Egill Sæbjörnsson er einn dáðasti myndlistarmaður þjóðarinnar. Margrét H. Gústavsdóttir settist niður í eldhúsinu hjá Agli og saman spjölluðu þau meðal annars um áfallastreituna sem Íslendingar erfa frá forfeðrunum, tröllin í sálinni og hvernig hann komst heim í gegnum ástina.
Egill hefur á liðnum árum skipað sér sess sem einn dáðasti myndlistarmaður þjóðarinnar. Hann var nokkuð áberandi í fjölmiðlum fyrr á þessu ári enda fulltrúi íslendinga á Feneyjatvíæringnum en svo kallast ein stærsta, elsta og virtasta myndlistarhátíð heims. Þangað hélt hann með tröllin sín tvö, þau þau Ūgh og Bõögâr, ímynduðu vinina sem hann lætur framkalla listgjörninga víða um heim. Nú hafa þau til að mynda opnað skartgripaverslun í Gallerí i8 og Egill hefur dvalist á landinu undanfarnar vikur til að styðja við bakið á þeim.
Listamaðurinn tekur höfðinglega á móti blaðamanni þegar hún hringir bjöllunni, síðdegis á mildum mánudegi í lok október. Hann býður til sætis í eldhúsinu, sker niður súrdeigsbrauð og hrærir í nýgerðu túnfisksalati. Á borðinu standa bollar og diskar, bleikja, smjör og ostur. Stemningin minnir svolítið á síðustu öld. Ekkert undir sautján sortum.
Íbúðin er framandi blanda af vinnustofu, geymslurými og gamaldags íslensku heimili. Myndarlegur stofuskápur, sem eitt sinn prýddi heimili ömmu hans, Hlífar Magnúsdóttur í Flatey á Breiðafirði, skipar veigamikinn sess í stofunni en á sparilegu parketinu eru steypuklessur og ryk eftir leirgerð. Í flestum herbergjum standa svo leirmunir sem ýmist eru tilbúnir eða að þorna. Af þessum ástæðum er líka frekar heitt í kotinu.
„Íbúðin dugar mér alveg sem vinnustofa. Að minnsta kosti eins og er,“ útskýrir Egill sem eftir um tuttugu ára dvöl í Berlín segist nú geta hugsað sér að flytja aftur heim enda mikið vatn sem rennur til sjávar á tuttugu árum.
„Þegar ég flutti til Þýskalands árið 1998 var ég kominn með mikla innilokunarkennd á Íslandi. Ég hafði þá búið í París í eitt ár og hafði komið heim til að klára skólann. Mér fannst þetta svo lítið samfélag hérna. Lokað og stíft. Ég var líka óhamingjusamur og hafði verið það lengi. Mig langaði til að komast í burtu og sjá hvort ég gæti ekki rétt úr mér sem persónuleiki,“ segir Egill sem þá var tuttugu og fimm ára en hann er fæddur í júní árið 1973.
„Ég er alinn upp á áttunda og níunda áratugnum og flyt svo af landi brott á þeim tíunda. Síðan hefur auðvitað allt breyst. Ekki bara ég sjálfur heldur Ísland líka og það á mjög skömmum tíma. Flugsamgöngur urðu til dæmis greiðari og ódýrari fljótlega eftir að ég flutti, internetið auðveldaði manni samskipti og þetta varð allt opnara en ég hafði áður vanist. Nú eru til dæmis nokkur bein flug til Berlínar á dag en hér áður fyrr þá þurfti ég að taka lest og rútu frá Kaupmannahöfn til að koma mér yfir,“ segir hann og hristir höfuðið.
Egill segir heimþrána hafa byrjað að toga í sig fyrir um sjö árum. Hann lét undan þránni, kom til Íslands og dvaldi hér samfellt í hálft ár árið 2012. Á þessum mánuðum segist hann hafa upplifað eins konar endurfæðingu, hann sleit langtímasambandi við brasilíska unnustu og hellti sér í uppgjör við sjálfan sig og fortíðina. Losaði sig við áföll úr barnæsku og einhvern óskilgreindan múrstein sem hann hafði burðast með í höfðinu. Hann segir að ekkert eitt áfall í barnæsku hafi orsakað vanlíðan hans og þunglyndi, áföll geti gerst yfir langan tíma og séu oft mjög lúmsk. Svo bætir hann við að í raun sé ekki hægt að fæðast á þessu landi án þess að fá afleiðingar áfalla í fjölskylduarf. Hörð lífsbarátta forfeðra okkar hafi skapað þjóð sem hefur, að minnsta kosti fram til þessa, verið tilfinningalega lokuð, kaldhæðin og heft. Harkan hafi gert okkur að þeim sem við erum, hluti af því sé jákvætt en hluti til ama og vandræða og oft hefti þetta fólk í að fá að blómstra almennilega.
„Sjálfur er ég úr Dýrafirðinum í báðar ættir. Ég man eftir því að hafa staðið uppi á fjalli og horft yfir stórgrýtið milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þegar maður stendur svona og horfir á þetta þá sér maður hvernig veðrið hefur mótað umhverfið, og ekki aðeins umhverfið heldur líka fólkið. Þetta harða umhverfi og aðstæðurnar hafa mótað okkur að innan. Langafi minn úr Dýrafirði, Kristján Andrésson, missti til dæmis báða foreldra sína og allt bakland í barnæsku. Svo var hann kominn á fullan hlut á róðrarbát um unglingsbil. Hann varð síðar formaður á hákarlabát, sem er með því hrikalegra sem menn tóku sér fyrir hendur á 19. öld.“
„Svona lífsbarátta og áföll geta erfst margar kynslóðir fram og ef ekki er unnið úr þeim erfist þetta áfram. Við höfum enga stjórn á þeim verum og skrímslum. Skrímslin eru sár sem æpa og þurfa hjálp. Það lítur allt eðlilega út á yfirborðinu en undir krauma þau, oft í hundruð ára. Í minni fjölskyldu var alltaf mikil spenna sem hefur að mörgu leyti erfst á milli kynslóða. Ég held að margir á Íslandi deili svipaðri sögu enda erum við svo tengd. Eftir að hafa tekist á við áfallastaflann úr eigin lífi, og fyrri kynslóða, í gegn um EMDR-meðferð í Berlín finnst mér næstum því að allir ættu að fara í svona áfallameðferð því það er eiginlega ekki hægt að fæðast á Íslandi án þess að fá áföllin í arf,“ segir Egill hugsi og stendur upp frá eldhúsborðinu til að hella upp á kaffi. Hann sækir kaffipoka og filtera upp í hillu og lætur vatnið renna í könnuna.
„Yfir dimmustu daga ársins getur þetta samfélag okkar verið eins og mannætupottur með þungum hlemmi ofan á – og svo sýður fólkið í vanlíðan ofan í þessum potti,“ segir hann. „Sumir glíma kannski við mikið þunglyndi án þess að átta sig á því, þeir hafa fengið það í arf. Frá fimmtán ára til fertugs leið mér eiginlega alltaf illa. Mér leið eins og ég væri með múrstein í hausnum en ég skildi aldrei af hverju, en eftir að ég fór að vinna í sjálfum mér þá hefur þessi múrsteinn horfið,“ segir Egill, kveikir á kaffivélinni og sest aftur við eldhúsborðið.
Múrsteininn fjarlægði hann meðal annars með því að stunda tólf spora fundi hjá Al-Anon og Coda, vinna sporin, fara í svokalla Grindberg-tíma, EMDR-meðferð og sitthvað fleira. „Ég fór meira að segja í listaþerapíu þar sem maður potar með lokuð augu með puttunum ofan í leir til að örva græðgina í lífið og tengjast barninu í sjálfum sér.“
Hann segir ástina líka hafa hjálpað sér að upplifa hlýrri strauma til fósturjarðarinnar en á þessum tíma hóf hann ástarsamband við tónlistarkonuna Björk. Sambandið stóð í tvö ár en hann segir það hafa gefið sér mjög mikið.
„Það var alveg ótrúlega gefandi að koma heim í gegnum íslenska konu. Hún var svo rosalega góð tenging fyrir mig að koma aftur í þetta samfélag. Kenndi mér meðal annars að fara úr heimi kaldhæðninnar í heim hlýju og öryggis. Komast heim til mín. Heimilið verður nefnilega að vera staður þar sem maður getur verið berskjaldaður og viðkvæmur, staður þar sem viðkvæmasti kjarninn í manni fær skjól. Ég fékk að upplifa þetta á mjög góðan hátt með henni og í raun endurupplifa hvernig gott heimili er,“ segir hann og sötrar sopa af kaffinu.
„Drakk ekkert áfengi, borðaði engan sykur, ekkert hveiti, ekkert ger, ekkert kjöt og engar dýraafurðir, stundaði ekkert kynlíf. Svo hætti ég þessu. Fann að mig langaði meira til að vera mannlegur.“
Hann útskýrir pælingar sínar í kringum hugtakið heim og heimili nánar. Segir heimili fornmanna til dæmis hafa verið við eldinn þar sem hópurinn raðaði sér í kring og sótti öryggi og hlýju í margþættum skilningi.
„Eftir átök dagsins var gott að setjast saman í kringum eldinn og fá öryggi úr hópnum. Koma heim. Öryggið er samt ekki endilega sjálfgefið. Þrátt fyrir að allir búi undir sama þaki eru margir útskúfaðir úr eigin fjölskyldum af því það ríkir svo mikill tilfinningalegur kuldi og spenna innan þeirra. Þá er þetta svokallaða heimili ekki heimili, – af því heimili þarf að vera staður hlýju. Og ofbeldi á heimilum er ekki bara eitthvað líkamlegt, – rifrildi og skapvonska eru líka ofbeldi, ofbeldi sem lemur fólk innan frá,“ segir hann og bætir við að hann sé mjög sáttur við uppgjörið sem hefur átt sér stað innra með honum. Það sé þó ekki alveg búið, þetta sé langt ferli.
„Eftir að hafa búið í öðru landi í tuttugu ár er ég ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sjá skýrum augum þessa skel sem ég er dregin upp úr hérna. Nú kann ég svo mikið betur að meta borgina, Esjuna, fólkið, göturnar, húsin … allt. Ég finn miklu sterkari tengingu en nokkurn tímann áður. Það eru líka svo margir þræðir sem fléttast saman í tilfinninguna um að tilheyra þessu landi, samfélagi og þjóð. Þessari einingu. Til dæmis veit maður hvernig ömmur og afar vina manns höfðu það í gamla daga. Maður gengur niður göturnar, horfir á húsin og getur með nokkuð góðu móti, giskað á hvað er að gerast þar inni. Í Þýskalandi hef ég alls ekki þessa sömu tengingu. Ég veit ekki hvað langömmur og afar vina minna voru að gera í gamla daga, eða hvernig líf þeirra var áður fyrr, en hér á Íslandi hefur maður svo sterka tilfinningu fyrir þessu og svo mörgu öðru. Þetta er allt spurning um að tilheyra. Maður talar tungumálið og þekkir söguna og það er góð tilfinning. Ég vaknaði til dæmis í morgun og ætlaði fyrst að segja „good morning“ við kærustuna mína, – af því að ég er eitthvað svo vanur því að eiga útlenskar kærustur, en svo gat ég allt í einu sagt „góðan daginn“. Mér finnst það frábært,“ segir hann og skellir upp úr.
