fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Klambratúnssalat með sýrðum og sultuðum rófum

Marentza Poulsen hefur tekið við kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 24. september 2017 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að hafa í tuttugu ár rekið kaffi Flóru, veitingahúsið vinsæla í Laugardalnum, hefur færeyska smurbrauðsdaman, frú Marentza Poulsen, fært sig um set.

Marentza hefur nú tekið við rekstri kaffihússins á Kjarvalsstöðum en þar hyggst hún bjóða upp á fjölbreytt ljúfmeti, í bland við góða stemningu, alla daga vikunnar frá klukkan tíu til fimm.

„Það er svo þægilegt fyrir fólk að koma hingað. Kjarvalsstaðir eru auðvitað mjög miðsvæðis, alltaf hægt að fá bílastæði og svo er líka frábær aðstaða hérna fyrir börn, bæði inni á safninu en líka á þessu fallega túni hér í kring. Umhverfið er bara alveg einstakt og við höfum lagt mikinn metnað í að skapa gott og fallegt andrúmsloft á kaffihúsinu,“ segir hún glöð í bragði.

Marentza ætlar að bjóða upp á smurbrauð, vegansúpur, hefðbundnar súpur og alls konar salöt ásamt heimabökuðu brauði og kökum en svo mun hún einnig vera með sitthvað sem ekki hefur verið á boðstólum hjá kaffihúsinu áður.
Meðal annars verður hægt að koma í girnilegan dögurð frá klukkan 11.00–14.00 allar helgar og enn nýstárlegra verður svokallað „high tea“, eða te fyrir lengra komna, sem hún hyggst bjóða upp á fyrstu helgina í hverjum mánuði.

„Eftir að dögurðinum lýkur er hægt að koma hingað og njóta lífsins í góðu yfirlæti meðan hlustað er á lifandi djass. Gestir geta pantað sér kampavín eða kaffi, hvort heldur sem er, og notið veitinganna. Ég hugsa að þetta verði dásamleg stemning fyrir fólk sem vill gera sér glaðan dag,“ segir hún og bætir við að „happy hour“ verði einnig á dagskrá. „Það er orðið svo vinsælt að koma í vínglas að vinnudegi loknum.“

Brakandi ferskt salat með bökuðum og sýrðum rófum, fíkjum og geitaosti

Undanfarin ár hefur Marentza komið sér upp einstaklega flottum matjurtagarði í Grasagarðinum í Laugardal. Þar ræktaði hún allt grænmetið sem notað var í réttina á Flóru. Sama áhersla á ferskleika og gæði verður lögð á nýja staðnum.

„Við ræktum allt okkar grænmeti í Grasagarðinum en núna í ágúst og september höfum við verið að fagna nýrri uppskeru. Ég er alin upp við það í Færeyjum að nota rauðrófur eins og kartöflur og annað rótargrænmeti. Venjulegu rófurnar eru líka mjög góðar. Ef maður sýður þetta grænmeti þá endist það lon og don, fyrir utan að það er mjög hollt að borða sýrt grænmeti og í raun flestan sýrðan mat. Það er líka gaman að nota ferskar fíkjur í þetta salat eða leika sér að því að karamellísera þær. Ferskar fíkjur fást meðal annars í Hagkaupum og rétt er að benda á að það er hægt að velja um að nota geitarost eða kjúkling með þessu salati.“

UPPSKRIFT

Klambratúnssalat með sultuðum og sýrðum rófum

Grænt salat og jurtir helst úr garðinum
Ofnbakaðar rauðrófur
Sultaður rauðlaukur
Sýrðar rófur
Fíkjur
Geitarostur
Ristuð fræ

Öllu hráefninu blandað fallega saman og sett í skál eða á disk. Notið einnig tækifærið og skreytið salatið með ætiblómum úr garðinum áður en veturinn tekur völdin.

Bakaðar rauðrófur

Rauðrófurnar eru skrældar og skornar í bita áður en þeim er dreift í í eldfast mót eða ofnskúffu.
Blandið saman góðri ólífuolíu, balsamic-ediki, smá hunangi, salti og pipar og fersku timjan. Hellið blöndunni yfir rauðrófurnar og hrærið vel.
Hitið ofninn í 175°C og bakið rauðrófurnar í 30 mínútur eða þar til þær eru farnar að mýkjast.

Sýrðar rófur

1 kg rófur, skrældar og skornar í bita
Smá ferskt engifer, um það bil 3 sentimetrar, skorið í þunnar sneiðar
1 l vatn
½ l kryddedik
1 kg sykur

Blandið saman vatni og ediki og látið rófurnar og engiferið marínerast í þessu yfir nótt.
Næsta dag er grænmetið sett í pott í þessari blöndu, sykrinum blandað saman við og svo er þetta látið sjóða við vægan hita þar til rófurnar mýkjast mátulega mikið og verða mjúkar undir tönn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Ekki gerst í heil 18 ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna