Hvað heita þessir fallegu bitar?
Ekki má teljast langt síðan fæstir Íslendingar vissu hvað sushi er en nú er þessi þjóðarréttur Japana ákaflega vinsæll hjá okkur, enda ekki langt að sækja gott hráefni.
Sushi er bæði borðað sem skyndibiti og sem spariréttur en þá er það gjarna pantað af veitingastöðum eða matreiðslumeisturum sem hafa sérstaka þekkingu á því hvernig sushi er gert. Þetta þýðir þó ekki að sushi sé of flókið fyrir venjulegt fólk. Hver sem er getur búið til sushi svo lengi sem réttu græjurnar eru við höndina, til dæmis góður pottur fyrir hrísgrjónin og bambusmotta til að móta vefjurnar. Það getur verið prýðileg skemmtun fyrir vini að koma saman til að gera sushi á góðu laugardagskvöldi.
Meginuppistaðan í sushi er smágerð hrísgrjón, soðin og blönduð ediki og sykri. Þetta er gert til að ná fram réttu „klísturstigi“ en það er mikilvægt til að hrísgrjónin loði saman. Svo er margs konar hráefni notað með þessu. Aðallega hrár fiskur og annað sjávarfang, til dæmis rækjur, hrogn og þess háttar, en svo hafa sumir tekið upp á því að útbúa bæði grænmetis- og kjúklinga-sushi fyrir fólk sem kýs að borða ekki hráan fisk. Mangó, lárperur, agúrkur og rjómaostur eru meðal þess sem þykir gómsætt í sushi-bitum.
Sushi er borðað með sojasósu, wasabi og hráu engifer sem er búið að marínera en það er notað til að hreinsa munninn milli bita.
Sushi samanstendur af nokkrum tegundum smábita sem hver heitir sínu nafni en þetta eru þeir algengustu.
Maki: Maki þýðir vefja á japönsku. Þetta er nafnið á bitanum sem flestir sjá fyrir sér þegar sushi ber á góma. Hráefni og hrísgrjón vafin inn í nori-þangblað.
Hosomaki: Minnstu vefjurnar, oftast með einhverju stökku í miðjunni.
Nigiri: Hrísgrjónakoddi með bita af hráum fiski ofan á. Nigiri á að borða með fingrunum.
Sashimi: Sashimi er einfaldlega bara biti af hráum fiski. Aldrei borið fram með hrísgrjónum og vanalega etið með prjónum.
Temaki: Temaki er gert úr nori-þangblöðum, mótað í eins konar keiluform, fyllt með fiski og hrísgrjónum. Gjarna borðað á ferðinni.
Uramaki: Uramaki er hvorki japanskt né samkvæmt þeirra hefðum. Þessar vefjur eru á röngunni, hrísgrjónin utanverð og stundum er sesamfræjum sáldrað yfir.