fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Sumir hafa þá stefnu að þegja yfir öllu

Karen Kjartansdóttir um ætterni, útivist og erfiðar áskoranir

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 8. október 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Kjartansdóttir tók nýlega við starfi talsmanns United Silicon en mikil ólga hefur verið í kringum verksmiðjuna síðustu mánuði. Um leið valdi hún að hafna öruggu starfi hjá RÚV enda segist hún mikið fyrir flóknar áskoranir. Margrét Hugrún Gústavsdóttir hitti Karen á Kringlukránni og spurði meðal annars út í ætternið, útivistaráhugann og erfiðu verkefnin.

Hverra manna ertu og hvaðan ertu?
„Pabbi minn, Kjartan Már Benediktsson, er Skagamaður og öll föðurætt mín langt aftur í aldir. Hann fæddist þar en flutti svo með mömmu sinni á Selfoss þegar hann var barn. Mamma mín, Kristjana Karen Jónsdóttir, fæddist í Reykjavík en flutti síðar á Hvolsvöll þar sem þau kynntust. Akranes og Hvolsvöllur eru eiginlega þeir staðir á landinu sem eiga stærstan hluta hjarta míns.“

Ertu fædd á Hvolsvelli?

„Nei, þetta er nú eiginlega lengri og flóknari saga. Ég fæddist í Holta- og Landsveit af því að pabbi ætlaði að gerast þar bóndi. Foreldrar mínir brugðu fljótlega búi og fluttu á Sel í Árnessýslu, svo fluttu þau á Stokkseyri en þar lagðist útgerðin af ári eftir að við mættum á svæðið. Ég hóf sem sagt skólagöngu mína á Stokkseyri en svo fluttum við fjölskyldan á Skagann þar sem pabbi fór á sjó. Þar bjuggum við þar til ég varð svona tíu ára. Þá fluttum við í Leirár- og Melasveit í Borgarfirði og þaðan í Landeyjar þar sem ég lauk grunnskóla á Hvolsvelli.“

Hljóp að Jónasi og Hannesi

Að grunnskólanáminu loknu hélt Karen í Menntaskólann á Laugavatni sextán ára gömul.
„Ég bjó í heimavist á fallega burstabænum sem tilheyrði Héraðsskólanum. Man sérstaklega vel eftir því hvernig við vorum látin hlaupa að Jónasi í íþróttatímum en svo kallaðist upphitunarhlaupið þar sem við hlupum að styttunni að Jónasi frá Hriflu.“

Á menntaskólaárunum kynntist Karen eiginmanni sínum, Hannesi Inga Geirssyni íþróttakennara. Saman eiga þau þrjú börn en þau heita Askur, sem er fjórtán ára, Una, átta ára og Kjartan, sex ára.
„Við Hannes erum enn saman svo ég get því miður ekki sagt neinar krassandi sögur um ástir mínar og örlög,“ segir Karen kankvís.

Rataði ekkert um Reykjavík

Eiginmaður Karenar er borgarbarn og það var fyrst í gegnum kynni sín af honum að sveitastelpan þurfti að læra að rata um Reykjavík. „Ég hafði eitthvað farið í bíó og Kringluna en hafði engar tengingar í höfuðborgina og rataði ekkert. Fyrst um sinn var ég alltaf með hnausþykka símaskrá í bílnum til að skoða kort og komast leiðar minnar. Samt orðin tvítug. Ég er sem sagt algjör últra dreifari.“

Hvernig kom það svo til að þú æxlaðist út í fjölmiðlabransann?

„Ég las mikið af bókum sem barn og taldi mig ægilega menningarlega sinnaða. Hafði alltaf þessar hugmyndir um sjálfa mig að ég væri týpan sem læsi Morgunblaðið, ekki síst Lesbókina og hefði skoðanir á póstmódernisma. Æðsti draumur minn var að verða blaðamaður á Lesbókinni. Svo breyttist ég og samfélagið líka. Ég lærði betur hvar áhugasvið mitt liggur og Lesbókin er ekki lengur til. Ég kláraði reyndar bókmenntafræðina í Háskólanum en vildi svo bæta einhverju praktískara við. Mér fannst hugvísindin ekki nógu praktísk svo ég hóf meistaranám í blaða -og fréttamennsku. Í einhverju skólaverkefni fór ég svo inn á ritstjórn DV þar sem Illugi Jökulsson og Mikael Torfason buðu mér vinnu. Ég hugsaði með mér að ef ég hefði einhvern áhuga á þessu þá væri alveg eins gott að byrja að vinna við þetta. Ég henti mér út í djúpu laugina og þetta varð gríðarlega lærdómsríkur tími fyrir mig. Við vorum þarna nokkrir kornungir blaðamenn sem fengu mikla ábyrgð og fóru í gegnum mikið öldurót.“

Tryllingslega fyndin tilhugsun að vinna fyrir LÍÚ

Karen réð sig svo til starfa hjá 365 og skrifaði í Fréttablaðið í nokkur ár en réð sig svo sem fréttakonu á Stöð 2. Hún var svo orðin varafréttastjóri þegar hún ákvað að skipta um starfsvettvang eftir tíu ár hjá sama fyrirtæki.

