar sem margt fari saman og margt geti líka farið úrskeiðis.

„Frá hugmynd að tilbúnu lagi eða fatalínu eru þúsund skref. Að auki er öll upplifun tónlistar í dag ekki bara upplifun hljóðsins heldur einnig heildarmyndin í kring. Myndirnar og allt sem áheyrandinn og áhorfandinn upplifir þarf að „tóna“ saman við tónlistina þannig að úr verði heillandi heimur sem talar til hans,“ segir Gunni.

„Við nostrum við þetta allt saman. Frá hljóði til myndar. Samspil tónlistar og tísku er mjög náið og hefur lengi verið. Hönnuðir stórra tískuhúsa á borð við Dior, Saint Laurent, Gucci og fleiri upplifa tónlistarfólk og listarmenn sem þeirra innblástur.“

„Þó að Gunni sjái að mestu um textana þá er stundum eins og hann sé að skrifa líka alveg frá mínu hjarta. Oftar en ekki gapi ég og hristi hausinn því tímasetningarnar eru svo „spot on“. Stundum er eiginlega bara ótrúlegt að ég hafi ekki skrifað þetta sjálf, svo nákvæmar eru lýsingarnar á mínum hugsunum í textanum.“
Samrýnd í tónlistinni „Þó að Gunni sjái að mestu um textana þá er stundum eins og hann sé að skrifa líka alveg frá mínu hjarta. Oftar en ekki gapi ég og hristi hausinn því tímasetningarnar eru svo „spot on“. Stundum er eiginlega bara ótrúlegt að ég hafi ekki skrifað þetta sjálf, svo nákvæmar eru lýsingarnar á mínum hugsunum í textanum.“

Mynd: Saga Sig

Innblásturinn kemur frá klárum tónlistarkonum

Spurður að því hvaða áhrif væru helst ríkjandi í tónlistarheimi hans segir Gunni að grunnhugmyndin að heimi Sycamore Tree hafi verið ákveðin kreðsa af tónlistarkonum.

„Klárar konur sem nálgast tónlistina af einlægni og segja sögur. Konur eins og Carla Bruni, Lucy Rose, Lisa Ekdahl, Joni Mitchell. Einnig íslenskar konur eins og til dæmis Ragnheiður Gröndal. Þegar við Ágústa komum saman þá verður til eitthvað sem er bara Sycamore Tree og við getum ekki útskýrt það. Það verða aðrir að sjá um,“ segir Gunni, fær sér vænan sopa af sódavatni, skrúfar tappann á flöskuna og horfir svolítið dreyminn út um gluggann.

Elskar jóðl og falskan söng en þolir ekki ABBA og Bítlana

En hvaða tónlist heillar þau Ágústu Evu og Gunna? Hlusta þau á hvað sem er eða er eitthvað sem þau hryllir við? Gunni þarf ekki að hugsa sig tvisvar um.

„Þungarokk og Queen. Bara alls ekki takk,“ segir hann ákveðið en Ágústa er ekki eins fljót að svara. „Ég hef gaman af ótrúlegustu tónlist,“ segir hún. „Ég hlusta á allt frá frá Philip Glass, sem er eitt tormeltasta klassíska tónskáld tuttugustu aldar, jóðl og illa spilaða tónlist. Svo hef ég sérstaklega mikið dálæti á mjög fölskum söng. En það er tvennt sem ég ekki þoli og það eru annars vegar ABBA og hins vegar Bítlarnir. Svo fer sum söngleikjatónlist alveg rakleiðis niður í kokið á mér. Nei, eiginlega bara söngleikir yfirhöfuð. Mér finnst þeir eiginlega allir hræðilegir.“

Hlynurinn og andans menn í Hveragerði

En hvaðan kemur nafn hljómsveitarinnar? Af hverju „sycamore“ eða hlynur, hlynstré?
„Blöðin af hlynstrénu eru ævafornt tákn ástarinnar hjá ýmsum þjóðflokkum og þjóðum. Til dæmis indjánum og Japönum,“ útskýrir Ágústa sem býr í Hveragerði innan um mikinn gróður og skrúð.

„Ég er með stóran hlyn í garðinum mínum og skuggamyndir laufanna leika um suðurvegg hússins þegar sólin skín. Þessar dansandi skuggamyndir frá trénu eru einmitt mín fyrsta minning frá því ég lá í vöggu í eftirmiðdagskyrrðinni við fótagafl foreldra minna,“ segir Ágústa skáldlega og bætir við að hún sé innilega innblásin af anda skáldanna sem forðum gengu göturnar í Hveragerði.

„Þeir spókuðu sig spariklæddir en þó alþýðlegir, innan um hveri og dansandi regnboga. Andans menn á borð við Kristján frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum,“ segir hún með andtakt en skellir svo upp úr.

Haustið 2017 verður gjöfult fyrir Ágústu Evu sem á von á lítilli stelpu í nóvember.
Komin sjö mánuði á leið Haustið 2017 verður gjöfult fyrir Ágústu Evu sem á von á lítilli stelpu í nóvember.

Mynd: Saga Sig

„Stundum er ótrúlegt að ég hafi ekki skrifað þetta sjálf“

„Nei. Svona að öllu gríni slepptu þá langaði okkur í nafn sem fangaði kjarna tónlistarinnar en samt ekki alveg á beinan hátt. Þó að Gunni sjái að mestu um textana þá er stundum eins og hann sé að skrifa líka alveg frá mínu hjarta. Oftar en ekki gapi ég og hristi hausinn því tímasetningarnar eru svo „spot on“. Stundum er eiginlega bara ótrúlegt að ég hafi ekki skrifað þetta sjálf, svo nákvæmar eru lýsingarnar á mínum hugsunum í textanum. Þannig að ég stakk upp á þessu nafni, Sycamore Tree, af því það er tré lífsins, hamingjunnar og ástarinnar. Tré eru svo táknræn, á allan hátt.“

Ástin er berskjölduð og án varna

Talandi um ástina. Er hún meginstef plötunnar?
„Já, svo sannarlega,“ segir Ágústa. „Ástin í öllum sínum myndum er alls konar og endalaus uppspretta fyrir innblástur og hugmyndir. Þemað er mjög sterkt hjá okkur. Textarnir berskjaldaðir án nokkurra varna eins og ástin.“

Gunni tekur undir þetta. „Við útsetningu tónlistarinnar leituðumst við við að fylgja hjartanu frekar en einhverri formúlu eða fagurfræði. Við erum ýmist alveg lágstemmd eða ólgukennd með sterkum hljóðheimi sem kallast á við strengi og eða óhefðbundin hljóðfæri sem oft og tíðum er ekki hægt að greina hver eru. Hljóðheimurinn sjálfur er fremur dularfullur og eins og einhvers konar endurvarp frá sjálfum sér. Það sama má segja um raddirnar hjá Ágústu, ekki bara eitt sett af raddböndum, heldur marglaga og margfaldaðar tilfinningar sem dansa um sjálfa sig. Við segjum sögur. Hvert lag er lítil saga. Oftast ástarsaga.“

Kannski verður langt í næstu tónleika

Þann 24. september ætla þau Ágústa Eva og Gunni að halda útgáfutónleika í Hörpu. Þau lögðu mikið upp úr því að velja fullkominn tónleikastað og Kaldalón varð fyrir valinu.

„Salurinn er óvenjulega uppsettur, dýptin þar er æðisleg og auðvelt að vinna með umgjörðina. Framkalla ýmiss konar andrúmsloft sem við erum spennt fyrir að spreyta okkur á. Við ætlum okkur að skapa alveg einstakt kvöld, töfrum slungið,“ segir Gunni, lítur niður á stóran kvið Ágústu, lítur svo snögglega upp og segir:

„Kannski verður langt í næstu tónleika!? Kannski er litla stúlkan sem Ágústa Eva ber undir belti að flýta sér soldið eins og mamma sín. Það er eins gott að fólk verði á tánum með að kaupa miða ef það langar til að koma!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“