Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir teiknari, rithöfundur og poppari í FM Belfast: Ætlar að fjalla um myndasögur, syngja og tralla og enda svo á grúfu ofan í legókubbahaug.
„Um helgina er ég í fríi frá spilamennskunni svo ég ætla að gera eitthvað rosalega skemmtilegt með konunni minni. Það gerist nefnilega varla að ég eigi frí um helgar af því að ég er alltaf að spila einhvers staðar. Þegar svo sjaldan vill til þá líður mér eins og krakka sem er að sjá fyrsta snjó vetrarins. Ég er svo spenntur að ég veit bara varla hvernig ég á að bregðast við því,“ segir söngfuglinn knái frá Færeyjum.
„Ég er samt auðvitað með einhverjar hugmyndir. Á laugardaginn förum við kannski og tökum þátt í fjöldasöng á Græna herberginu sem Guðrún Árný ætlar að stjórna af sinni alkunni snilld. Þetta „sing-along“ hefur slegið í gegn frá því við byrjuðum með þetta á Græna herberginu. Það er næstum því alltaf húsfyllir svo greinilegt er að þetta er eitthvað sem fólk hefur þörf fyrir.
Íslendingar elska auðvitað að syngja og þá sérstaklega eftir að hafa fengið sér einn bjór. Færeyingar eru auðvitað líka svona söngelskir en við syngjum samt miklu oftar og meira en Íslendingar. Þegar ég var að alast upp í Færeyjum þá enduðu allar veislur með því að einhver greip í gítar og fólk fór að syngja saman. Þetta gerist auðvitað af sjálfu sér. Þegar maður kemur frá svona lítilli eyju þá er svo ferlega lítið framboð af skemmtun. Ef þú ætlar að hafa það gaman þá þarftu eiginlega að sjá til þess sjálfur að það verði gaman hjá þér. Þá er svo einfalt að grípa í gítarinn.
Ég sakna þessa svolítið hér á Íslandi. Fólk mætti syngja meira saman en ætli þetta stafi ekki af því að hér í Reykjavík býr fólk í svo miklu návígi við hvert annað. Við þurfum alltaf að passa upp á að vera ekki með læti og trufla ekki nágrannann, sem er samt auðvitað bara eðlilegasta mál,“ segir Jógvan og bætir við að líklegast verði sunnudagurinn rólegri. „Kannski að ég bjóði Hrafnhildi bara eitthvert í bröns.“