„Ég hafði samt elskað hvern dag í vinnunni. Ekki síst starfið við ljósvakamiðlana þar sem ég fékk mikla nánd við fólk og alls konar upplýsingar. Hraðinn og þessi samfélagslegu mál heilluðu mig fljótt þannig að mér fannst bara hver einasti dagur frábær. Svo fór ég að hugsa að það væri kannski ekki hollt að vera alla ævi í sama starfinu eða á sama starfsvettvangi þannig að þegar hausaveiðari Capacent hafði samband við mig og bauð mér starf hjá LÍÚ þá opnuðust nýjar dyr. Fyrst fannst mér þetta alveg tryllingslega fyndið og ógnvekjandi í senn en þar sem ég hafði, meðal annars í gegnum fréttamennskuna, fengið mikinn áhuga á sjávarútvegsmálum, fór ég á fund við Kolbein Árnason sem var þá nýráðinn framkvæmdastjóri samtakanna. Mér fannst hann hafa heillandi sýn á það hvað hann vildi gera við samtökin, og hvernig hann vildi nálgast flókin mál, svo að ég fann strax að þetta væri eitthvað sem ég ætti að taka.“

Á krossgötum í starfi

Í gegnum starfið hjá LÍÚ tók Karen þátt í verkefni sem fólst meðal annars í því að sameina hagsmunasamtök í sjávarútvegi, Samtök fiskvinnslustöðva og LÍÚ, í það sem nú kallast Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún segir þetta hafa verið mjög spennandi verkefni þar sem hún vissi að sjávarútvegurinn á Íslandi átti mjög spennandi sögu og mörg tækifæri sem þyrfti að koma í orð og miðla og nýta betur.

„Ég tel að okkur hafi tekist mjög vel upp en eftir að hafa tekið þátt í svona miklum breytingum var erfitt að venjast hversdagslegri vinnu. Ég fór því að svipast um eftir nýju starfi en var voðalega villt, vissi ekki hvort mig langaði að vinna við fjölmiðla eða halda áfram í þessum geira. Svo rakst ég fyrir tilviljun á Hugin Frey sem er starfsmaður ráðgjafarstofunnar Aton. Ég hafði alltaf haft mikið álit á honum og svo varð úr að ég réð mig til starfa hjá fyrirtækinu sem sérhæfir sig meðal annars í almannatengslum,“ segir hún og bætir við að hún hafi alltaf verið mjög ánægð í þessu starfi enda sé það náskylt fréttamennsku. Fréttamennska og almannatengsl séu systkin en hvort tveggja snúist um að greina aðalatriði frá aukaatriðunum, miðla upplýsingum og segja satt og rétt frá.

Sumir hafa þá stefnu að þegja yfir öllu

„Margir halda að starf almannatengils snúist um að búa til afurðir af sannleikanum eða hreinlega segja ósatt eða þegja en ég vil meina að sá fjölmiðlafulltrúi sem kemur óheiðarlega fram verði ekki langlífur í starfinu. Sumir hafa þá stefnu að reyna að þegja yfir öllu en ég vil meina að litla samfélagið okkar sé þannig að þessi stefna virki mjög illa. Samfélagið okkar kallar í einu og öllu á gegnsæi og flæði upplýsinga. Þá er eins gott að reyna að miðla öllu því sem þú veist á sem ábyrgastan hátt.“

Þú réðst þig nýlega til starfa sem upplýsingafulltrúi hjá fyrirtæki sem er mjög umdeilt, og svo var það þessi frétt um að þú hafir fengið starf hjá RÚV en hættir svo við. Hvað gerðist?

„Sko. Ég skil vel að fólk furði sig á þeirri ákvörðun minni að hafna öruggu fjölmiðlastarfi hjá RÚV og velja óvissa framtíð hjá umdeildu fyrirtæki en stundum veit maður bara hvað maður vill. Málið er að ég var jú farin að sakna hraðans og fjölbreytileikans sem einkennir fjölmiðlastarfið og var því eiginlega komin í þetta starf hjá RÚV þegar fulltrúar United Silicon höfðu samband. Þar sem mér finnst mjög heillandi að starfa að flóknum, og helst erfiðum, málum þá var ég ekki lengi að átta mig á því að þetta verkefni gæti átt mjög vel við mig. Það er verið að hreinsa mikið til þarna og þau gera sér grein fyrir því að málið snýst ekki um að fela upplýsingar heldur koma þeim til skila á sem skilmerkilegastan hátt. Þau vantaði einhvern til að svara fyrir sig og ég treysti mér alveg í það, eins og önnur erfið mál.“

Finnst gaman að miðla upplýsingum, gæti hugsað sér að vinna fyrir stjórnmálafólk fremur en flokka

Karen segir að vissulega finnist henni sorglegt hversu brösuglega hafi gengið með United Silicon en á sama tíma finnst henni allt sem tengist verksmiðjunni mjög áhugavert.

„Meðal annars vegna tækifæranna sem hægt er að nýta í kringum hana enda vaxandi eftirspurn eftir þessu efni í heiminum. Að starfa náið með fyrirtækinu veitir mér djúpa og fjölbreytta innsýn í mörg ólík svið og um leið öðlast ég möguleika á að styrkja mig í starfi. Það er að segja, að ná að miðla flóknum, og stundum erfiðum, upplýsingum á hnitmiðaðan, skiljanlegan og skilmerkilegan hátt.“

Talandi um flækjur, gætirðu hugsað þér að fara út í stjórnmál?

„Hingað til hef ég ekki haft neina djúpa sannfæringu gagnvart einum stjórnmálaflokki eða stefnumálum hans en ég hef hins vegar mikla trú á einstaklingum. Auðvitað hef ég mismikið álit á þeim sem starfa nú að stjórnmálum, en á sama tíma dáist ég mjög að fólki sem vill leggja lóð sín á vogarskálarnar í þágu samfélagsins, af því að þetta er rosalega erfitt starf. Þurfi maður að taka við ósanngjörnum fullyrðingum þá er það aðallega í þessu starfi. Þannig að ég dáist að þessu fólki og met þeirra framlag mikils. Svo finnst mér gaman að hlusta á fólk tala um drauma sína og framtíðarsýn. Ef ég hef trú á því sem þau tala um þá er ég meira en reiðubúin til að aðstoða við útfærsluna,“ segir hún og bætir við að sjálf sé hún umkringd fólki sem hefur mjög fjölbreyttar stjórnmálaskoðanir.
„Maðurinn minn trúir á VG, tengdapabbi minn heldur með Sjálfstæðisflokknum eins og Liverpool og mínir eigin foreldrar eru rosalega vinstrisinnaðir. Þau telja mig örugglega algjörlega á villigötum núna og að eitthvað hafi misfarist stórkostlega í uppeldinu,“ segir hún og hlær.

„Ég á hins vegar ekkert erfitt með að umgangast fólk með alls konar skoðanir. Systir mín er til dæmis gift annáluðum Framsóknarmanni, ein besta vinkona mín er framkvæmdastjóri Pírata og svo mætti lengi telja. Mér finnst stjórnmálaumræðan oft erfið því oftast erum við Íslendingar með sömu sýn á stóru atriðin, til dæmis hvernig við viljum sjá samfélagið okkar. Þess vegna er dálítið leiðinlegt hvernig við veljum yfirleitt frekar að rífast um útfærsluna,“ segir hún hugsi og fær sér mangóbita af salatdisknum.

2017 – eitt besta ár ævinnar

Tölum um lífsstílinn, hreyfingu og mataræði. Þú hentir þér í Landvættinn á þessu ári og laukst honum með stæl. Var þetta ekki fáránlega erfitt? Hvernig kom þetta til?

„Ég mætti fyrir einhverja rælni á fund hjá Ferðafélagi Íslands. Þar var fólk að fara yfir eitthvað ævintýralegt prógramm, að mér fannst, sem heitir Landvættir. Við erum að tala um fimmtíu kílómetra skíðagöngu í fjöllum, sextíu kílómetra fjallahjólaferð, tveggja og hálfs kílómetra sundferð í einhverju vatni fyrir austan og þrjátíu og þriggja kílómetra hlaup. Ég ákvað að skrá mig og skil enn ekki hvernig ég hafði hugrekkið enda felst alveg gríðarleg skuldbinding í þessu,“ segir Karen sem hafði aldrei stigið á gönguskíði og átti ekki fjallahjól þegar hún skráði sig í prógrammið.

„Ég er hins vegar mjög ánægð að ég tók þessari áskorun enda afleiðingin sú að 2017 er búið að vera eitt uppáhaldsárið mitt í lífinu. Maður upplifir svo rosalega margt í gegnum þetta, ferðast um allt land, kynnist nýju fólki og tekst á við sjálfan sig um leið. Á sama tíma viðurkenni ég að það runnu alveg á mig tvær grímur, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég missti til dæmis af brúðkaupi vinkonu minnar af því að ég var að hjóla í grenjandi rigningu á Reykjanesi. Þetta var vissulega erfið ákvörðun en algjörlega æðisleg reynsla.“

Nú er maðurinn þinn íþróttakennari. Hafðir þú verið mikil íþrótta- og útivistarkona þar til þú ákvaðst að gerast landvættur?

„Já, ég hef svo sem verið ágætis hlaupari en þegar þarna var komið sögu hafði ég nánast ekkert hreyft mig og var örugglega í mínu versta formi í mörg ár. Það sem er svo merkilegt við Landvættinn er þessi skuldbinding. Að takast á við eitthvað sem maður kann ekkert í og finnst jafnvel hundleiðinlegt, svo ekki sé minnst á erfitt. En svo dettur maður bara allt í einu í stuð, byrjar að æfa sig og klífur brattann,“ segir Karen sem skráði sig meðal annars á skíðaæfingu sem var fólgin í því að ganga með Landvættum frá Sigöldu og inn í Landmannalaugar um hávetur.
„Við þurftum að vakna um miðja nótt af því það var komið svo brjálað veður. Ganga með höfuðljós í svartamyrkri og roki til baka. Mér fannst þetta bara æðislegt ævintýri,“ segir hún og bætir við að fjallahjólin séu ekki síst skemmtileg leið til að kynnast landinu betur.
„Þannig kemst maður alls konar leiðir sem eru yfirleitt bara í boði á hestum eða torfærujeppum. Mér finnst þetta alveg frábært. Það er svo einfalt að taka hjólið á bílinn, skella sér hvert sem er og kanna ókunnar slóðir.“

Faldi græjurnar fyrir bóndanum inni í bílskúr

Splæstirðu í allar útivistargræjurnar á einu bretti?

„Já, svona að mestu. Ég keypti reyndar hjólið notað. Ætlaði ekki að gera þetta eins og einhver hjólreiðameistari heldur fókusa aðallega á að klára þrautina. Gönguskíðin eru aðeins ódýrari pakki en maður heldur. Ég þurfti engu að síður að halda niðri í mér andanum þegar ég straujaði kortið. Svo fór ég heim með skíðin og faldi inni í bílskúr án þess að tala við manninn minn. Ég man að ég horfði á skíðin í skúrnum og hugsaði „Guð minn góður hvað er ég eiginlega búin að gera,“ enda var ekki einu sinni snjór þegar ég keypti þau. Átti ég svo bara eftir að sjá þau blasa við ónotuð í hvert sinn sem ég kæmi í bílskúrinn og hugsa um þetta sem einhverja algjöra vitleysu?“ segir hún og hlær að sjálfri sér en bætir svo við að skíðakaupin hafi svo reynst ein þau bestu sem hún hafi gert á ævinni.
„Þau komu ekki bara mér, heldur líka manninum mínum, á bragðið í þessari frábæru íþrótt og fyrir vikið eignuðumst við sameiginlegt áhugamál sem við höfðum ekki haft áður.“

Borðar ekkert með miðtaugakerfi

Eins og áður hefur komið fram hefur sveitastelpan Karen sérlega gaman af breytingum. Fyrir nokkrum mánuðum tók hún upp á því að gera tilraunir með mataræðið, hætti að borða flestar dýraafurðir en fær sér samt mjólk í kaffið og kaupir stundum skelfisk og krækling.

„Ég er alin upp í sveit og ber djúpa og mikla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði sem mér finnst bæði fallegur og góður. Það sem truflar mig hins vegar töluvert er ofgnóttin. Ég þoli það ekki þegar fólk leifir mat, sérstaklega þegar það leifir kjöti. Þarna er eitthvert dýr sem var ræktað og slátrað fyrir þig – svo leifirðu því bara!“ segir hún og lyftir brúnum.

„Mér finnst bæði sóun og ofgnótt ógeðsleg en það er í þessu samhengi sem ég hef smátt og smátt orðið fremur fráhverf því að borða kjöt. Fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég svo að prófa að taka nánast allt kjöt af matseðlinum, sjá hvort ég myndi sakna þess og hvernig líðanin yrði. Þetta reyndist mjög auðvelt enda nóg til af góðgæti úr jurtaheiminum og því er eiginlega óþarfi að borða dýrin og afurðir þeirra,“ segir hún og bætir við að reyndar borði hún krækling og skelfisk enda ekki mjög háþróuð dýr.

„Þetta eru einhver svona fræði sem ganga út á að borða ekkert sem er með miðtaugakerfi en mér finnst allt of fyndið og skrítið að skilgreina sjálfa mig sem týpu sem borðar ekkert með miðtaugakerfi,“ segir hún og skellihlær.
„Þetta er samt engin formleg yfirlýsing um að ég sé orðin vegan og ætli aldrei að leggja mér kjöt til munns aftur. Ætli þessi tilraunastarfsemi sé ekki bara hluti af dálæti mínu á áskorunum og breytingum – freistingar mínar felast einhvern veginn í því að takast á við það sem gæti mögulega reynst frekar erfitt,“ segir Karen að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna