Guðmundur og Þórey hjá Þernunni eru alltaf á vaktinni
Guðmundur Aðalsteinn Sigurðsson hefur lengi veitt stórum hluta Eyfirðinga fatahreinsun og skylda þjónustu. Guðmundur hefur rekið Þernuna fatahreinsun á Dalvík frá árinu 2008 og síðastliðið sumar tók hann við rekstri Efnalaugarinnar Lindar á Siglufirði. Fyrirtækin rekur hann með eiginkonu sinni, Þóreyju Tulinius.
„Þegar ég keypti Þernuna tók ég yfir þjónustusamning við ÁTVR og rak áfengissöluna í sama húsi, að Hafnarbraut 7. Þjónustusamningur við ÁTVR var svo ekki í boði frá 2013 og eftir það hefur ríkið rekið áfengissöluna í sama húsi en við fluttum Þernuna í næsta hús, að Hafnarbraut 11, en Hafnarbraut 9 er ekki til,“ segir Guðmundur.
Dalvíkingar nýta sér óspart þjónustu Þernunnar en þjónustan teygir sig víða. Þar sem engin efnalaug er í Ólafsfirði sækja Ólafsfirðingar sér fatahreinsun til Dalvíkur og einnig Siglufjarðar þar sem þau Guðmundur og Þórey reka Lindina en auk þess þjónusta þau Akureyringa og fleiri nærsveitunga mikið.
Útleiga á rykmottum til stofnana og fyrirtækja er töluverður hluti af starfseminni: „Við hjónin erum með um 300 mottur í umferð í dag. Þetta eru skiptimottur sem við leigum til fyrirtækja og stofnana víðs vegar um Eyjafjarðarsvæðið og fyrirkomulagið er þannig að ég kem á staðinn með hreina mottu og sæki óhreinu mottuna.“ Aðspurður viðurkennir Guðmundur að þetta sé ærinn starfi. Við höfum eingöngu selt rykmottur til einstaklinga sem þess óska en leiguþjónustan er fyrir fyrirtæki og stofnanir.
„Í öllum efnalaugum er það þannig að það er meira að gera fyrir hvítsunnu, páska, jafnvel fyrir haustfagnaði – og loks fyrir jólin. Af þessum hátindum eru langmestu annirnar fyrir jólin,“ segir Guðmundur. Hann segir að almennt sé fólk mjög tímanlega með sparifötin sín í hreinsun.
„Langflestir koma tímanlega með fötin sín í hreinsun en þó eru alltaf einhverjir sem kom seinna en aðrir, eins og gengur. Það eru alltaf einhverjir sem vakna upp við það að jólin eru á morgun eða hinn og fötin eru óhreinsuð. Ég reyni því alltaf að bjarga málunum þegar slíkt kemur upp ef ég get. Ég hef meira að segja reddað skyrtum á aðfangadag og jafnvel fötum. Eitt sinni hringdi í mig maður sem hafði látið mig hreinsa þjóðbúninginn sinn og hélt að hann hefði fengið rangan þjóðbúning því hann komst ekki lengur í hann. Ég sagði honum sem satt var að þetta hefði verið eini þjóðbúningurinn sem var til hreinsunar í hans stærð og því hefðu fötin ekki minnkað, það væri hann sem hefði stækkað. Klukkan var að verða fimm á aðfangadag. Ég hafði keypt nokkra þjóðbúninga karla til að leigja út við hátíðleg tækifæri og gat því bjargað honum um einn slíkan svo hann gæti haldið jólin í nýjum þjóðbúningi.“
Þessi saga er gott dæmi um það að eigandi efnalaugar er alltaf á vaktinni og segir Guðmundur að hann og eiginkona hans séu í raun alltaf á bakvakt.
Sem fyrr segir keyptu þau Guðmundur og Þórey rekstur Efnalaugarinnar Lindar á Siglufirði síðastliðið sumar og reka hana áfram með nánast sama starfsfólki og var, sem skiptir líka máli í þessari starfsgrein en fyrirtækið á sér yfir aldarfjórðungs sögu. Starfsemi Lindarinnar er sambærileg og Þernunnar en talsvert umfangsminni enda hefur Þernan þjónað stærra svæði í langan tíma.
„Ég keyri á milli og fer þrisvar í viku til Siglufjarðar á veturna. Á sumrin fer ég sex sinnum í viku,“ segir Guðmundur en hann byrjaði að veita Siglfirðingum þjónustu löngu áður en hann tók við Lindinni.
„Við höfum leigt allt lín, handklæði og lök á gistiheimilið Siglunes á Siglufirði á vegum Þernunnar allar götur síðan 2011. Ég hef líka verið að leigja út mottur á Siglufirði. Það var því rökrétt framhald að við hjónin tækjum við rekstri Lindarinnar,“ segir Guðmundur.
Þernan fatahreinsun, Hafnarbraut 11, Dalvík – sími: 464-2700, 899-9360, 845-2700
Efnalaugin Lind, Aðalgötu 21, Siglufirði – sími: 467-1966