Tónlistarparið hefur komið sér notalega fyrir í Mávahlíðinni
„Við Kalli erum búin að vera í fjögur ár í sambúð. Við höfðum reyndar bæði búið erlendis áður en við rugluðum saman reitum svo það var ekkert mikið vesen með húsgögnin eins og oft vill verða þegar fólk byrjar að búa saman á fullorðinsárum,“ segir Sigga Eyrún söng – og leikkona sem kynntist sambýlismanni sínum, Karli Olgeirssyni, í gegnum tónlistina fyrir rúmlega fjórum árum.
„Við fluttum hingað í Mávahlíðina fyrir um það bil tveimur árum og kunnum mjög vel við okkur í þessu hverfi. Kalli ólst upp í hérna en sjálf hef ég búið hér meira eða minna öll mín fullorðinsár, það er að segja þegar ég hef ekki búið í öðrum löndum.“
Hvernig kom það til að þið fóruð að búa saman?
„Hann var píanóleikari í tónleikaröð sem ég og nokkrir listamenn stóðum að saman. Tónleikana kölluðum við Ef lífið væri söngleikur og við fluttum þá bæði í Salnum í Kópavogi og fórum á tónleikaferð um landið. Svo var þetta svona eins og gengur, eitt leiddi af öðru og eftir hálft ár vorum við byrjuð að búa saman,“ segir Sigga.
Spurð að því hvað henni þyki skipta miklu máli á heimilinu segir hún að kósýheit séu ofarlega á blaði.
„Ég vil til dæmis hafa huggulegt og notalegt í kringum mig og drasl truflar mig til dæmis ekki svo mikið ef umhverfið er kósý. Ef dóttir mín hefur til dæmis skilið eftir dót á stofugólfinu þá finnst mér það kannski bara kósý þó sumir myndu kannski upplifa það sem drasl. Ég er semsagt mikið fyrir þetta sem danir kalla hygge en þar bjó ég jú sem barn. Svo hef ég líka búið í Toronto í Kanada og þar er einnig mikið lagt upp úr notalegheitum enda kalt land eins og Ísland. Hér á norðurslóðum erum við meira fyrir kertaljós, viðarhúsgögn, teppi og stóra notalega sófa enda á það vel við þegar kaldir vindar blása úti meira eða minna allt árið.“
Talandi um kalda vinda. Sambýlingarnir Sigga Eyrún og Kalli stefna á að halda notalega jólatónleika í Iðnó þann 17. Desember og aftur þann 20. í Seljakirkju. „Við ætlum að spila gömul og ný jólalög, bæði á ensku og íslensku. Kalla fram lágstemmdan og notalegan jólaanda sem ætti að koma öllum, bæði ungum og öldnum í jólagírinn,“ segir Sigga Eyrún að lokum.