Lilja Alfreðsdóttir fór í skiptinám til Suður-Kóreu og segist búa að því til æviloka
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er í helgarviðtali Birtu
Að loknu menntaskólanámi, árið 1993, hélt Lilja sem skiptinemi, alla leið til Suður-Kóreu þar sem hún lærði kóresku og stjórnmálasögu Austur-Asíu við Ewha University í Seúl og ferðaðist svo um Kína í einn mánuð. Hún segir dvölina hafa haft gríðarlega þroskandi áhrif á sig og að mörgu leyti hafi þetta tímabil mótað heimsmynd hennar síðar meir.
„Ef ég gæti þá myndi ég hvetja alla til að fara í skiptinám erlendis. Enn þann dag í dag bý ég að þessu og reynslan hefur nýst mér alveg ótrúlega mikið. Ég tala auðvitað ekki reiprennandi kóresku en ég skildi þó sitthvað af því sem Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði þegar mér veittist sá mikli heiður að hitta hann þann tíma sem ég gegndi embætti utanríkisráðherra. Aðstoðarmaður hans varð alveg yfir sig hrifinn þegar ég benti honum kurteislega á að kannski skildi ég aðeins meira en þau áttuðu sig á. Þetta var rétt eftir að aðalritarinn hafði kallað „Yobo! Yobo!“ til konunnar sinnar. Yobo þýðir elskan mín á kóresku,“ útskýrir hún og hlær.
Lilja segir reynsluna sem hún öðlaðist eftir árið í Suður-Kóreu einnig hafa nýst sér mjög vel þegar hún vann að endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
„Þá kom sér vel að eiga greiðan aðgang að hagfræðingum frá Suður- Kóreu. Þótt þjóðirnar virðist í fyrstu mjög ólíkar, rúmlega 300.000 manns hér og 51 milljón í Kóreu, er hægt að gera gagnlegan samanburð. Þetta eru nefnilega lítil og opin hagkerfi og margt sameiginlegt í sögu þessara ríkja á 20. öldinni. Svo er það samanburðurinn við Norður-Kóreu sem gerir mig alltaf fremur leiða. Þar búa til dæmis enn 25 milljónir alveg eins og árið 1953 þegar samið var um vopnahlé. Fólki hvorki fjölgar né fækkar, sem segir okkur að þetta sé ein dýrasta pólitíska tilraun með mannfjölda sem átt hefur sér stað í sögunni,“ segir hún alvarleg í bragði og bætir við að þetta undirstriki mikilvægi stjórnarfars og hagstjórnar.
„Rétt stjórnarfar og opið lýðræðislegt samfélag, byggt á blönduðu hagkerfi, skilar mesta árangrinum við stjórnun ríkja. Þetta var mitt leiðarljós sem utanríkisráðherra, einmitt vegna þess að ég hafði búið þarna á mínum yngri árum þar sem ég pældi endalaust í hagkerfinu og stjórnarfari landsins. Í Suður-Kóreu varð ég líka svo vör við þá miklu samheldni sem þar ríkir. Þessi þjóð ætlar sér eitthvert og stefnir þangað í mikilli samheldni. Samheldni sem er líka til á Íslandi. Árangur Íslands á tuttugustu öldinni hefur verið alveg hreint ótrúlegur. Á mjög skömmum tíma höfum við skapað okkur miklu fjölbreyttara hagkerfi en nokkurn hefði grunað að væri mögulegt. Við stækkuðum landhelgina, fjárfestum í togurunum, sköpuðum útflutningstekjur sem gaf okkur fjölbreyttari innflutning, – við fórum frá því, að vera ein fátækasta þjóð Evrópu, yfir í að verða ein sú sem hefur hæstu þjóðartekjurnar á mann,“ segir hún og eldmóðurinn leynir sér ekki í röddinni.