„Jómfrúrnar“ á Jómfrúnni í Lækjargötu deila þessari girnilegu og gullfallegu síldarbrauðs uppskrift með lesendum Birtu. Útgangspunkturinn er að fólk geti vippað þessu fram með stuttum fyrirvara í jólastressinu.
„Með þessu er hægt að töfra fram síld fyrir sex manns á fimmtán til tuttugu mínútum. Það má nota þetta sem forrétt, millirétt eða hvernig sem fólk það vill hafa það og svo setti ég inn smá hugmyndir að meðlæti svo það sé hægt að bera þettta fallega fram fyrir gestina, helst á dönskum diskum með Álaborgarsnafsi,“ segir Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar í Lækjargötu.
„Það eru ekki allir sem hafa þá hefð að bjóða upp á síld á jólunum en það er auðvelt að komast upp á lagið með njóta hennar. Þá legg ég til að fólk velji sér gott rúgbrauð og svo er frábært að hafa kaldan Álaborgarsnafs með. Svona upp á stemninguna.
Það eru að róterast hérna ættliðirnir af fastagestum enda Jómfrúin búin að vera til í 23 ár
Síldin er rosalega vinsæl hjá okkur á Jómfrúnni fyrir jólin og það er allt upp bókað fram að Þorláksmessu. Við erum samt búin að ákveða að hafa opið milli jóla og nýárs og þá getur fólk komið í jólaseðilinn líka, til áramóta.
Það er bullandi stemning hérna fyrir jól og heilmikið stuð. Fólk er að skála svolítið, en okkur finnst það skemmtilegast að nú eru fastagestirnir farnir að koma með börn og barnabörn, sem koma svo aftur með börnin sín seinna. Það eru að róterast hérna ættliðirnir af fastagestum enda Jómfrúin búin að vera til í 23 ár.“
Forréttur fyrir sirka 4–6
500 g marineruð síld
4 msk. majónes
1 msk. sýrður rjómi, 18%
1 msk. dijon-sinnep
1 msk. worcestershire-sósa
1 msk. hunang
4 msk. fersk, fínt rifin piparrót
safi og raspaður börkur af ½ sítrónu
Salt og hvítur pipar
Aðferð
Gott er að byrja á því að sigta allan síldarlöginn vel frá síldinni. Blanda saman í skál öllum hráefnunum nema síldinni og smakka dressinguna til með salti og pipar. Bætið að lokum síldarbitunum út í. Gott er að geyma piparrótarsíldina í kæli yfir nótt áður en hún er borin fram.
Framsetning
4–6 rúgbrauðssneiðar með íslensku smjöri, 5 stk. soðin egg, skorin í báta, 5 stk. kirsuberjatómatar, skornir til helminga, 1 stk. rauðlaukur, sneiddur niður í fallega þunna hringi. Kapersber, sólselja og toppað með fínt rifinni piparrót.