fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024

Ásdís Rán: „Ég var ekkert ofsalega ánægð með mig“

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 1. desember 2017 14:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún heitir Ásdís og hún er ljón. Dæmigert ljón. Íburðarmikið ljón sem elskar athygli, sviðsljósið, glamúr og glys. Sjálfsörugg, skapandi og kraftmikil glamúrsprengja sem hefur alltaf kunnað að bjarga sér og fylgja draumum sínum eftir en þessir eiginleikar hafa meðal annars veitt henni frásagnarverða og viðburðaríka ævi í þau tæp fjörtíu ár sem hún hefur verið til.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir leit dagsins ljós á Egilsstöðum þann 12. ágúst árið 1979, sama ár og hljómsveitin Queen sendi frá sér lagið „Don’t Stop Me Now“. Svolítið táknrænt. Foreldrar hennar, Gunnar Vignisson, útibússtjóri Íslandsbanka á Egilsstöðum, og Eygló Gunnþórsdóttir myndlistarkona skildu þegar Ásdís var rétt um tveggja ára og fyrstu æviárin flæktist sú stutta milli Egilsstaða, Reykjavíkur og Hornafjarðar. Þrettán ára mætti svo unglingurinn alfarið á mölina með mömmu sinni og litlu systur, Hrefnu Sif, sem er níu árum yngri en Ásdís.

Skapandi kynbomba sem væri örugglega greind með lesblindu í dag

Mæðgurnar þrjár fluttu á milli nokkurra íbúða í Bakkahverfinu í Breiðholti en bjuggu lengst af í Dvergabakka. Ásdís gekk í Breiðholtsskóla og segist hafa verið óttalegur villingur eins og algengt var með Breiðholtskrakka á þessum árum, lyklabörnin svokölluðu. Hún stóð sig þó þokkalega í námi, var best í listnámi og öðrum skapandi greinum en lélegust í stafsetningu.

„Ég hef reyndar aldrei verið greind með lesblindu enda þekktist ekkert svoleiðis á þeim árum þegar ég var að alast upp. Ég er hins vegar nokkuð viss um að ég fengi þessa greiningu ef hún væri gerð á mér í dag,“ segir Ásdís og brosir milt þar sem hún situr vel til höfð á móti blaðamanni Birtu á nýlegu kaffihúsi við Hlemm. Hún er í hvítri, þröngri peysu úr angora ullarefni, með fíngerða skartgripi úr gulli og vel snyrtar neglur í gylltum og svörtum lit. Við hlið hennar í sófanum stendur lítil svört og gyllt taska frá Louis Vuitton. Förðunin er klassísk; fölbleikt gloss á þrýstnum vörum og svartur „eye liner“. Í raun er hún eins og bomba klippt út úr blaði síðan sirka 1960. Hún gæti verið dóttir Pamelu Andersson. Barnabarn Marilyn Monroe, Jane Mansfield eða Mamie Van Doren. 100 prósent kynbomba af gamla skólanum.

Fór að heiman fimmtán ára

Ásdís var ein af þessum stelpum sem gátu ekki beðið eftir því að fá að ráða sér sjálfar. Um leið og grunnskólanum lauk sagði hún skilið við neðra Breiðholtið, vinkaði bless og flutti beinustu leið í miðborgina, þá aðeins fimmtán ára. Hún leigði sér litla íbúð og skráði sig í hárgreiðslunám við Iðnskólann í Reykjavík.

„Svo var ég að vinna á börum, veitingastöðum og kaffihúsum á kvöldin. Ég held að ég hafi örugglega unnið á hverjum einasta bar í bænum,“ rifjar hún upp og fær sér lítinn sopa af espresso macchiato.
Sköpunargleðin og frumkvöðlaeðlið gerðu það að verkum að Ásdís lét sér ekki duga að vinna bara við að afgreiða drykki. Ekki leið á löngu þar til hún var byrjuð að skipuleggja hvers konar skemmtikvöld og fegurðarsamkeppnir, til dæmis Ungfrú Hawaiian Tropic, Miss Kiss og fleiri fjöruga viðburði sem djammarar um fertugt eiga auðvelt með að rifja upp í dag. Í gegnum þessa viðburði má segja að hún hafi verið uppgötvuð sem glamúrfyrirsæta og þar með byrjuðu draumar sveitastelpunnar að rætast.

Ég var ekkert ofsalega ánægð með mig

Hún rifjar upp hvernig hún, sem krakki, heillaðist af tískufyrirsætum á borð við Kate Moss, Naomi Campbell og þessum helstu næntís fyrirsætum sem mynduðu fyrstu kynslóð fyrirsæta sem urðu heimsþekktar eins og leikkonurnar í Hollywood.

„Eins og margar stelpur á þessum árum var ég alveg með stjörnurnar í augunum yfir þessum skvísum þótt ég hafi ekki verið mikið efni í fyrirsætu á þessum tíma. Ég var bara svona sveitastelpa, svolítið þykk, kannski ekkert rosalega fríð þannig séð, ég veit það ekki, ég var að minnsta kosti ekkert ofsalega ánægð með mig. Svo rættist allt í einu úr mér á kynþroskaaldrinum. Ég skánaði aðeins ef svo mætti að orði komast,“ segir hún og skellir upp úr.
„Ég varð alveg svakalega hissa þegar ég var fyrst beðin um að sitja fyrir. Trúði því varla að fólk vildi fá mig í þetta. En svo fór ferillinn í gang og ég naut þess í botn að æskudraumurinn um að gerast fyrirsæta væri að rætast,“ segir Ásdís sem þá var sautján ára og nýbúin að eiga sitt fyrsta barn, soninn Róbert sem nú er orðinn tvítugur.

Vílaði ekki fyrir sér að sitja fáklædd fyrir á myndum

Sjálf segist Ásdís strax hafa gert sér fulla grein fyrir því að útlit hennar hentaði ekki vel í tískufyrirsætustörf. Tískufyrirsætur séu bæði hærri og grennri, en hún íturvaxin með ávalar línur. Því lá það fyrir henni að gerast „pin-up“ eða glamúrfyrirsæta. Hún vílaði ekki fyrir sér að sitja fyrir fáklædd á myndum en til þess þurfti talsvert hugrekki í fámenninu hér á Íslandi í kringum síðustu aldamót. Nafnið Ásdís Rán varð fljótt á allra vörum enda var hún, og er líklegast enn, eina íslenska konan sem hefur gert þessa tegund fyrirsætustarfa að sínu aðalstarfi. Hún veltir þessu aðeins fyrir sér og þá sérstaklega breytingunni sem hefur orðið á tíðarandanum síðustu árin. Viðhorfum samfélagsins til kvenna og líkamlegs kynþokka þeirra, ef svo mætti að orði komast.

„Þetta er svolítið mótsagnakennt. Í dag má ekkert gera af hlutum sem þóttu sjálfsagðir í kringum 2000 og áður. Þá birtust reglulega myndir af fáklæddum glamúrfyrirsætum í innlendum tímaritum. Ég var meira að segja með sjónvarpsþátt sem gekk út á að finna flottasta bikinímódel landsins. Ég sé það ekki gerast núna en á sama tíma er fólk samt búið að slaka mjög mikið á dómhörku í garð kvenna og bara fólks almennt. Fólk má vera meira eins og það langar til held ég, en svona myndir eru samt alls ekki vel séðar. Ég furða mig oft á því hvað það leyfist lítið á Íslandi sem þykir sjálfsagt mál annars staðar. Í öllum þeim löndum sem ég hef búið í er glamúrfyrirsætum tekið fagnandi enda mikil sala í þessum útgáfubransa. Maxim, Playboy, FHM, dagblöðin … alls staðar sér maður glæsilegar og kynþokkafullar konur sem skilgreina mætti sem glamúrmódel en hér á litla Íslandi er þessi tegund fyrirsætustarfa ekki vel séð lengur,“ segir hún hugsi.

„Ég veit ekki alveg hvað veldur þessari breytingu. Ætli það sé ekki kvenréttindabaráttan? Nú fá stelpur frekar þannig uppeldi að þær langar, eða þora síður, að verða glamúrfyrirsætur. Þegar ég var ung þá fannst flestum stelpum hins vegar svakalega eftirsóknarvert að vera „hot“ og þannig er það enn í öllum löndum sem ég hef búið í. Ætli ég sé ekki bara síðasta íslenska glamúrmódelið,“ segir hún og hlær dátt.

Elskuð og dáð í Búlgaríu sem tekur glamúrfyrirsætum opnum örmum

Það var einmitt í gegnum glamúr fyrirsætustörfin sem Ásdís kynntist seinni barnsföður sínum, fótboltamanninum Garðari Gunnlaugssyni. Hún var tuttugu og tveggja ára, einstæð móðir og umboðsmaður Hawaiian Tropic en hann nítján ára knattspyrnumaður og fyrirsæta. Hún fékk hann til að sitja fyrir í auglýsingu fyrir sólarvörurnar og þau felldu saman hugi. Ekki leið á löngu þar til Garðari bauðst að starfa sem atvinnumaður í knattspyrnu á erlendum vettvangi og hjónin fluttu úr landi.

Árið 2005 fæddist þeim sonurinn Hektor og tveimur árum síðar fæddist Viktoría. Fjölskyldan bjó meðal annars í Svíþjóð, Þýskalandi og Austurríki en það var í Búlgaríu sem Ásdísi fannst hún vera komin heim. Fyrirsætuferillinn blómstraði og hún varð fljótlega mjög vel þekkt í þessu landi sem tekur glamúrfyrirsætum opnum örmum.
Þegar þau Garðar skildu svo fyrir um fimm árum, valdi hún að starfa áfram í Búlgaríu ásamt því að sinna ýmsum verkefnum hérlendis. Hún flakkaði fram og til baka milli landanna en fyrir rúmu ári ákvað hún að draga aðeins úr ferðalögunum enda börnin í skóla á Íslandi. Hún keypti sér nýja, fallega íbúð í miðbænum og þar býr hún í dag ásamt dóttur sinni Viktoríu og kanínunni Casanova. Hektor býr hjá pabba sínum á Akranesi þar sem báðir eru á kafi í knattspyrnunni.

„Þarna hrundi allt líf mitt á tíu mínútum“

Í byrjun þessa árs leið henni eins og fram undan væri bæði beinn og breiður vegur. 2017 yrði hennar ár, það besta hingað til. Svo liðu ekki nema nokkrir mánuðir þar til hún varð fyrir gífurlegu áfalli. Hún hrasaði aftur fyrir sig niður steyptar tröppur með þeim afleiðingum að hún handleggs-, mjaðmagrindar-, lærbeins- og rifbeinsbrotnaði.
„Þarna hrundi allt líf mitt á tíu mínútum. Ég missti allt úr höndunum. Allur tími minn síðan, hver einasti dagur og mínúta, hefur farið í að reyna að ná sjálfri mér til baka. Í kjölfar slyssins fékk ég hræðilega áfallastreituröskun og byrjaði að glíma við þunglyndi og mikinn kvíða. Ég lá rúmföst í nokkra mánuði og gat ekkert hreyft mig. Svo tók bara óvissan við. Ég var ótryggð svo ég fékk engar slysabætur. Ég gat ekki lengur unnið fyrir mér svo ég missti tekjur, vissi ekki hvað yrði um líkamann á mér, hvort ég gæti yfirleitt hreyft mig eins og áður. Þetta er í fyrsta sinn sem allt mitt líf hrynur svona í einni andrá og ég hef lagt nótt við dag í að ná mér aftur, andlega og líkamlega,“ segir hún einlæglega.

Er búin að skrifa sjálfshjálpar- og lífsstílsbók fyrir konur sem vilja koma sér á betri stað í lífinu

Ásdís segir slysið og áfallastreituna í kjölfarið hafa gert það að verkum að lífsgleði hennar hafi nánast alveg horfið, þrátt fyrir mikinn vilja og viðleitni til að ná sér á strik. Síðasta hálfa árið hefur hún þegið aðstoð frá fagfólki, hitt sál -og félagsfræðinga og stundað hugleiðslu og djúpa sjálfskoðun sem smám saman hefur svo skilað henni betri líðan. Hún segist sérstaklega hafa fundið árangur síðustu vikurnar en öll þessi vinna í sjálfinu varð svo til þess að Ásdís settist niður og skrifaði bók um reynslu sína. Bók sem hún vonast til að geti hjálpað öðrum konum að líða betur.

„Ég er búin að skrifa þessa bók út frá reynslu minni af því að þurfa að standa upp og takast á við þetta allt saman. Ég missti eldmóðinn og trúna á sjálfa mig. Áfallastreituröskun er svo hræðilegt fyrirbæri. Þetta eru eins og öldur sem bara hellast yfir mann og maður veit ekkert hvenær þær koma. Maður hefur enga stjórn á þessu. Ég fékk einhver þunglyndislyf en þau laga ekki nema hluta af ástandinu. Ég þurfti stöðugt að minna sjálfa mig á hver ég er og hvað ég hef gert. Klóra sjálfa mig upp úr þessu með öllum tiltækum ráðum. Taka eitt skref í einu. Setja mér lítil markmið hér og þar og reyna að láta mér líða vel. Gera eitthvað gott fyrir sjálfa mig,“ segir Ásdís sem vonast til að bókin, sem hún kallar Valkyrja, komi út fyrir jól.

„Mig langar að beina þessari bók og skilaboðum mínum til kvenna sem hafa kannski staðið í sömu sporum. Eru fastar í einhverju fari, neikvæðar, kannski með lítið sjálfsálit og langar að ná sér upp úr því. Bókinni er ætlað að hjálpa lesendum að þekkja sjálfa sig betur og koma sér af stað með að láta draumana rætast. Ná tökum á lífinu, meðal annars með markmiðasetningu og sjálfskoðun,“ segir hún.

Valdi að vera sexí

Tal okkar berst að vitundarvakningunni gegn kynbundnu misrétti, áreiti og ofbeldi sem hefur verið áberandi í samfélagsmiðlum og fjölmiðlum upp á síðkastið. Líkt og flestir tekur Ásdís þessu fagnandi.

„Mér finnst algjör snilld að það sé verið að reyna að setja karlmönnum hömlur á þessu sviði. Ég hef auðvitað lent sirka hundrað sinnum í svona en ég kippi mér samt ekkert upp við það. Minn ferill hefur auðvitað gengið út á að vera sexí svo ég get varla áfellst marga karlmenn fyrir að hafa nálgast mig með þessum hætti. Ég geri mig út sem glamúrdrottningu. Valdi að vera sexí. Ég, líkt og aðrar konur, á samt eftir að fagna því að þeir muni ekki komast eins auðveldlega upp með mismunun eða ofbeldi á bak við tjöldin,“ segir hún og bætir við að konur geti einnig gerst sekar um óviðeigandi áreiti og hafi misnotað sér valdastöðu.

„Þetta snýst allt um mörk. Að setja öðrum mörk og gefa skýr skilaboð um hvernig megi nálgast mann, hversu langt hleypir maður fólki að sér. Ef maður er ekki með mörkin sín á tæru þá er hættara við að fólk fari yfir þau, á hvaða sviði sem er,“ segir Ásdís ákveðið. Svo rifjar hún upp atvik sem snertir hana sjálfa en það olli því að hún missti bæði verkefni og vinnu, einungis vegna þess að hún vildi ekki þýðast mann sem sýndi henni kynferðislegan áhuga.

Missti vinnu af því hún vildi ekki þýðast forstjórann

„Þetta er auðvitað alveg hræðilegt þegar málið snýst um vinnuna og ég hef einu sinni verið sett í hrikalega vonda stöðu hvað það varðar. Ég hafði unnið með stærsta blaðaútgáfufyrirtæki Búlgaríu í mörg, mörg ár. Setið fyrir á forsíðum, skrifað dálka, tekið viðtöl og margt fleira. Svo bauð forstjórinn mér út að borða sem ég þáði en þegar hann svo vildi eitthvað annað og meira en ég var til í, þá brást hann ókvæða við. Hann hélt áfram að reyna en ég gaf mig ekki svo á endanum hótaði hann mér að ef ég myndi ekki hlýða honum þá myndi hann setja algjört stopp á mig innan fyrirtækisins. Ég ákvað að ganga í burtu, bjóst ekki við að hann gæti haft svona mikil áhrif á ritstjórana – en hann gerði það nú samt. Ég fékk engin fleiri verkefni hjá þeim blöðum sem ég hafði unnið með og missti fullt af verkefnum og tekjum. Þetta geta þeir komist upp með og því miður eru margar konur sem hafa orðið fyrir svona ranglæti.“

Fegrunaraðgerðir eru hluti af lífinu

Að lokum víkjum við talinu að fegrunaraðgerðum en viðhorfin til þeirra hafa, líkt og margt annað, breyst gífurlega á sirka síðustu tíu árum og Ásdís Rán segist vissulega hafa tekið eftir því.
„Ég man bara þegar ég fór í brjóstastækkun á sínum tíma. Það var alveg svakalegt „hype“ í kringum það að ég væri með silíkon og allir að velta sér upp úr þessu, nú eða að ég væri búin að láta setja í varirnar á mér. Hér áður fyrr var þetta næstum eins og einhver félagslegur dauðadómur, en í dag er þetta orðið sjálfsagt mál. Ungar konur í dag tala mjög opinskátt um svona aðgerðir og þeim finnst þetta bara alls ekkert til að hneykslast yfir. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að konum, og körlum auðvitað, eigi að vera frjálst að gera það við útlit sitt sem þeim líður vel með. Tæknin býður okkur upp á að geta breytt því sem við viljum og af hverju ekki að njóta þess eins og hægt er? Hvort sem konur langar að hafa stærri eða minni brjóst, yngja sig upp um tíu ár með andlitslyftingu eða láta laga slit eftir barnsburð. Svona aðgerðir geta haft góð áhrif á sjálfsmyndina hjá mörgum og hvers vegna ekki að láta það eftir sér? Svo finnst mér líka mikilvægt að fólk sé ekki dæmt fyrir að fara í fegrunaraðgerðir og ég er glöð með hvað það hefur dregið mikið úr þessari dómhörku enda eru fegrunaraðgerðir bara hluti af lífinu á 21. öld.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Færeyingar eru ekki frændur okkar – Frekar fjarskyldir ættingjar

Færeyingar eru ekki frændur okkar – Frekar fjarskyldir ættingjar
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

76 prósent líkur á því að Liverpool verði enskur meistari

76 prósent líkur á því að Liverpool verði enskur meistari
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Mamman í sjokki eftir heimsókn lögreglu – 10 ára sonurinn labbaði einn út í búð um hábjartan dag

Mamman í sjokki eftir heimsókn lögreglu – 10 ára sonurinn labbaði einn út í búð um hábjartan dag
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Chelsea og Arsenal berjast um framherjann sem kostar yfir 100 milljónir punda

Chelsea og Arsenal berjast um framherjann sem kostar yfir 100 milljónir punda
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Nistelrooy gæti landað starf á næstu dögum – Áhugaverð lið með hann á blaði

Nistelrooy gæti landað starf á næstu dögum – Áhugaverð lið með hann á blaði
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fjölskylda í sárum eftir stórþjófnað í nótt – Tóku bíl sonarins og hreinsuðu verðmæti úr bíl fjölskylduföðurins

Fjölskylda í sárum eftir stórþjófnað í nótt – Tóku bíl sonarins og hreinsuðu verðmæti úr bíl fjölskylduföðurins
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Öllu tjaldað til fyrir afmæli hundsins

Öllu tjaldað til fyrir afmæli hundsins