Kannski ert þú týpan sem lítur svo á að það megi pakka jólagjöfinni inn í helgarblað DV kringum hádegi á aðfangadegi og henda svo undir tréð? Það er gott og blessað (og vissulega heiður fyrir blaðamenn DV) en gerir kannski ekki eins mikið fyrir jólastemninguna.
Ef þú ert að fara að elda ofan í tuttugu manns þá ert þú löglega afsökuð eða afsakaður og það sama gildir fyrir ykkur klaufana. Maður getur víst ekki allt en vittu að það er blessunarlega hægt að leita sér aðstoðar með þetta mál líkt og önnur.
Birta fór á stúfana og heimsótti þrjár blómabúðir á höfuðborgarsvæðinu enda tilvalið að leita ráða hjá fagurkerum sem sérhæfa sig í hvers konar skreytingum á degi hverjum.
Hrafnhildur hjá Blómagalleríi við Hagamel 67 segir upplagt að fólk komi með gjafapoka með góðum fyrirvara og svo sé hægt að sækja pakkana næsta dag. „Verðið fyrir innpökkunina getur rokkað frá 1.200 krónum og upp úr, en það fer eftir stærð og umfangi hlutarins sem á að pakka inn,“ útskýrir Hrafnhildur en Auður í Blómabúðinni á Garðatorgi og Nanna hjá Breiðholtsblómum segja verðið svipað hjá þeim, eða sirka frá 1.200 og upp úr.
Eldheitur Þessi er tilvalinn fyrir ástkonuna, ástmanninn eða bara þá sem elska rauða litinn. Einstaklega fallegur pakki frá Blómagalleríinu á Hagamel.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Snotur Það má gera litla gjöf stærri með svona fallegum umbúðum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Gull og gersemar Þessi gullfallegi pakki kemur frá Hrafnhildi í Blómagalleríinu á Hagamel.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Silfur Yndislega fallegur silfurpakki frá Blómagalleríinu á Hagamel.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Jólasveinn sem pakkaskraut Þessi sæti pakki kemur úr blómabúð Auðar á Garðatorgi 4 í Garðabæ.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Prýði undir jólatrénu Fallegir pakkar geta verið mikil prýði undir jólatrénu svo ekki sé minnst á hversu gaman er að rétta þá viðtakandanum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Hringlaga askja Auður á öskjur í alls konar stærðum og gerðum sem henta vel undir hvers konar pakka sem gæti verið erfitt að pakka inn í pappír. Krúttlegi kransinn getur fylgt með.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Breiðholtsblóm Fallegur og dömulegur pakki frá Nönnu í Breiholtsblómum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Reffilegur Það er gaman að nota greinar á pakkana en þá gengur ekki að pakka þeim allt of snemma inn. Þorláksmessukvöld væri tilvalið fyrir þessa skreytingu.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Fyrir virðulegan afa Þessi virðulegi pakki sem pakkað var inn af Nönnu hjá Breiðholtsblómum er ákaflega jólalegur með könglum og greni. Gæti t.d. hentað virðulegum eldri manni.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari