Jón Gnarr, Dóri DNA, Saga Garðars, Hugleikur og fleiri menningarvitar mættu í góðum gír á menningarkvöld Húrra
Menningarkvöld Teits Magnússonar var haldið á skemmtistaðnum Húrra síðasta miðvikudagskvöld. Þangað mættu menningarmávar (e. culture vulture) í góðum gír enda voru þátttakendur í þessari menningarveislu, eðalblanda af áhugaverðu listafólki sem sumt hefur komið víða við.
Skáldin og rithöfundarnir Jón Gnarr, Kristín Eiríks, Dóri DNA, Oddný Eir og Fríða Ísberg voru meðal þeirra sem lásu upp úr nýútkomnum bókum sínum, en til að krydda kvöldið var vitanlega boðið upp á meiri fjölbreytni. Meðal annars mætti listakonan Kristín Anna og sýndi forvitnilegt skemmtiatriði, Ólafur Sverrir Traustason söng lag fyrir gestina og Haukur nokkur Valdimar framdi gjörning svo fátt eitt sé nefnt. Á milli lota steig svo hinn tilfinningaríki trúbador Mads Mouritz á svið, söng gæðalög á dönsku og spilaði undir á gítar.
Eins og sjá má á myndum fengu menningarmávarnir mikið fyrir sinn snúð enda fátt huggulegra í svartasta skammdeginu en að taka inn brakandi ferska menningu og fá sér kakóbolla, eða kannski rauðvínsglas, í leiðinni.