The Coocoo’s Nest, Grandagarði 23
„The Coocoo’s Nest var með þeim fyrstu hér á svæðinu,“ segir Íris Ann Sigurðardóttir hjá veitingastaðnum The Coocoo’s Nest að Grandagarði 23, en staðurinn var opnaður í september árið 2013. Síðan þá hefur orðið mikil gróska á hafnarsvæðinu og stór hópur viðskiptavina heldur mikilli tryggð við The Coocoo’s Nest. „Við eigum dásamlega fastakúnna sem koma aftur og aftur og okkur þykir mjög vænt um,“ segir Íris.
Íris rekur staðinn ásamt eiginmanni sínum, Lucas Keller, sem er frá Kaliforníu en af ítölskum ættum. Lucas sér um matreiðsluna á staðnum og þar blandast mikið saman ítölsk og amerísk áhrif. Mikil fjölbreytni einkennir matseðilinn auk áherslu á hollustu. Hjónin bæði hafa tileinkað sér heilsusamlegan lífsstíl og leggja áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum upp á mat sem sameinar það að vera gómsætur og heilsusamlegur.
Á meðan fjölbreytni einkennir matseðilinn þá ræður einfaldleikinn ríkjum í einu helsta trompi staðarins, súrdeiginu. „Pizzurnar okkar eru súrdeigspizzur og við gerum brauð úr þessu súrdeigi sem við bökum hér á staðnum alla daga og brauðin seljum við frá okkur. Súrdeigið er lagað alveg upp á gamla mátann, 100 prósent gerlaust, við förum gömlu leiðina í þessu. Fegurðin er fólgin í einfaldleikanum eins og í allri ítalskri matargerð og í súrdeiginu er það bara salt, vatn og hveiti – alveg gerlaust.“
Íris og Lucas kappkosta að hafa alltaf nýtt og ferskt hráefni í matnum á The Coocoo’s Nest. „Hér er allt búið til samdægurs hjá okkur og við frystum ekki eða hlöðum upp birgðum á nokkurn hátt. Hráefnið er alltaf nýtt,“ segir Íris.
Mikið úrval af pizzum er í boði en ein vinsælasta pizzan er með gráðaosti, eplum og hunangi – og hefur sú pizza slegið rækilega í gegn. Á miðvikudags- og fimmtudagskvöldum eru svokölluð pizzakvöld á The Coocoo’s Nest og þá er alltaf boðið upp á nýjar tegundir af pizzum, gestir fá því að prófa eitthvað nýtt og spennandi í hverri viku. Nýjung á pizzakvöldunum núna eru mjög gómsætir og frumlegir forréttir.
Opið er á The Coocoo’s Nest þriðjudaga–laugardaga frá klukkan 11–22 og sunnudaga frá 11–16. Lokað er á mánudögum. Nánari upplýsingar og matseðla má sjá á vefsíðunni coocoosnest.is.