Blómabúðin Runni, Hverafold 1-3 í Grafarvogi, byggir á gömlum og traustum grunni. Hjónin Rósa Williamsdóttir og Sigurður Erlendsson tóku við rekstri búðarinnar þann 15. september síðastliðinn. Fyrri eigendur voru foreldrar Rósu, þau Sigrún Jónsdóttir og William Gunnarsson. Rósa er þriðji ættliðurinn í blómasölu en hún hefur að baki alls 50 ára reynslu í faginu, eða allt frá því amma hennar, Lára Fjeldsteð Hákonardóttir, rak blómabúðina Runna í Hrísateig í mörg ár.
Runni leggur áherslu á sölu á ferskum blómum, hvers kyns skreytingar, fjölbreyttar gjafavörur, púða, skart, úr og fleira. Fjölbreytnin er mikil en að sögn Sigurðar Erlendssonar er mesta salan í ferskum blómum. „Boðið er upp á heimsendingar og ef þarf að senda einhverjum erlendis þá erum við tengd Euroflorist. Margir nýta sér þetta,“ segir Sigurður.
Framúrskarandi blómaskreytingar og gjafaskreytingar eru á meðal þess sem lyfta Runna upp sem blómaverslun: „Hún Rósa hefur þetta í blóðinu enda hefur hún fengist við blómaumsýslu frá barnsaldri. Ég vil meina að þessar skreytingar hennar séu margar hverjar listaverk enda hefur hún fengið ákaflega góða dóma fyrir þær,“ segir Sigurður.
Blómabúðin Runni er opin alla daga vikunnar. Á sunnudögum er opið frá 11 til 17 en aðra daga frá 10 til 19. Til að panta blómasendingar eða fá upplýsingar er best að hringja í síma 567 0760. Runni er einnig með ágæta síðu á Facebook, sjá hér.