Þriðja þáttaröð White Lotus hefur nú lokið göngu sinni og svo virðist sem kastast hafi í kekki milli leikaranna Aimee Lou Wood og Walton Goggins. Í þáttaröðinni léku þau parið Rick og Chelsea.
Aðdáendur þáttanna láta ekkert fram hjá sér fara og tóku eftir því að leikararnir voru ekki lengur að fylgja hvort öðru á Instagram. Svo virðist sem Goggins hafi blokkað Wood þar sem ummæli hennar við fyrri færslur hafa horfið af síðunni hans, á meðan hans birtast enn á hennar. Sögusagnirnar fóru enn frekar á flug þegar þau hvort um sig deildu sinni persónu úr þáttunum á samfélagsmiðlum án þess að merkja hvort annað í færslurnar.
Goggins hrósaði þó samstarfskonu sinni eftir að lokaþátturinn var sýndur.
„Þakka þér Aimee Lou fyrir að vera félagi minn… ferð sem ég mun aldrei gleyma,“ skrifaði hann í texta við myndir sem sýndu á bak við tjöldin við gerð þáttaraðarinnar.
Wood birti mynd af þeim saman ásamt textanum „Hinn fullkomni stormur 🩷 ☯️ ♾️“.
Þrátt fyrir sögusagnirnar tala leikararnir í jákvæðu ljósi um hvert annað í viðtölum.