Um er að ræða BBC-sjónvarpsmyndina Threads sem kom út árið 1984. Myndin varpar ljósi á það hvernig venjulegt líf fólks í ensku borginni Sheffield breytist þegar kjarnorkuárás er gerð á Bretland í kjölfar ófriðar á milli aðildarríkja NATO og Sovétríkjanna.
Myndin hlaut mikið umtal á sínum tíma enda þótti hún varpa raunsærri mynd á þær skelfilegu afleiðingar sem kjarnorkustyrjöld hefði í för með sér. Er í myndinni til dæmis varpað ljósi á matarskort, hrunið heilbrigðiskerfi og niðurbrot siðmenningar.
BBC sem framleiddi myndina fékk fjölda kvartana frá áhorfendum sem margir hverjir áttu erfitt með svefn eftir að hafa setið límdir við skjáinn.
Í frétt Daily Star segir að fyrirtækið Warp Films, sem er einmitt í Sheffield, sé með endurgerð á Threads á teikniborðinu. Fyrirtækið vann að framleiðslu Adolescence-þáttanna ásamt fyrirtækjunum Plan B, sem er í eigu Brad Pitt, og Matriarch Productions.
Mark Herbert, framkvæmdastjóri Warp Films, segir að fyrirtækið vilji taka að sér verkefni sem sendi skýr skilaboð út í þjóðfélagið. Ekkert verkefni sé betur til þess fallið en endurgerð á Threads sem eins og fyrr segir kom út fyrir rúmum 40 árum.
Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir, svo sem hvenær tökur á verkefninu hefjast eða hvenær má vænta þess að sjá afraksturinn.