Um þetta leyti í fyrra bauð Eldsmiðjan upp á jólapizzuna Babbo Natale sem sló rækilega í gegn. Á þessari pizzu er afar skemmtileg samsetning af girnilegu áleggi: Kalkúnn, beikonkurl, villisveppaostur, pekanhnetur, rifsberjahlaup og kremaður camembert-ostur. Margir hafa beðið í ofvæni eftir því að fá þessa gómsætu pizzu aftur á matseðilinn og þeir sem hafa ekki smakkað hana eiga gott í vændum.
Eldsmiðjan er fyrirtæki sem hvert mannsbarn þekkir og hefur verið starfandi frá árinu 1986. Einar Dagur Jónsson var um árabil einn þekktasti pizzusendill landsins en er núna veitingastjóri hjá Eldsmiðjunni. Einar Dagur segir að starfsreynsla eldri starfsmanna fyrirtækisins sé ómetanleg, sérstaklega þar sem eldbökun sú sem Eldsmiðjan viðhefur krefst mikillar þekkingar og alúðar en um leið þarf að afkasta á hraða skyndibitastaðarins:
„Við búum til mjög margar pizzur á stuttum tíma og önnum mikilli eftirspurn í eldbökun. Það tekur tíma að læra að eldbaka pizzur í stórum, hlöðnum steinofnum þar sem okkar kyndingarefni er viður úr Hallormsstaðarskógi – birki. Það tekur marga mánuði og jafnvel nokkur ár að fullkomna þessa þekkingu, þannig að þetta líti fallega út um leið og miklu er afkastað á stuttum tíma. Þetta krefst þess að reynsluboltar stýri stöðunum og leiði okkar yngra og ágæta starfsfólk og sjái um þjálfun á nýju starfsfólki.“
Eldsmiðjan leggur mikla áherslu á ferskt og vandað hráefni. „Til dæmis er pepperóníið okkar sérlagað fyrir okkur og þú finnur það hvergi annars staðar. Við fáum fyrsta flokks deig og osturinn kemur frá Mjólkursamsölunni. Eldsmiðjan pantar afar ört inn hráefni sitt og situr því aldrei uppi með stóran lager. Sífelldar pantanir valda því að viðskiptavinirnir eru alltaf að fá nýtt og ferskt hráefni í matinn sinn, sem veitingastjóri þarf ég að panta hráefni alla daga,“ segir Einar.
Eldsmiðjan rekur í dag fimm staði; hjá N1 á Ártúnshöfða, við Bragagötu, við Laugaveg, við Suðurlandsbraut og að Dalvegi 4. Allir staðirnir bjóða upp á að veitinga sé notið á staðnum, heimsendingu eða að maturinn sé sóttur. Nú er Eldsmiðjan komin með nýuppfært smáforrit sem einfaldar viðskiptavinum til muna að panta þegar heimsent er eða sótt.