Veganúar er viðburður, eða áskorun, sem haldinn er í janúarmánuði ár hvert og hefur það að markmiði að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan-fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd. Veganúar er hluti af alþjóðlegri Veganuary-hreyfingu sem hófst í Englandi í janúar 2014 og hefur hreyfingin nú náð til margra landa. Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa staðið fyrir þessari árlegu Veganúar-áskorun síðan 2015 og verður því Veganúar 2018 í fjórða skipti sem áskorunin er haldin hérlendis. Meðal þess sem er á dagskrá Veganúar 2018 eru fræðslufundir, málþing og kvikmyndasýning. Skorað er á þátttakendur að neyta eingöngu vegan grænmetisfæðis í janúarmánuði og upplifa af eigin raun hversu gefandi, heilsueflandi og auðvelt það getur verið.
Núna stendur þér til boða að taka þátt í Veganúar – frábær leið til að byrja nýtt ár. Kynningarfundur um Veganúar verður haldinn í Bíó Paradís miðvikudagskvöldið 3. janúar kl. 20.00.
Það eru margar og fjölbreyttar ástæður fyrir því að fólk gerist vegan. Fyrir flesta er dýravernd aðalhvatinn. Suma langar að líða betur og hafa jákvæð áhrif á jörðina. Aðrir sækjast eftir árskoruninni en margir nota Veganúar sem áramótaheit og líta á mánuðinn sem heilsusamlega byrjun á árinu.
Við það að gerast vegan í einn mánuð upplifir þú nýjar víddir í matargerð og aukna líkamlega og andlega vellíðan.
Veganúar er ekki endilega heilsuátak, sykur og hveiti er t.d. vegan og það er fullt af snakki og nammi vegan án þess þú vitir það, (t.d. Oreo, margt dökkt súkkulaði, Svart doritos og flest snakk). Það er hægt að fá safaríka veganborgara og franskar á flestum veitingastöðum bæjarins og pitsur með vegan osti (eða án osts, kemur á óvart að hann þarf ekki). Það verða tilboð frá veitingastöðum á síðunni veganuar.is og þar verður margt fróðlegt og girnilegt að sjá.
Aðalstyrktaraðilar veganúar í ár eru verslanir Nettó, sem bjóða upp á mjög gott úrval vegan matvara, og Landsbankinn, sem veitti Samtökum grænmetisæta samfélagsstyrk til verkefnisins.
Flestir sem eru vegan hafa horft á eftirtaldar þrjár heimildamyndir: Cowspiracy, sem fjallar um áhrif dýraafurða-iðnaðarins á umhverfið og náttúruna, Forks Over Knives fjallar um heilsusamlegan ávinning þess að vera vegan, og Earthlings fjallar um aðbúnað dýra í iðnaðinum.
Einnig eru margar bækur gagnlegar, t.d. Eating Animals eftir Jonathan Safran Foer, How Not To Die eftir Michael Greger M.D og Animal Liberation eftir Peter Singer.
Til að koma sér í gírinn er gott að losa sig við alla matvöru með dýraafurðum fyrir áramót, annaðhvort með því að klára hana eða gefa hana.
Veganismi er lífsháttur þar sem leitast er við að útiloka og forðast – eftir fremsta megni – hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu.
Þá er kjörið að sækja matarplan á vefsíðuna veganuar.is og kaupa í matinn eftir því. Hægt er að fá sér vegan sponsor (stuðningsaðila) sem fer með út í búð, kaupir inn með þér og eldar jafnvel með þér. Hægt er að sækja um vegan sponsor á veganuar.is eða á kynningarfundinum í Bíó Paradís 3. janúar.
Þá er skemmtilegt að fylgjast með Veganúar-snappinu en þar er nýr aðili að miðla upplýsingum og fræðslu daglega í janúar.
Allir sem hafa áhuga á að taka þátt eru velkomnir á kynningarfund Veganúar í Bíó Paradís miðvikudaginn 3. janúar kl. 20.00.