„Það skiptir mann máli að fréttamenn og þulir séu vinalegir á skjánum. Enginn er vinalegri en Sindri Sindrason,“ segir Kolbrún og tekur dæmi.
„Einn daginn er maður kannski ósköp niðurlútur eftir að vera búinn að frétta af barnamorðum á Gasa, mannfalli í Úkraínu og nýjum tilskipunum Donalds Trump sem fela í sér mannréttindabrot. „Mikið er þessi heimur vondur og mikið óskaplega er gæðum misskipt,“ hugsar maður þar sem maður býr við öryggi og hefur fátt að óttast, allavega enn sem komið er.“
Hún heldur svo áfram:
„Um kvöldið er Sindri Sindrason mættur á skjáinn á Stöð 2 til að segja manni fréttir, þessar sem höfðu gert mann mæddan og svo aðrar sem eru beinlínis upplífgandi. Góðu fréttirnar snúast kannski um dýr og börn og skemmtileg uppátæki þeirra. Eftir að hafa sagt þær fréttir krossleggur Sindri hendur og segir hlýr og brosmildur: „Þetta var nú aldeilis fallegt!“ – og maður kinkar ósjálfrátt samþykkjandi kolli til sjónvarpsmanns sem maður er eiginlega farinn að líta á sem heimilisvin af bestu gerð.“
Kolbrún endar pistilinn, sem ber yfirskriftina Sindri, vinur minn á skjánum, svona:
„Það er hlý og bjartsýnisleg ára í kringum Sindra, ekkert nöldur, engin neikvæðni, ekkert niðurbrot. Það er gott að vita af honum.“