Listsköpun Egils hefur alla tíð snúist mikið um tenginguna á milli þess sem gerist innra með okkur og því sem við sjáum, upplifum og jafnvel uppskerum úr umhverfinu. Raunveruleikinn innra með okkur sem endurspeglast í hinu ytra. Hann hefur jafnframt verið óhræddur við að nota eigið tilfinningalíf sem efnivið í verkin og jafnvel, eins og tröll, gengið fram af áhorfendum. Mörgum er minnisstæð sýning sem fór fram á Kjarvalsstöðum fyrir tæpum tuttugu árum en þar tók Egill þátt í samsýningu listamanna sem voru yngri en þrjátíu ára og eldri en sextíu.
Framlag Egils snerist um sjálfsfróun. Á einum sýningarvegg hékk gríðarstór mynd af typpinu á honum og eftir að hafa fetað sig eftir löngum gangi enduðu sýningargestir fyrir framan sjónvarpsskjá þar sem við blöstu myndbandsupptökur af Agli stunda sjálfsfróun frá ýmsum vinklum. Meðal annars þar sem hann sat við glugga á vinnustofu sinni og horfði út á meðan hann reyndi að „losa um spennu“ – ef svo mætti að orði komast. Hann var ný útskrifaður úr Listaháskólanum og þetta var í raun fyrsta stóra tækifærið hans til að koma sér á framfæri í listaheiminum. Hann brosir við minningunni.
„Mig hefur alltaf langað að deila einhverju nánu. Einhverju sem skiptir máli og hreyfir við fólki. Þegar ég kom þarna á Kjarvalsstaði horfði ég í kringum mig og hugsaði hvað það væri eitthvað klikkað að nota þetta flotta húsnæði, undir einhverja leiðinlega konseptlist. Af hverju ekki að sýna tilfinningar, eitthvað sem skiptir fólk máli? Ég var einmana á þessum tíma, mér leiddist á vinnustofunni á daginn, stundaði sjálfsfróun, tók það upp og fór svo með þetta á Kjarvalsstaði. Ég var þarna ungur maður með kynhvöt sem fékk takmarkaða útrás, þetta var hluti af því, hluti af því að vera til, vera manneskja. Steikt manneskja undir þessu pottloki þar sem aldrei má tala um neitt. Þetta var tilraun til að sýna eitthvað skítugt úr sjálfum mér. Á sama tíma fannst mér þetta rosalegur skandall. Sem sagt að ég væri að gera þetta á vinnustofunni, á bak við gluggann, um hábjartan dag. Þetta var eins þveröfugt við útreiknaða leiðinlega konseptlist og mögulega hugsast gat.“
Egill lýsir þessu þannig að hann hafi einfaldlega gengið út á hengiflugið og kastað sér fram af brúninni.
„Ég lét mig bara gossa. Sveif niður af þessari bjargbrún um leið og ég hugsaði að ég gæti aldrei boðið mig fram sem forseta, hvað allar frænkurnar yrðu hrikalega hneykslaðar, ég yrði örugglega útskúfaður og svo framvegis. Svo fékk ég auðvitað mjög sterk viðbrögð. Sumir voru alls ekki sáttir við að ég skyldi hafa verið að sýna eitthvað svona dónalegt á virtasta listasafni landsins,“ segir hann kíminn og bætir við að oft sé þetta dónalega inni í okkur einhvers konar uppreisn eða svar við bælingu. Sjálfur hafi hann til að mynda verið í hugleiðsluhóp frá sextán ára til rúmlega tvítugs þar sem mikil áhersla var lögð á að iðkendur héldu sig frá kynlífi, bæði með sjálfum sér og öðrum.
„Ég hafði verið á kafi í tíbeskum búddisma í mörg ár. Drakk ekkert áfengi, borðaði engan sykur, ekkert hveiti, ekkert ger, ekkert kjöt og engar dýraafurðir, stundaði ekkert kynlíf. Var bara vegan á kafi í hugleiðslu. Svo hætti ég þessu. Fann að mig langaði meira til að vera mannlegur. Maður reynir alls konar leiðir til að laga sig en besta leiðin sem ég hef fundið er að láta sér bara þykja vænt um sjálfan sig og taka smá hlé frá kaldhæðninni. Hún er allt of sterk í Íslendingum, allt of fyrirferðarmikil.“
Fyrir tæpum tíu árum fór Egill að hafa áhuga á tröllum. Hann lýsir þeim eins og furðulegum, illa lyktandi osti sem hann varð að skoða betur. Hann fór að safna sögum af tröllum og velta þeim mikið fyrir sér. Smám saman fæddust svo hugarfóstrin Ūgh og Bõögâr, tröllin sem slógu í gegn á Feneyjatvíæringnum.
„Karakterþróun hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og að eiga ímyndaða vini er eitthvað sem hefur alltaf fylgt mér. Þegar ég var lítill þá bjuggum við bróðir minn til alls konar karaktera sem við lékum í mörg ár en tröllin Ūgh og Bõögâr þróuðustu með vini mínum, listamanni sem heitir Diego Fernandes sem er frá Chile. Hann bjó á vinnustofunni minni í Berlín, við fórum að leika okkur að því að herma eftir tröllum og smátt og smátt fór mig að langa til að gera verk sem væru eftir þessa karaktera. Fyrst átti þetta ekkert að vera list heldur aðeins leikur, þannig séð. Svo gerðist það fyrir tveimur árum að ég fór með vini mínum, Magnúsi Alberti Jenssyni arkitekt, niður í MHÍ til að búa til hurðarhúna úr leir, en við erum stundum að bralla saman í alls konar verkefnum. Þegar við byrjuðum að vinna með leirinn fann ég allt í einu að tröllin langaði að gera skartgripi úr þessum efnivið en þegar Feneyjatvíæringurinn nálgaðist ákvað ég að setja þau í pásu. Mér fannst svo kjánalegt og barnalegt að setja þessa ímynduðu vini fram sem list, og svo var ég hræddur um að tröllin þættu ekki kúl. Þetta væri of mikil klisja og enginn nútímalegur listamaður gæti leyft sér að vinna með það.“
Líkt með sýninguna á Kjarvalsstöðum nítján árum fyrr reið Egill aftur á vaðið og ögraði sjálfum sér. Tröllin hertóku umsóknina um að komast á Tvíæringinn og lögðu fram tillögu. Verkið skyldi vera risastór espresso-kaffibar, tveir risastórir tröllshausar sem hægt væri að ganga inn í, alls þrjár hæðir. Tillagan var samþykkt og verkið sló í gegn.
„Margir þekktir fjölmiðlar völdu þetta sem einn af fimm, átta eða tíu bestu skálunum á sýningunni. Það þótti eitthvað svo ferskt að láta ímyndaða vini taka yfir skálann, svo eru þetta í þokkabót tröll, sem er ótrúlega forneskjulegt. Ég held að fólki hafi kannski bara þótt þetta skemmtilegt. Þannig að núna er ég bara stoltur og ánægður með ímynduðu vini mína, sem er breyting frá því sem áður var, þá skammaðist ég mín fyrir svo margt, líka tónlistina mína,“ segir hann en margir tóku fyrst eftir Agli í kringum aldamótin þegar hann sendi frá sér meistaraverkið Tonk of the Lawn, frábæra plötu sem sló rækilega í gegn og þá aðallega samnefnt lag sem nú er meðal annars hægt að heyra á Youtube og Spotify.
Í Berlín hefur Egill um 400 fermetra vinnuaðstöðu til ráðstöfunar. Hann hefur jafnframt aðstoðarfólk sér til halds og trausts enda í nægu að snúast og verkefnin fjölbreytt og mörg.
Eitt þeirra fer fram í bænum Kristinehamn í Svíþjóð. Þar búa um 2.000 innflytjendur og hælisleitendur sem sumir hverjir hafa lítið fyrir stafni. Egill segist lengi hafa velt því fyrir sér hvað væri hægt að gera fyrir þetta fólk og fékk þá hugmynd að setja upp einhvers konar stað þar sem fólkið gæti fengið það á tilfinninguna að það væri að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins. „Ekki bara koma sem flóttamaður, fá ölmusu og geta ekkert gefið til baka. Það er svo mikil niðurlæging,“ útskýrir hann.
Tilurð verkefnisins varð með þeim hætti að Andreas Brändström safnstjóri bauð Agli að setja upp sýningu í bænum. Þeir hlutu styrk úr ríkisstyrktum sjóði sem kallast Kreative Platser og er á vegum Kulturradet í Svíþjóð. Tilgangurinn er að hjálpa innflytjendum, atvinnulausum og hælisleitendum að taka þátt í listatengdum verkefnum.
„Við byrjuðum á að setja upp brennsluofn og leirgerðarverkstæði. Það hefur nefnilega mjög jákvæð áhrif á fólk með áfallastreitu að vinna með höndunum og gera eitthvað skapandi. Nú eru þau búin að gera heilmikið af leirmunum, diskum, skálum, bollum og þess háttar,“ segir hann og bætir við að fljótlega hafi verið ákveðið að smíða líka gróðurhús og byrja að rækta grænmeti.
„Svo er lítið vatn þarna rétt hjá verkstæðinu sem hægt er að veiða í. Næsta skref er að koma upp veitingahúsi og veitingastaðurinn kemur þá í staðinn fyrir hefðbundna listsýningu. Fólkið kemur inn á hlýjan veitingastað og fær að borða góðan mat í stað þess að standa á miðju gólfi og virða fyrir sér kalda konseptlist á „Kjarvalsstöðum“. Er það ekki fín umbót? Breyting á því hvað list getur verið. Mér finnst gott að taka listina út úr sérfræðingaumhverfinu og láta hana vera part af daglegu umhverfi,“ segir Egill sem stefnir á að flytja til Kristinehamn og búa þar fyrstu þrjá mánuðina 2018 enda sé verkefnið krefjandi.
Spurður að því hvort hann gæti hugsað sér að vinna í sambærilegu verkefni hér á landi segir hann ekkert því til fyrirstöðu, svo lengi sem það væri innan rétta rammans. Nægilegur skilningur stjórnvalda þurfi þó að vera fyrir hendi.
„Ég hef mjög mikinn áhuga á því að taka þátt í stjórnmálum á Íslandi en það er erfitt að sinna þeim hér. Ég sé það nefnilega fyrir mér að stjórnmál eigi að gerast meira í gegnum myndmál. Fólk þarf að hafa mynd eða myndrænt kort til að fylgja eftir í stað þess að vera alltaf að karpa og þrasa og hrapa svo aftur og aftur ofan í sama gapið. Við þurfum að sjá lífið fyrir okkur … visjúalisera ný samfélagsmódel. Myndin sem Hrafn Gunnlaugsson gerði á sínum tíma, um það hvernig önnur tegund af Reykjavík gæti litið út, var mjög gott dæmi um þessa aðferð. Við gætum til dæmis skapað okkur mynd af því hvernig lífið með greiðu aðgengi til spítala og skóla gæti litið út, og hvernig lífið verður ef kvótinn verður tekinn til baka og við notum fiskinn á annan hátt – og við gætum gert myndband af lífinu á Íslandi þegar hagnaðurinn af vatninu okkar verður notaður til að gera kjör almennings betri. Þá mætti sjá fyrir sér bensínbílalaust Ísland og margt, margt fleira. Þannig finnst mér að gott stjórnmálaafl ætti að starfa vegna þess að þannig er auðveldara að láta draumana rætast. Við þurfum að skapa myndir af þessum heimi sem við viljum búa í.“