Allt sem þú þarft að vita um borgirnar í Rússlandi sem Ísland spilar í – Verð á mat, bjór, leigubílum og hótelum
Það styttist í að HM í knattspyrnu hefjist í Rússlandi og eru margir Íslendingar eflaust farnir að skipuleggja ferðir á leiki íslenska liðsins. Ísland mun að minnsta kosti spila þrjá leiki í þremur borgum og hefur DV tekið saman ýmsar gagnlegar upplýsingar um þær borgir sem íslenska liðið mun spila í. Meðal þeirra upplýsinga sem DV hefur tekið saman er verð á ýmsum vörum og þjónustu; mat, bjór, hótelum og leigubílum til dæmis og þá er þeim sem hugsa sér gott til glóðarinnar bent á það sem þarf að varast í viðkomandi borgum.
Íbúafjöldi: 13,2 milljónir
Leikur gegn: Argentínu 16. júní
Fyrsti leikur Íslands á HM fer fram í höfuðborginni Moskvu. Moskva er ein fjölmennasta borg heims og mun fjölmennari en til dæmis New York og London. Þá er hún einnig mjög stór að flatarmáli. Borgin þykir nokkuð dýr og getur gisting á góðum hótelum miðsvæðis kostað fúlgur fjár en þó er einnig hægt að finna mjög ódýra gististaði. Ísland spilar á Spartak Stadium í Moskvu sem er ekki ýkja langt frá miðborginni og því þarf ekki að leggja á sig langt ferðalag til að komast þangað, að því gefnu að fólk haldi sig miðsvæðis í borginni.
Hvað er hægt að gera? Það er hægt að sjá marga fallega og sögufræga staði í Moskvu. Rauða torgið, St. Basil-dómkirkjan og Kreml eru meðal þekktustu kennileita borgarinnar. Þá þykir neðanjarðarlestarkerfið eitt það glæsilegasta í heimi og þangað er farið í skipulagðar ferðir með ferðamenn.
Hvað er ókeypis? Fyrirtækið Moscow Free Tour býður upp á ókeypis skoðunarferðir um borgina og þá kostar ekkert að fara á Rauða torgið eða að grafhvelfingu Leníns. Aðgangur að Gorky House-Museum er einnig ókeypis en það er frægt safn sem á rætur sínar að rekja til ársins 1906. Hafa ber í huga að þetta er ekki tæmandi listi.
Hvað þarf að varast? Vasaþjófar eru í öllum stórborgum og er Moskva engin undantekning. Þá er mælt með því að gangandi vegfarendur hafi varann á sér í kringum fjölfarnar umferðargötur þar sem ökumenn gæta ekki alltaf fyllstu varúðar. Loks eru ferðamenn hvattir til að vera ekki einir á ferð eftir að rökkva tekur.
Hvað kostar bjórinn? Það fer eftir því hvar hann er keyptur og hvort um er að ræða rússneskan eða innfluttan bjór. Samkvæmt vefnum Numbeo getur bjórkrúsin af rússneskum bjór kostað frá 160 krónum og upp í 340 krónur á meðan innfluttur bjór getur kostað frá 210 krónum og upp í 530 krónur.
Hvað kostar að taka leigubíl? Startgjaldið er að jafnaði um 260 krónur og síðan kostar hver kílómetri rúmar 20 krónur. Sumir rukka meira, eða allt að 350 krónum fyrir startgjald og síðan 30 krónur fyrir kílómetrann. Athugið að hér er átt við dagtaxta en ekki næturtaxta sem er hærri. Þá er rétt að benda á að Uber er í Moskvu en þegar þetta er skrifað er DV ekki kunnugt um starfsemi fyrirtækisins annars staðar en í Moskvu og Sankti Pétursborg.
En strætó? Ein stök ferð kostar tæpar 90 krónur, samkvæmt Numbeo.
Hvað kostar dæmigerð máltíð á veitingastað? Dæmigerð máltíð á sæmilegum veitingastað fyrir einn, að kvöldi til, getur kostað frá 800 krónum og upp úr. Máltíð á McDonald’s, samkvæmt vefnum Numbeo, kostar um 300 rúblur, eða 530 krónur.
Hvað kostar hótelnóttin? Blaðamaður notaði vefinn booking.com til að finna verð á hótelgistingu. Miðað var við innritun föstudaginn 15. júní og brottför sunnudaginn 17. júní og tvær manneskjur í herbergi. Hægt er að finna hostel sem kosta frá 800 krónum tvær nætur og hótel sem kosta upp í 400 þúsund krónur tvær nætur. Dæmigert verð á þriggja stjörnu hóteli í miðri borginni er 110 til 170 þúsund krónur tvær nætur. Mörg þessara hótela eru þó orðin uppbókuð.
Íbúafjöldi: 1 milljón
Leikur gegn: Nígeríu 22. júní
Volgograd, áður Stalíngrad, er 970 kílómetra suður af Moskvu. Þetta er iðnaðarborg sem stendur við vesturbakka árinnar Volga sem hún dregur nafn sitt af. Volgograd er falleg borg en tiltölulega lítil á rússneskan mælikvarða. Hún er fimmtánda fjölmennasta borg landsins.
Hvað er hægt að gera? Í borginni er að finna marga fallega staði. Einn sá vinsælasti er Mamayev Kurgan, hæð fyrir ofan borgina, þar sem finna má hæstu styttu af konu í heiminum. Á þessari hæð fóru fram blóðugir bardagar í síðari heimsstyrjöldinni. Þá eru flott söfn í borginni, til dæmis Panorama Museum of the Battle of Stalingrad.
Hvað er ókeypis? Það kostar ekkert að fara upp að Mamayev Kurgan og þá kostar ekkert að drekka í sig menningarlíf borgarinnar.
Hvað þarf að varast? Volgograd er tiltölulega örugg borg, samkvæmt Lonely Planet, en á það er þó bent að mannskæð hryðjuverkaárás átti sér stað í borginni árið 2013. Sautján létust þegar sprengja sprakk í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Vasaþjófar eru stundum á fjölförnum ferðamannastöðum og þá er fólk hvatt til að vera ekki eitt á ferli þegar kvölda tekur.
Hvað kostar bjórinn? Eins og í Moskvu skiptir máli hvort um er að ræða rússneskan bjór eða innfluttan. Hálfur lítri af rússneskum bjór á veitingastað kostar um 120 krónur en dós af innfluttum bjór er um tvöfalt dýrari að jafnaði.
Hvað kostar að taka leigubíl? Startgjaldið er 90–160 krónur og hver kílómetri eftir það kostar tæpar 20 krónur. Leigubílar eru því ódýrari í Volgograd en Moskvu, samkvæmt Numbeo.
En strætó? Eitt stakt far kostar 35 krónur.
Hvað kostar dæmigerð máltíð á veitingastað? Máltíð fyrir tvo á meðalgóðum veitingastað kostar um 1.600 rúblur, eða 2.800 krónur. Hægt er að fá ódýrari mat en einnig mikið dýrari.
Hvað kostar hótelnóttin? Notast var við sömu aðferð og sömu forsendur og þegar hótelverð í Moskvu var skoðað. Verð á hótelum í Volgograd er mun lægra en í Moskvu. Blaðamaður fann til dæmis fimm stjörnu hótel í miðborginni sem kostaði 27 þúsund krónur fyrir tvær nætur. Það var að vísu einsdæmi og mun algengara var að finna 3–4 stjörnu hótel á 50–70 þúsund krónur.
Íbúafjöldi: 1,1 milljón
Leikur gegn: Króatíu 26. júní
Rostov-on-Don rétt skríður inn á topp 10 listann yfir fjölmennustu borgir Rússlands. Í þessari fallegu borg, sem stendur skammt frá Azov-hafi, býr tæplega 1,1 milljón íbúa. Rostov-on-Don er um 960 kílómetra suður af Moskvu og 390 kílómetra vestur af Volgograd. Ferðalagið er því ekki ýkja langt á rússneskan mælikvarða.
Hvað er hægt að gera? Fjölmörg flott söfn eru í Rostov-on-Don og einnig eru flottir almenningsgarðar í borginni.
Hvað er ókeypis? Aðgangur í almenningsgarðana er ókeypis og þá kostar ekki krónu að spóka sig á Pushkin-stræti sem er vinsælt meðal íbúa og ferðamanna. Þar er allt í blómum, styttum, kaffihúsum og veitingastöðum.
Hvað þarf að varast? Eins og í öðrum fjölmennum borgum leynast hætturnar stundum víða þegar kvölda tekur. Fólk er hvatt til að vera ekki eitt á ferð á kvöldin. Glæpatíðni; þjófnaðir og rán þar á meðal, er nokkuð há í Rostov-on-Don, samkvæmt vefnum Numbeo.
Hvað kostar bjórinn? Bjórinn er á svipuðu verði og í Volgograd. Algengt verð á rússneskum bjór á veitingastöðum er frá 100 krónum og upp í 200 krónur en innfluttur bjór kostar frá 180 krónum og upp í 500 krónur.
Hvað kostar að taka leigubíl? Verðið er svipað verðinu í Volgograd. Startgjaldið er alla jafna rúmar 100 krónur og svo er kílómetragjaldið frá 15 og upp í 25 krónur.
En strætó? Stakt fargjald kostar um 35 krónur.
Hvað kostar dæmigerð máltíð á veitingastað? Dæmigerðar máltíðir fyrir tvo á meðalgóðum veitingahúsum kosta frá 1.800 krónum og upp í 3.600 krónur. Máltíð á McDonald’s kostar um 500 krónur.
Hvað kostar hótelnóttin? Miðað við sömu forsendur og hér að framan sést að hótelin eru álíka dýr og í Volgograd. Þriggja stjörnu hótel kosta yfirleitt á bilinu 30 til 60 þúsund krónur. Hægt er að finna dýrari og ódýrari hótel eða gistiheimili.