fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fókus

Dagur í lífi Þorsteins Guðmundssonar: „Ástæðan fyrir því að ég fór í sálfræði var eiginlega tilviljun“

Margrét Gústavsdóttir
Miðvikudaginn 4. október 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn fæddist í Reykjavík árið 1967. Hann stundaði grunnskólanám við Réttarholtsskóla, fór svo í MR og þaðan í Leiklistarskóla Íslands. Undanfarin þrjú ár hefur hann stundað nám í sálfræði við HÍ.
Árið 1997 sló Þorsteinn í gegn með Fóstbræðrum og hefur síðan skapað sér sess sem einn vinsælasti gamanleikari þjóðarinnar. Þorsteinn býr í Vesturbænum með eiginkonu sinni, Elísabetu Önnu Jónsdóttur lögfræðingi. Þau eiga saman þrjú börn og eru því fimm í heimili en fyrir á Þorsteinn einn uppkominn son.

„Ég vakna vanalega klukkan 8.00 á morgnana og útbý mér góðan morgunmat. Ég er svona morgunverðarperri. Fæ mér gott múslí og ristað brauð. Ég elska alveg ristað brauð. Það er með því betra sem ég fæ. Sérstaklega með góðu kaffi.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Afi minn sagði þetta við mig þegar ég var í menntaskóla og þessi orð hafa alltaf setið í mér:

„Það er mikilvægt að sýna öðru fólki tillitssemi en maður þarf alltaf að passa að láta ekki vaða yfir sig.“ Ég held að það sé mikilvægt að hafa sín mörk og halda í sjálfsvirðinguna.

Hvað viltu ráðleggja öðrum?

Að hlusta á tilfinningar sínar. Ef manni líður illa þá þýðir ekkert að harka það af sér. Maður verður að breyta einhverju. Stundum er hundleiðinlegt að þurfa að breyta, en það er alltaf betra en að láta sér líða illa.

Hvað vildirðu að þú hefðir vitað fyrr?

Að það er allt í lagi að vera ég. Ég hugsaði alltaf sem ungur maður að ég væri eitthvað gallaður, að ég passaði ekki inn og væri ekki nóg, en ég vildi að ég hefði vitað það fyrr að ég er bara alveg ágætur.

Þegar ég er búinn með morgunmatinn fer ég út að labba með hundinn og næ að átta mig á svolítið á veðrinu. Mér finnst það mjög gott því núna er ég orðinn svona hjólakarl. Hjóla alltaf í vinnuna og skólann.
Um klukkan 8.30 undirbý ég verkefni dagsins og æfi mig svo aðeins á trompetinn minn. Ég er með svona dempara á honum svo ég get spilað mikið án þess að það trufli nágrannana.

Þegar þessari rútínu er lokið hjóla ég oftast í Háskólann þar sem ég er nú á þriðja ári í sálfræði. Ég sest oftast á aftasta bekk af því stólarnir eru svo þægilegir. Ég með of gamlan rass fyrir hina stólana. Svo reyni ég að hafa það fyrir reglu að spyrja bara einnar spurningar í hverjum tíma. Vil ekki vera gamli, pirrandi karlinn sem er alltaf að gjamma eitthvað.
Þegar ég var yngri þá sat ég alltaf á aftasta bekk líka en svo varð ég allt í einu nærsýnn og þurfti að færa mig fremst. Var auðvitað of kúl til að ganga með gleraugu.

Ég var ágætur í skóla sem krakki. Reyndar svolítið feiminn og útundan í grunnskóla en það breyttist þegar ég kom í menntaskóla. Þá kom ég alveg út úr skelinni. Þetta var þetta svona eins og þegar lok sýður á potti. Ég varð eiginlega ofsakátur. Óþolandi. Fór að fela mig á bak við gardínur, hoppa á kennarana og svona. Ég hugsa að í dag hefði ég forðast mig sem ungling en ég var samt góður strákur. Ekkert vondur. Bara svolítið óþolandi.
Klukkan 12.00 söðla ég um og sest upp á hjólið sem ég fékk í fimmtugsafmælisgjöf frá vinum mínum. Þau fengu strákana í reiðhjólabúðinni Berlín til að taka það allt í sundur og svo kom hver gestur með brot af hjólinu í veisluna. Einn kom með hnakk, annar með bjöllu og svo framvegis. Þetta var mjög skemmtilegt. Ég hjóla sem sagt í Bataskólann, nýju vinnuna mína sem er uppi á Suðurlandsbraut. Bataskólinn er rekinn á vegum Reykjavíkurborgar og Geðhjálpar og ég er titlaður verkefnastjóri ásamt konu sem heitir Esther Ágústsdóttir. Í Bataskólann kemur fólk á námskeið þrisvar í viku en námskeiðin tengjast öll geðrænum áskorunum. Þetta er ekki alveg ótengt sálfræðinni en ég starfa samt hvorki sem sálfræðingur né sálfræðinemi við skólann. Ég hef aðallega verið í því að setja saman námskeið og ráða svo fólk til að kenna á þeim. Nú þegar fyrstu nemendur eru byrjaðir að mæta í skólann finnst mér mjög gaman að heilsa fólki á göngunum. Stend svona og býð góðan dag. Ég er nörd í eðli mínu en elska samt fólk. Mér finnst fólk alveg frábært.

Ástæðan fyrir því að ég fór í sálfræði var eiginlega tilviljun. Mig langaði að breyta til af því ég var hættur að finna fyrir áskorunum í því sem ég var að gera. Ég skráði mig í sálfræði af því ég hélt að þetta væri svo auðvelt fag. Svo komst ég auðvitað að því að hún er það alls ekki. Mér fannst gaman að láta reyna á hugann með alveg nýjum hætti. Þurfa að skilja tölfræði og svona. Þetta hafði ég ekki reynt síðan í menntaskóla. Maður er alltaf að vinna litla sigra á hverjum degi. Margir vilja meina að nám sé stökkpallur út í eitthvað annað en mér finnst nám geta líka bara gefið lífsfyllingu í sjálfu sér. Svo má vinnan samt alveg fylgja með.

Eftir að hafa reynt að standa mig í vinnunni og gera mitt besta í því að vera kátur skrifstofumaður þá fer ég stundum og skemmti með uppistandi. Ég er kominn á þann stað í uppistandinu að ég er kannski að skemmta í kringum 16.00. Ég er byrjaður að neita að skemmta fólki sem er drukkið. Nenni því bara ekki lengur.

Þegar verkefnum dagsins er lokið þá hjóla ég heim. Skipti um föt og kem í kvöldmatinn sem bíður. Við notum þessa stund til að sameina fjölskylduna, fara yfir daginn og þess háttar. Konan mín sér eiginlega alltaf um matinn því það er ekki mitt svið. Ég kann bara að gera nokkra rétti. Er ágætur í að gera hakk og spaghettí. Svo kann ég að sjóða ýsu og svona beisik hluti. Ég geri góðan hrísgrjónagraut, eða velling eins og hann er kallaður. Ætli ég sé ekki góður í suðu? Er ekki svona grillperri. Meira suðuperri. Er eiginlega á sama stað í eldamennsku og fyrir tuttugu árum. Konan mín er bæði mikið betri og fljótari að þessu. Ég reyni frekar að vaska upp, ganga frá eftir matinn, fara út með hundinn og svona.

Upp úr klukkan 20.00 þá lít ég oftast í námsefnið. Þetta er svo mikið sem maður þarf að lesa og ég reyni að koma í veg fyrir að námsefnið hrúgist upp. Þetta er rosalega tímafrekt svo ég reyni að lesa í svona tvo til þrjá tíma. Þá er klukkan að verða 22.00 eða 23.00 og ég horfi stundum á sjónvarpið með konunni minni. Okkur finnst oft gaman að horfa á heilu þáttaraðirnar í lotu. Um miðnætti er ég vanalega alveg búinn á því. Ég á mjög auðvelt með að sofna, get sofnað á svona tveimur mínútum. Einu sinni sofnaði ég í miðju rifrildi við konuna mína. Við vorum svona að kýta eitthvað fram og til baka á koddanum, svo sneri hún sér að mér í miðri setningu og spurði hvort ég væri ekki að hlusta. Þá var ég sofnaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“

Atli hélt að það væri einhver að elta hann – „Á tímabili var ég alltaf vopnaður hnífum, hnúajárni og með byssur heima“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“

Marta fær yfir sig óánægjuskriðu eftir pistil um klæðaburð Ingu Sæland – „Marta Smarta er ekki mjög smart í krítikinni sinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna