Skelltu í eina fyrir kaffitímann
Það er ekki flókið að baka súkkulaðiköku á skömmum tíma. Þessi franska kaka hentar mjög vel með góðu kaffi eða ískaldri mjólk.
300 gr dökkt súkkulaði (56%)
150 gr appelsínusúkkulaði
250 g smjör
2 msk síróp
6 egg
100 g hveiti
Hitið ofninn í 200°. Bræðið súkkulaði, síróp og smjör saman í potti við vægan hita og hrærið í á meðan. Þeytið eggin þar til þau verða létt og ljós og blandið súkkulaðiblöndunni saman við hægt.
Sigtið síðan hveitið út í og blandið varlega saman við með sleikju þar til deigið er orðið silkimjúkt. Notið um 24-26 cm bökunarform og setjið bökunarpappír á botninn á því eða smyrjið með olíu. Hellið deiginu í formið og bakið í 5 mínútur. Þá er álpappír settur yfir formið og bakað áfram í 10-12 mínútur. Kakan á að vera frekar blaut þegar hún er tilbúin.
Það er mjög gott að hella súkkulaðiblöndu ( eins og er í uppskriftinni ) yfir kökuna þegar hún er volg, því þá verður hún blaut og bragðast dásamlega með ís eða þeyttum rjóma og ferskum berjum. Stráið flórsykri yfir í lokin til að fá sætu – og síðan er það svo fallegt fyrir augað.