fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Seðjandi Spaghetti Veganese fyrir fjóra

Kristín Ásgeirsdóttir, matreiðslumaður og eigandi veitingaþjónustunnar Yndisauka leggur til að við prófum að nota eggaldin við matargerð.

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 23. október 2017 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eggaldin er vanmetið grænmeti og það eru margir mjög hræddir við að prófa að matreiða úr því, en eftir að maður kemst upp á lagið með þetta getur bragðið verið algjörlega ómissandi. Það er samt mjög mikilvægt að baka það aðeins með ólífuolíu og salti áður en því er blandað saman við annað hráefni því þá fer beiskjan úr því og það verður milt og ljúffengt á bragðið,“ segir Kristín Ásgeirsdóttir matreiðslumaður.

„Þetta er svona eins og þegar sveppir eru eldaðir rétt þá getur bragðið af þeim orðið þungamiðjan í matnum. Ef fólk er hins vegar skíthrætt við eggaldin þá má sleppa því að hafa það með í réttinum en ég mæli samt með því að fólk prófi.“

Kristín segir sitt eigið mataræði að mestu byggt á grænmetisfæðu, eða um áttatíu prósent.

„Matur verður ekki sjálfkrafa hollur af því hann er stimplaður vegan.“
Kristín Ásgeirsdóttir „Matur verður ekki sjálfkrafa hollur af því hann er stimplaður vegan.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég prófaði samt að vera alveg vegan í heilan mánuð í sumar, hélt það yrði rosalega erfitt en svo reyndist þetta mikið auðveldara en ég hafði ímyndað mér. Ég er reyndar ekki mikið fyrir mjólkurvörur en kann þó að meta góða osta og svo er ég mikill smjöraðdáandi eins og flestir kokkar. Manni líður vel af þessu mataræði en fólk þarf samt að gæta sín á hvað það er að borða. Matur verður ekki sjálfkrafa hollur af því hann er stimplaður vegan. Það er mikið framboð af vegan-vöru sem hefur svo langar innihaldslýsingar að þær ná til tunglsins. Þá er kannski alveg eins gott að fá sér bara erfðabreytt beikon,“ segir hún og bætir við að umhverfissjónarmið komi einnig inn í þetta.

„Ef maturinn er fluttur inn frá landi sem er hinum megin á hnettinum þá fylgir því auðvitað mengun og útblástur. Þess vegna er um að gera að reyna að velja sem oftast hreinan mat úr nærumhverfinu til að umhverfissjónarmiðin fjúki ekki bara út um gluggann.“

Kristín segir að vinnunnar vegna gæti hún tæpast alfarið snúið sér að vegan-fæðunni en Yndisauki býður þó alltaf einn vegan-rétt á dag sem valkost fyrir þá viðskiptavini sem vilja sneiða hjá dýraafurðum.

„Sú mýta að verði ekki saddur af því að borða grænmeti er alls ekki rétt. Til að upplifa mjög seðjandi tilfinningu þarf maður bara að huga að því að borða nóg. Þá er gott að hafa baunir í réttunum eða annað prótein, og svo er ekki verra að vera líka sólginn í hnetur.“

UPPSKRIFT „Spaghetti Veganese“

Fyrir fjóra.

2 msk. ólífuolía
1 stk. lítið eggaldin
1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
1 stk. marið hvítlauksrif
1 tsk. timjan
1 tsk. oreganó
1 tsk. basil
¼ tsk. cayenne-pipar
700 g gulrætur, helst lífrænar, snyrtar og skornar í sneiðar ca 1 cm að þykkt
2 dl rauðar linsur, klofnar lagðar í 2 dl af vatni
900 g maukaðir tómatar
1 msk. balsamedik
1 tsk. grænmetiskraftur

Aðferð:

Hitið ofn í 190°C

Skerið eggaldin í teninga, setjið í eldfast mót og hellið 2 msk. ólífuolíu yfir og saltið, veltið þessu aðeins saman og setjið inn í ofninn og bakið í 15 mínútur.

Hellið smá ólífuolíu í frekar víðan pott á miðlungs hita og svissið rauðlaukinn og hvítlaukinn í smá stund, bætið kryddinu út í og svissið aðeins lengur, þar til laukurinn er orðin mjúkur og þetta fer að ilma. Bætið gulrótunum út í og linsunum með vatninu, hrærið í smá stund áður en tómat, balsamediki og grænmetiskrafti er bætt út í.

Þegar eggaldinið er búið í ofninum er sósunni hellt í eldfast mót og þessu tvennu blandað saman.

Bakið svo sósuna í 15–20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar.

Með því að baka sósuna verður hún aðeins sætari.

Berið fram með pasta, sætum kartöflum eða bara hverju sem er.

Yndisauki

Yndisauki var stofnað árið 2004 af Kristínu og Guðbjörgu Halldórsdóttur.

Fyrirtækið sérhæfir sig í veisluþjónustu, heimsendum hádegismat til fyrirtækja og fleiru sem viðkemur sælkeramatargerð.

Sælkeravörurnar frá Yndisauka fást víða á höfuborgarsvæðinu og einnig á nokkrum stöðum úti á landi.

Bitabarinn í Vatnagörðum 6 er opinn frá kl. 07.30 til 16.00 virka daga.

Á heimasíðu Yndisauka, www.yndisauki.is, er úrval góðra uppskrifta sem óhætt er að prófa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna