fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Heimskerfin á breytingaskeiði og millistéttin að kafna

Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur, segir jafnvægi í kortunum árið 2024

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 15. október 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnlaugur Guðmundsson hefur starfað sem stjörnuspekingur í áratugi. Hann er spáskyggn og næmur með eindæmum enda leita bæði einstaklingar og fyrirtæki til Gunnlaugs til að fræðast um framtíðina og framvindu mála.

Birta leitaði til Gunnlaugs í von um að fá svör við því hvort himintunglin gætu haft áhrif á óróleikann sem við höfum fundið fyrir í stjórnmálum síðustu ár. Gunnlaugur segir heiminn allan ganga í gegnum gríðarlegt breytingaskeið og að breytingarnar nái hámarki á árabilinu 2018–2024.

Hann segir stjórnmálakerfin eins og við þekkjum þau ekki virka lengur enda séu þau byggð á úreltri heimsmynd.

„Hefðbundin stjórnmálakerfi virka ekki á 21. öldinni vegna þess að þau voru skrifuð fyrir 200 árum af körlum, fyrir karla. Það sama gildir um skiptinguna milli hægri og vinstri flokka sem við höfum þekkt úr stjórnmálunum undanfarnar aldir. Hana má rekja til frönsku stjórnarbyltingarinnar árið 1789 hvar íhaldsmenn, aðall og konungssinnar sátu hægra megin í þingsal Parísarborgar og hinn lýðræðissinnaði almúgi sat vinstra megin. Karlar allt saman. Karlar sem skrifuðu lög og leikreglur fyrir sjálfa sig,“ segir Gunnlaugur og rifjar í þessu samhengi upp þróun kosningaréttar á Íslandi.

„Á Íslandi var kosningarétti komið á árið 1844. Réttinn til að kjósa höfðu karlmenn 25 ára og eldri, að uppfylltum skilyrðum um eignir, það er að segja bændahöfðingjar og synir þeirra. Konur og eignalausir karlar fengu fyrst kosningarétt árið 1915 að því gefnu að fólkið væri orðið fertugt.
Og nú, þegar einstaklingurinn í heimsþorpi tækni- og upplýsingabyltingar í lok 20. aldar og byrjun þeirrar 21. vaknar til meðvitundar um stöðu sína blasir við óréttlæti sem hefur lengi verið við lýði. Konur eiga til dæmis enn undir högg að sækja víðast hvar í heiminum og sömuleiðis karlar sem ekki eiga ættir að rekja til „bændahöfðingja“.“

Millistéttin er að kafna

„Hér á landi er stór millistétt sem hefur bæði börn, og stundum foreldra, í sinni umsjá. Þetta er menntað fólk í fullri vinnu sem hefur í miklu að snúast utan vinnunnar. Þetta er fólkið sem borgar brúsann, greiðir háa skatta af launum og lánum og stendur í sjálfu sér í gríðarlegum átökum í lífinu. Margir eru hreinlega að kafna.

Þetta er fólkið sem er látið borga einhverja 15 þúsund króna sekt fyrir að keyra á 78 kílómetra hraða í gegnum Hvalfjarðargöngin og les svo um það á netinu næsta dag að einhver kunningi hafi fengið eins og hálfs milljarðs skuld niðurfellda hjá bankanum. Eðlilega vekur þetta reiði. Stjórnmálakerfið sem við búum við í dag er nefnilega ekki hannað með alla í huga.

Í Matadorinu sem við spilum, eru tvö stjórnmálakerfi. Eitt fyrir karlmenn, eignamenn og aðalsmenn, eða með öðrum orðum yfirstéttina, og svo er annað sett af leikreglum fyrir meginþorra kvenna og eignalitla karla, eða með öðru orðum, almúgann,“ segir hann íbygginn.

Reiði á Austurvöllum heimsins

Gunnlaugur vill meina að lög um fjármálastofnanir og skatta hafi síst verið samin með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

„Samkvæmt þeim leikreglum sem eru nú í gildi þarf hinn venjulegi borgari að greiða 40–50 prósent af tekjum sínum í skatt á meðan þeir sem versla með hlutabréf greiða um 20 prósent af söluhagnaði í skatta. Valdaaðilar hafa jafnframt einkavætt gróða þegar vel gengur en þjóðvætt tapið þegar illa árar, láta skattgreiðendur og lífeyrissjóði borga brúsann. Hinn venjulegi borgari er hundeltur af innheimtufyrirtækjum meðan milljarðar eru afskrifaðir hjá þeim sem spila á fjármálamarkaði.

Það blasir við að þetta er ekki sanngjarnt og reiði hins venjulega borgara, sem brýst fram á Austurvöllum og torgum heimsins, á ekki síst rætur í því að upplýst nútímafólk krefst þess að stjórnmálakerfi og lagaumhverfi hins daglega lífs geri öllum stéttum jafn hátt undir höfði.

Öll orð um það að athafnamaðurinn hafi unnið hörðum höndum að auðsköpun detta niður dauð þegar auðsköpun er byggð á spilltum reglum en ekki raunverulegum dugnaði,“ útskýrir Gunnlaugur og bætir við að sífellt færri kjósendur geti samsamað sig með „höfðingjasonum“ þeim sem hafa skrifað leikreglurnar undanfarna áratugi og aldir.

„Bjarni Ben og Sigmundur Davíð hafa til dæmis borið það margoft fyrir sig að þeir hafi alltaf farið að lögum og vissulega er það rétt. En þetta er ekki varnarræðan sem færir þeim trúverðugleikann aftur.“
„Bjarni Ben og Sigmundur Davíð hafa til dæmis borið það margoft fyrir sig að þeir hafi alltaf farið að lögum og vissulega er það rétt. En þetta er ekki varnarræðan sem færir þeim trúverðugleikann aftur.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Trúverðugleikann má ekki vanta ef fólk vill samstöðu

Hann segir tap hægri flokka aðallega orsakast af tveimur ástæðum. Önnur sé sú að kjósendahópurinn er orðin stærri og fjölbreyttari og hin er sú að færri geti samsamað sig með raunveruleika þeirra sem skrifa leikreglurnar.

„Bjarni Ben og Sigmundur Davíð hafa til dæmis borið það margoft fyrir sig að þeir hafi alltaf farið að lögum og vissulega er það rétt. En þetta er ekki varnarræðan sem færir þeim trúverðugleikann aftur. Kjósendur vilja að stjórnmálamenn sýni aðstæðum þeirra skilning og vinni í þeirra hag. Ef fólk trúir ekki lengur, ef trúverðugleikann vantar, þá stendur ekkert eftir enda er trúin það sem bindur hópa saman, hvort sem um er að ræða fótboltalið, trúarbragðahópa, stjórnmálaflokka eða aðrar fylkingar.“

Beina leið fram veginn

Gunnlaugur vill meina að í allri pólitískri baráttátu togist á fortíðarþrá, stöðugleikaþörf og þörfin fyrir breytingar og þessu skiptir hann upp í fortíð, nútíð og framtíð.

„Þegar Bjarni Ben vísar í stöðugleika þá nær hann ekki til þeirra sem hafa ekki haft það gott undanfarin ár. Ef þú hefur ekki búið við stöðugleika þá viltu eðlilega breytingar.

Það sama gildir fyrir stjórnmálamenn sem gera út á fortíðarþrá, að allt hafi verið svo gott í gamla daga. Kjósandi sem hefur ekki haft það gott árum saman á líka eftir að vilja breytingar til hins betra. Átökin í heiminum í dag snúast aðallega um að hvorki nútíðin né fortíðin hafa verið eins og við viljum og því er bara ein leið í boði. Framtíðin.“

Gagnslaust að lofa stöðugleika þegar allt er í lausu lofti

Gunnlaugur segir að Vesturlönd hafi verið í miklu umrótsástandi síðustu tvo áratugi og því hafi í raun ekki verið um neinn hefðbundinn stöðugleika að ræða.

„Heimurinn er búinn að breytast mjög hratt á stuttum tíma. Landamæri eru að smátt og smátt að hverfa, þjóðarbrotum og trúarbrögðum ægir saman í borgum heimsins sem verða æ líkari hver annarri. Upplýsingastreymið er mikið og kemur úr öllum áttum. Þess vegna fara stjórnmálaflokkar úr þremur og fjórum upp í tíu eða tólf, jafnvel fleiri. Fólk veit ekki hverju það trúir lengur og afleiðingin er sú að það verður erfitt að mynda samstöðu og fylkingar.“

„Hefðbundin stjórnmálakerfi virka ekki á 21. öldinni vegna þess að þau voru skrifuð fyrir 200 árum af körlum, fyrir karla.“
Þegar auðmenn einir komast til valda „Hefðbundin stjórnmálakerfi virka ekki á 21. öldinni vegna þess að þau voru skrifuð fyrir 200 árum af körlum, fyrir karla.“

Raunverulega valdið liggur hjá risafyrirtækjunum

Hann segir að bæði opinberlega og á bak við tjöldin, séu hin hefðbundnu þjóðfélög að leysast upp og þjóðríki breytist hægt og rólega í sambandsríki. Valdið í Evrópu liggi nú í Brussel og jafnvel að hluta í Þýskalandi en mestu ráði þó stórfyrirtækin.

„Íslendingurinn Ómar Ragnarsson má til dæmis ekki fljúga hvaða flugvél sem er, vegna reglugerða frá Belgíu. Þjóðlöndin eru vissulega 140, eða svo, talsins, en aðalvettvangur þeirra í dag er létt skemmtun á knattspyrnuvellinum. Í heimsmeistarakeppninni. Eða í Eurovision. Staðreyndin er sú að raunverulega valdið liggur ekki lengur hjá ríkisstjórnum þjóðanna. Það er í höndum peningaafla, risastórra fyrirtækja sem starfa um allan heim, án landamæra, koma í veg fyrir eðlilega samkeppni og hamla frelsi einstaklingsins í stað þess að auka það þegar til lengri tíma er litið.“

Afstöður himintunglanna

…um ástand heimsins og framvindu mála.

Frá 2019–2020: Vatnaskil í umbreytingu heimskerfanna.

2019–2020 (og fram til 2024) munu þær kerfisbreytingar sem átök hafa staðið um frá 2008–2018 taka á sig nýja og áþreifanlega mynd.

2019: Framleiðslu- og auðlindabylting. Eldar hætta að loga, köld rök- og félagshyggja.

Sú nýsköpun sem hefur gerjast í grasrótinni árin 2012–2018 verður að: a) áþreifanlegum raunveruleika b) virkum framleiðslulínum. Auk þess má búast við eftirfarandi: Uppreisn gegn kjötframleiðslu og því stóra fótspori sem slík framleiðsla tekur. Vakning verður meðal almennings (ekki bara útvalinna) tengd náttúruvernd og almennri meðferð náttúruauðlinda. Það er nú eða aldrei.Undanfarið ár hefur félagshyggja hefur átt undir högg að sækja og vitsmunalegar samræður verið af skornum skammti. Hraðskreiðir athafnamenn hafa átt leiksviðið. Eldar hafa logað en þeir munu slokkna.

2020: Árið 2020 hefst 180 ára hringrás í lofti. Félags- og hugmyndahyggja tekur við af efnishyggju sem hefur ríkt síðustu aldir. Heildarhyggjan ryður sér til rúms.

2024: Ný hugmyndafræði.

Plútó fer inn í Vatnsbera 2024 en hann var síðast í Vatnsbera 1777–1799. Eftir 2024 má búast við því að hin nýju heimskerfi taki á sig mynd. Hugmyndafræðin verður mótuð. Sundurgreinandi sérfræðihyggja sem hefur ráðið síðustu aldir mun smátt og smátt víkja fyrir heildrænum viðhorfum og heildarhyggju.

Trúa ekki lengur á flaggið

Gunnlaugur víkur talinu að Bandaríkjunum þar sem ótrúleg atburðarás átti sér stað í síðustu forsetakosningum. Þar lifa nú fimmtán prósent íbúa undir fátæktarmörkum og búið er að flytja stóran hluta iðnaðar til Mexíkó, Kína og annarra láglaunasvæða. Hann segir að millistéttin þar, sem annars staðar á Vesturlöndum, sé slegin yfir því að auðmenn einir komist til valda. Sundrung og tortryggni sé jafnframt mikil og þjóðin trúi ekki lengur á flaggið sem hún áður fylkti sér heilshugar undir.

„Á stjórnmálasviðinu, svo dæmi sé tekið, er barist um upplýsingar og þetta á ekki bara við um Bandaríkin heldur heiminn allan. Valdaaðilar reyna að stýra upplýsingaflæði og nota netið sem stjórntæki. Njósnað er um fólk og fylgst með netnotkun þeirra sem ekki eru valdaaðilum þóknanlegir. Eftirlitstæknin er notuð til að staðsetja og fylgjast með hegðun og hreyfingu manna en á móti kemur að einstaklingarnir, fólkið, nota sömu tækni gegn valdaaðilum.

Valdaaðilar fylgjast með fólki, fólk fylgist með valdaaðilum.

Rannsóknarblaðamenn sækja upplýsingar og birta. Beinagrindur eru viðraðar. Valdamisnotkun er afhjúpuð. Tæknibylting 20. og 21. aldar þýðir að valdaaðilar geta ekki lengur skákað í skjóli leyndar með sama hætti og áður var. Einstaklingurinn, hinn venjulegi borgari, lætur ekki segja sér hvað sem er. Hann hefur vaknað til meðvitundar um mátt sinn og setur í kjölfarið fram kröfur um virkara lýðræði.“

Viljum ekki vakna í Dýrabæ Orwells

„Við stöndum í miðju fljóti valdaskipta á heimsvísu og þurfum nauðsynlega að halda vöku okkar. Þjóðland er jú ekki óbreyttur staðall. Bandaríki frelsis geta hæglega breyst í Bandaríki ófrelsis. Ísland, lýðveldi smákónga, getur hæglega breyst í samveldi nokkurra fjölskyldna sem eiga, og eða selja, allar auðlindir landsins. Ef við höldum ekki vöku okkar þá vöknum við kannski upp við þann vonda draum að búa í Dýrabæ Orwells þar sem svínin hafa tekin völdin. Það viljum við ekki.“

Lausnin felst í því að tala saman

En hvaða lausn sér Gunnlaugur í stöðunni? Hvað getum við sem þjóð og einstaklingar gert til að sýna djörfung og hug, forða okkur háska frá?

„Við þurfum fyrst og fremst að tala saman. Það þarf að breyta stjórnmálum úr kappræðum yfir í samræður. Samtal þar sem fólk leggur sig fram um að hlusta hvert á annað. Víða um heim hafa minnihlutastjórnir starfað lengi með góðum árangri en þá þarf fólk líka að tala saman og semja um hlutina til að komast að heppilegum niðurstöðum. Það er ekki endilega slæmt að hafa marga og ólíka flokka starfandi saman ef fólk getur átt samtal.

Hvað okkur sem einstaklinga varðar þá er það undir hverjum og einum komið að vinna á jákvæðan hátt í því að laga og umbreyta þjóðfélagskerfinu. Það eru til að mynda fjölmörg tækifæri til staðar fyrir þá sem vilja vinna að nýsköpun og umbreytingu. Þetta gildir fyrir alla geira; fjármála-, heilsu- og menntageira og einnig í trúmálum. Það eru alls staðar ný tækifæri. Þeir athafnasömu leggja vegaslóða framtíðarinnar. Breytingar munu eiga sér stað hvað sem hver og einn segir, óskar sér eða vill.

Eina óumbreytanlega lögmál lífsins er að allt er breytingum háð. Þau sem undirbúa jarðveginn munu standa með pálmann í höndunum og verða áhrifaaðilar innan nýrra heimskerfa. Leiðin fram á við liggur um nýjar götur,“ segir Gunnlaugur Guðmundsson að lokum.

Frekari fróðleik um stjörnuspeki má lesa hér á vef Gunnlaugs, Stjörnuspeki.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Í gær

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna