Suit Up Reykjavík
Suitup Reykjavik er ein mest spennandi herrafataverslun Reykjavíkur í dag. Verslunin sérhæfir sig í sérsaumuðum jakkafötum, skyrtum og yfirhöfnum í bland við vandaða aukahluti. Í sérsaumnum er mikil áhersla lögð á vönduð efni og fullkomið snið en þeir Egill og Jökull, eigendur Suitup Reykjavik, kaupa nær öll efni í jakkafötin og skyrturnar frá stærstu og virtustu ullarframleiðendum Ítalíu og Bretlands.
„Efnin kaupum við næstum öll frá Biella á Ítalíu en þar eru nær allir stærstu efnaframleiðendur Ítalíu með sínar verksmiðjur. Við leggjum mikla áherslu að nota einungis hágæða efni og notum við aldrei gerviefni eða ullarblöndur. Uppistaðan í efnunum sem við notum er áströlsk merinoull en við hana blandast oft kasmír, silki, hör og fleiri skemmtileg efni,“ segir Jökull Vilhjálmsson, annar eigenda verslunarinnar. Þeir félagar eru ungir menn, 26 og 27 ára, en hafa alla tíð haft brennandi áhuga á vönduðum fatnaði sem er mikilvægt í þessum bransa.
„Við leggjum mikla áherslu á vandað og fullkomið snið og eyðum miklum tíma í að fullkomna mælingarnar fyrir hvern og einn viðskiptavin. Við trúum því að fötin eigi að passa þér, en ekki öfugt og við sendum aldrei frá okkur flík nema bæði við og viðskiptavinurinn séum fullkomlega sáttir við sniðið.“
Að sögn Jökuls eru viðskiptavinirnir á öllum aldri og fjölbreyttur hópur. „Við afgreiðum allt frá fermingar- og brúðkaupsfötum yfir í vinnuföt,“ segir Jökull en köflótt og önnur mynstruð föt eru hvað vinsælust um þessar mundir.
Suitup Reykjavik býður ekki bara upp á sérsniðin jakkaföt og skyrtur, heldur afar vandaða skó frá bæði Spáni og Ítalíu og gott úrval aukahluta sem nær allir eru framleiddir á Ítalíu undir þeirra eigin merki. Hanskar, treflar, bindi, vasaklútar og fleiri aukahlutir prýða nýja verslun Suitup Reykjavik að Grandagarði 9.
„Við erum með virkilega gott úrval af aukahlutum sem eru fullkomnir í jólapakkann. En okkar allra vinsælasta jólagjöf er án nokkurs vafa jakkafata- og skyrtugjafabréfin. Sá sem fær gjafabréfið að gjöf mætir síðan til okkar á Grandagarð og velur úr hundruðum efna, er mældur frá toppi til táar og hefur síðan tækifæri til að gera flíkina að sinni með ýmsum smáatriðum, s.s. vali á mismunandi krögum, tölum og fleiru.“
Gjafabréfin er hægt að panta beint af vefnum www.suitup.is og eru þau heimsend að kostnaðarlausu. Einnig er hægt að nálgast gjafabréfin í glænýrri verslun Suitup Reykjavik að Grandagarði 9. „Við erum nýlega búnir að opna hér nýja og betri Suitup Reykjavik á Grandanum, einu mest spennandi svæði Reykjavíkur. Við kunnum afar vel við okkur á Grandanum og fylgjumst spenntir með þeirri uppbyggingu sem mun eiga sér stað á svæðinu á næstu mánuðum og árum.“