Daníel Ágúst Haraldsson hefur verið áberandi á tónlistarsenu landans í um þrjátíu ár, eða allt frá því að hann steig fyrst á svið í Norðurkjallara MH með vinum sínum í Nýdönsk og söng af miklum þrótti um stelpu sem hét Hólmfríður.
Fyrir nokkrum dögum sendu félagarnir í Nýdönsk frá sér sína tíundu plötu en hún ber nafnið Á plánetunni jörð. Með henni fagna þeir meðal annars þeim merkilega áfanga að hafa starfað saman í þrjá áratugi eða allt frá því þeir voru sextán og sautján ára gamlir menntaskólastrákar í MR og MH.
Í tilefni tímamótanna fór Birta á fund við Daníel Ágúst. Fékk tíu dropa og fræddist um gömlu dagana með Nýdönsk, forréttindi farandsöngvarans og almenna tilvist hins miðaldra karlmanns.
Hvaða lag með Nýdönsk sló fyrst í gegn?
„Sko. Fyrsta lagið sem náði verulegri áheyrn og vinsældum var Hólmfríður Júlíusdóttir. Þetta var árið 1988 en við höfðum tekið upp eitt eða tvö lög ári áður þar sem við unnum hljóðverstíma í hljómsveitakeppni í Húsafelli. Stuðmenn héldu keppnina og við urðum alveg ægilega glaðir þegar við unnum þessa keppni þá barnungir, sextán eða sautján ára. Þarna var Björn Jörundur reyndar búinn að semja hið ódauðlega lag Fram á nótt en okkur hugkvæmdist hins vegar ekki að taka það upp í tímanum sem við fengum í verðlaun heldur völdum við lagið Síglaður. Það má kannski kalla þetta bernskubrek,“ rifjar Daníel upp um leið og hann fær sér sæti við eldhúsborðið.
„Í kjölfarið gerðum við skondið myndband við lagið um Hólmfríði þar sem við spígsporuðum um Kringluna í sparifötunum. Myndbandið, og lagið, fangaði athygli hljómplötuútgefandans Steinars Berg og þessu fylgdi svo plötusamningur sem gaf af sér fyrstu breiðskífuna, Ekki er á allt kosið. Þarna var þó töluverður tími liðinn frá því að við vorum uppgötvaðir þarna í Húsafelli,“ segir hann og nefnir um leið að líklegast réð þessi atburðarás því að tónlistin varð fyrir valinu sem hans ævistarf.
„Við sem stofnuðum hljómsveitina fórum nefnilega ekki allir út í tónlist. Valdimar Bragi Bragason fór í tölvuforritunarbransann, Einar Sigurðsson ætlaði að verða sjóntækjafræðingur en gerðist svo flugstjóri og hefur starfað við það í tugi ára en Bergur Már Bernburg fór út í kvikmyndagerð. Þetta var sem sagt ekki köllun hjá okkur öllum heldur í raun bara eitthvert menntaskólabrall. Svo entumst við þrír í þessu. Við Björn Jörundur ásamt Óla Hólm. Jón Ólafs stjórnaði upptökum á fyrstu plötunni okkar. Hann settist svo við hljómborðið og hefur setið þar síðan.“
En hvað með þig? Ætlaðir þú alltaf að verða tónlistarmaður?
„Nei, ég get ekki sagt það. Tónlistin var ekkert endilega númer eitt. Mig langaði svolítið að verða leikari eins og pabbi minn, Harald G. Haralds. Var eitthvað að velta því fyrir mér. Svo var ég líka að spá í að verða sálfræðingur, fara út í þessar mannúðar- eða hugvísindagreinar. En svo fór meiri og meiri tími hjá mér í það að gera tónlist og þannig varð þetta að ævistarfi. Þetta var í raun samt bara tilviljun. Sumir virðast geta planað framtíð sína strax, eins og æskuvinur minn sem ætlaði alltaf að verða lögfræðingur og svo varð hann bara lögfræðingur. Ekkert flókið við það. Áhugi minn stóð hins vegar í allar áttir en svo fer þetta kannski eftir því hvað maður setur tíma sinn í og æfingin skapar meistarann,“ segir Daníel og flettir rólega í plötubunka á borðinu. „Ég fann mig alltaf betur og betur í tónlistinni og þess vegna hef ég enst í þessu í öll þessi ár.“
Árið 1995 stofnaði Daníel fjöllistasveitina GusGus með nokkrum valinkunnum tónlistar- og kvikmyndagerðarmönnum. Sú sveit hefur verið starfandi allar götur síðan þó að meðlimirnir hafi bæði komið og farið. Daníel hefur þó alltaf haldið tryggð við sveitina, sem er sístarfandi enda löngu orðin vel þekkt í danstónlistargeiranum.
„Það sem eiginlega olli því að ég fór út í raftónlistarheiminn voru breytingar í tækninni. Framfarirnar. Þessi heimur var allt í einu orðinn svo fjölbreytilegur. Þarna voru hlutirnir að gerast! Tæknin bauð upp á svo miklu meiri möguleika en þegar ég var að byrja að gera tónlist með Nýdönsk. Ég heillaðist af þessu, sagði skilið við Nýdönsk í nokkur ár og hellti mér út í raftónlistina af fullum krafti og kannaði möguleikana sem hún hafði upp á að bjóða. Svo tók ég mér langt hlé. Flutti til Belgíu með þáverandi eiginkonu minni, Gabríelu Friðriksdóttur, gerði sólóplötu og vann í myndlistinni með Gabríelu. Meðal annars lék ég og tók þátt í að leikstýra og klippti þær kvikmyndir sem hún gerði á þessum tíma.“
Árið 2005 flutti Daníel aftur til Íslands eftir dvölina í Belgíu. Sama ár gaf hann út sólóplötu en á því herrans ári 2007 fór hann aftur á fullt með GusGus.
„Þessi útlegð frá GusGus tók sjö ár en það er einmitt jafn langur tími og það tekur frumur mannslíkamans að endurnýja sig. Frumurnar í líkamanum og sköpunarþráin höfðu endurnýjað sig og þetta leiddi til þess að ég byrjaði aftur að vinna með GusGus. Ég hafði reyndar átt lög á plötunum sem komu út þarna í millitíðinni, Attention og Forever, en ég var sérstaklega ánægður með útkomuna á laginu Moss á þeirri síðarnefndu. Þegar ég sneri til baka og var búinn að koma fyrstu sólóskífunni frá mér og fylgja henni eftir með tónleikahaldi fannst mér kominn tími til að taka upp þráðinn að nýju með GusGus og hef starfað með þeim óslitið síðan. Þetta er líka svo ólíkt því að starfa með Nýdönsk. Ekki sambærilegt í raun. GusGus starfar líka á alþjóðlegum markaði. Það má segja að tónlistin með GusGus sé útflutningsvara. Við spilum erlendis að meðaltali einu sinni til tvisvar í mánuði. Það eru auðvitað forréttindi að fá bæði að ferðast um heiminn og syngja, vera farandsöngvari. Þetta er draumastarfið. Algjörlega.“
Von er á tíundu breiðskífu GusGus snemma á næsta ári. Daníel segir að það verði aðeins minna um gestasöngvara á þeirri plötu en fyrri skífum en hann hyggst snúa sér alfarið að því að ljúka henni þegar tímamótatörninni með Nýdönsk lýkur.
„Ég er víst eini forsöngvarinn í fjöllistahópnum GusGus í þetta sinn. John Grant lætur þó raddböndin titra í einu lagi og það er ekki alveg útséð með aðra gesti. Þetta kemur væntanlega í ljós fljótlega en þeir verða þó líklega færri en áður,“ segir Daníel og víkur talinu aftur að Nýdönsk.
„Á tímamótaárinu ákváðum við að halda upp á afmælið okkar með því að búa til nýja tónlist. Skipta yfir í sköpunargírinn og setja allt á fullt þar. Til dæmis fórum við til Toronto í Kanada að taka upp grunnana og klæddum svo lögin í sparifötin með því að setja öll lögin í strengjabúning og fengum við Harald V. Sveinbjörnsson til að útsetja strengina, sem hann gerði á meistaralegan hátt.“
Hann segir það hafa hleypt ferskum anda í þá miðaldra mennina að gera þessa plötu saman. Við erum þroskaðri og lífsreyndari, bæði sem einstaklingar, vinir og tónlistarmenn. Hann segir þá Björn hafa vandað sig alveg sérstaklega vel við að gera textana en til þess fóru þeir í sérlegan textagerðarleiðangur á Siglufjörð þar sem þeir dvöldu á ættaróðali Björns. Voru í góðu næði og létu gamminn geisa á ritvellinum.
„Þemað er tilvist hins miðaldra karlmanns. Ég segi ekki tilvistarkreppa, meira svona skoðun; hvernig maður sér og hugsar um lífið. Tónlistin er full af þakklæti, sjálfsskoðun og lífsskoðunum. Okkur líður orðið mjög vel í eigin skinni. Erum orðnir sjálfsöruggir og ánægðir enda ekkert sem þvingar okkur til að gera hlutina svona eða hinsegin. Við reynum bara að gera okkar besta og gefa eitthvað gott af okkur. Það er það sem lífið gengur út á á þessu æviskeiði held ég. Engin tilgerð, ekkert prjál, við erum ekkert að kreista neitt út og allt kemur bara einhvern veginn af sjálfu sér.“
„Við fórum til Kanada vegna þess að við höfðum aldrei farið vestur um haf saman. Þetta gerði nú hálf þjóðin á nítjándu öld þegar allt var hér í steik, örbirgð og ömurleika. Ég segi nú ekki að ástandið hafi verið þannig þegar við fórum en það hefur nú samt verið ansi svargrátt ástandið á þessu landi undanfarið og gott að komast aðeins í burtu. Það að fara af landi brott til að fá vinnufrið hefur aldrei klikkað. Við höfum áður farið til Berlínar og Englands að vinna að tónlist til að anda að okkur nýju og fersku lofti í öðru umhverfi og losna úr rútínunni hérna heima. Efla samheldnina og einbeitinguna,“ segir hann og bætir við að allir hljómsveitarmeðlimirnir eigi hver að minnsta kosti eitt lag á plötunni en önnur hafi þeir gert í sameiningu.
„Við unnum þessa plötu í miklu bróðerni og með sterkan samstarfsvilja að leiðarljósi. Það er ekki sem verst að geta flaggað því að hafa unnið saman að tónlist í þrjá áratugi. Það er ekki sjálfgefið,“ segir hann og hlær.
Daníel eignaðist dótturina Lilju Constance árið 2009 með listakonunni Kitty Von Somtime, en fyrir á hann Daníelu, uppkomna dóttur úr fyrra hjónabandi og afabarnið Unu Guðnýju. En hvernig skyldi honum ganga að sameina hið bóhemska líf farandsöngvarans föður- og fjölskylduhlutverkinu?
„Lilja mín, sem er átta ára, býr bæði hjá mér og mömmu sinni. Þegar hún er hjá mér þá snýst allt mitt líf í kringum hana og þegar ég er einn þá snýst allt í kringum sjálfan mig. Mér finnst þetta alveg ljómandi gott jafnvægi. Ég gæti aldrei hugsað mér að hafa Lilju minna hjá mér. Fyrirkomulagið er sem sagt vika og vika og það má eiginlega segja að það henti lífsflæði farandsöngvarans bara nokkuð vel og ekki síst barninu, sem fær ekki bara að upplifa helgarskemmtun með pabba sínum, heldur líka hversdagsleikann,“ segir Daníel Ágúst.
Að lokum er gaman að geta þess að farandsöngvarinn ætlar að leggja land undir fót um helgina og spila með Nýdönsk á Græna hattinum á Akureyri.
„Við höfum alltaf gætt þess að fagna nýjum plötum með tónleikum fyrir norðan líka enda eigum við dyggan aðdáendahóp á Akureyri sem við þurfum að sinna. En þegar við erum búnir með þá tónleika er þrjátíu ára afmælishátíðinni með Nýdönsk lokið. Að minnsta kosti í bili.“