Bjórjóga með hipsterum á KEX og blómaskreytingar í Hafnarfirði
„Föstudagurinn byrjar bara á kaffi um níu leytið eins og vanalega. Svo fer ég í blómabúðina mína, Dögg í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, en hana keypti ég fyrir sirka ári. Ég vinn þar til hádegis og þá fer ég að kenna jóga í Sólum úti á Granda. Svo fer ég aftur í blómabúðina og vinn fram eftir degi. Um kvöldið ætla ég bara að slaka á og hafa það náðugt.
Klukkan þrjú á laugardaginn mæti ég í KEX til að kenna bjórjóga. Tíminn kostar 3.500 krónur og bjórinn er innifalinn. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessu á KEX og því var ákveðið að hafa þessa tíma mánaðarlega í vetur. Byrja klukkan þrjú á laugardögum, líklegast næstsíðasta laugardaginn í hverjum mánuði. Það á eftir að skýrast. Bjórjóga byrjaði einhvers staðar á útihátíð í San Francisco minnir mig. Það hefur verið mjög vinsælt í Berlín og ég þróaði mína rútínu út frá því sem ég lærði af jógakennara þar. Týpurnar sem mæta í bjórjóga eru bara svona hipsterar, konur og karlar, sem taka sig ekkert allt of alvarlega og hafa gaman af þessu, enda er þetta ekki alvarleg athöfn. Þetta er aðallega bara leikur en hefur stundum þau áhrif að fólk sem hefur aldrei prófað jóga getur komist í stuð við þetta og áttað sig á því að það getur meira en það heldur. Þetta er auðvitað ekkert rosalega „jógíst“. Snýst aðallega um að teygja og fá sér einn kaldan á meðan. Það er ótrúlega fyndið hvað gerist með jafnvægið eftir örfáa sopa.
Á sunnudögum reyni ég oftast að slaka á enda í svo mörg horn að líta þegar maður er að reka fyrirtæki og gott að ná smá hvíld. Ég þarf samt eitthvað að mæta enda mikið að gera á sunnudögum í blómabúðinni. Kannski kíki ég líka í Kolaportið, mér finnst það alltaf geggjað næs, en ætli akkúrat þessi sunnudagur verði samt ekki frekar viðburðalítill.“