Helgi Haraldsson stærðfræðingur segir mögulegt að heimurinn muni breytast meira á næstu fimm árum heldur en á síðustu fimm þúsund árum. Helgi, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, er einn helsti sérfræðingur Íslands í gervigreind og hefur helgað sig rannsóknum á því á undanförnum árum. Hann segir að við séum rétt að byrja að skilja hvað gervigreind eigi eftir að breyta heiminum mikið.
„Við búum við kerfi núna sem er í raun 200 ára gamalt og það er hægt að horfa á það sem eins konar fyrstu útgáfu af gervigreind. Við notumst í raun við eldgömul kerfi, hvort sem kemur að stjórnarskipulagi, menntakerfinu eða peningakerfinu og það eru miklar takmarkanir á þeim kerfum og fólk er að sjá það núna á síðustu árum. Fyrir 20 árum var ekki einu sinni hægt að tala um að það þyrfti að breyta kerfunum, en nú er fólk móttækilegra fyrir því og sífellt fleiri farnir að sjá vankantana. Fólk er farið að sjá að mörg af þessum kerfum eru ekki að virka sem skyldi og það er löngu kominn tími á breytingar. Gervigreindin mun bjóða upp á möguleika til að ráðast í margar af þeim jákvæðu breytingum sem í raun er þörf á. En að sama skapi vakna upp alls konar spurningar um neikvæða þróun sem við þurfum að velta fyrir okkur og byrja strax að vera forvirk í að hugsa um og vinna gegn,“ segir hann.
Helgi bendir á það í þættinum að flest bendi til þess að gervigreind komi til með að verða öflugri og öflugri í að greina flókin gögn og taka ákvarðanir byggðar á nákvæmum spám. Gervigreind komi til með að gjörbreyta vinnumarkaðinum, spila lykilhlutverk í heilbrigðisgeiranum og almennt í daglegu lífi einstaklinga.
„Við erum á mörgum sviðum með tvo möguleika. Annar möguleikinn er að markaðsöfl og valdaöfl muni ná ennþá meiri stjórn á okkur og breyta okkur í eins konar þræla til framtíðar. Hinn möguleikinn er að það gæti orðið miklu meiri valdadreifing og beinna lýðræði og bæting og stórfelldar breytingar á heilbrigðis- og menntakerfum. Tæknin mun gera það mögulegt að breyta öllu pólitíska kerfinu á mjög jákvæðan hátt þannig að einstaklingar geti haft miklu meiri áhrif á lýðræðið. Núverandi kosningakerfi er í raun hræðilega lélegt og mjög úrelt. Nú erum við að nálgast tíma þar sem væri hægt að búa til allt öðruvísi og betra kerfi. Það er raunhæfur möguleiki að búa til kerfi þar sem verður nánast algjör dreifing á valdi. Gervigreind getur bæði gert það að verkum að hlutirnir verði annað hvort miklu betri, eða miklu verri. En veldisvöxturinn á þróuninni veldur því að þróunin verður miklu hraðari en hingað til, sama í hvora áttina hún fer.“
Helgi talar í þættinum um að við séum að nálgast tímapunkt þar sem það getur orðið neikvætt fjárhagslega að hafa fleira fólk. Það veki upp alls kyns spurningar.
„Við erum í fyrsta skipti að koma á tímapunkt þar sem allt er að breytast og það eru ekki lengur fjárhagsleg verðmæti í að hafa fleira fólk. Í gegnum alla mannskynsöguna hafa verið verðmæti í fólki. Fleira fólk hefur þýtt meiri landsframleiðslu og aukna framleiðni. En nú erum við að nálgast punkt þar sem verður neikvætt virði í stórum hluta mannfólks. Það kostar pening að sjá um það og halda því uppi, en það býr ekki til verðmæti. Þannig að það er möguleiki að samfélög verði fátækari eftir því sem það er fleira fólk. Þetta mun vekja upp alls kyns siðferðilegar spurningar sem við erum rétt að byrja að skoða núna.”
Helgi segir að gervigreind muni hafa djúpstæð áhrif á samfélagið á næstu árum og i raun breyta því í grundvallaratriðum hvernig við vinnum, lærum og lifum. Það muni opnast alls kyns möguleikar og skilvirkni verði meiri en nokkru sinni. Lykilatriðið núna sé að undirbúa okkur strax undir það að aðlagast þessum breytingum.
„Ég er einn af þeim sem trúi því að við gætum verið að horfa upp á meiri breytingar á næstu fimm til tíu árum heldur en á síðustu fimm þúsund árum. Þetta er stærra en internetið. Það verður flóð þar sem allt mun breytast á meiri hraða en langflestir gera sér grein fyrir. Þess vegna er mjög mikilvægt að við förum strax að undirbúa okkur og byrja að gera jarðveginn fyrir þessar breytingar sem bestar,“ segir hann.
Þegar spáð er fyrir um framtíð gervigreindar vaknar upp spurningin hvort hún verði til góðs eða ills og alls kyns siðferðilegar spurningar vakna. Helgi telur mjög mikilvægt að við bíðum ekki með að gera okkur klár undir breytingarnar og gerum allt sem hægt er að gera til að ýta undir að þróunin muni búa til betri heim, en ekki verri.
„Ég hef verið inni í bankakerfinu þegar allir sáu að hlutirnir voru á leiðinni í slæma átt og það þurfti að taka aðrar ákvarðanir en áður. En þá er eins og það sé innbyggt í okkur að gera hlutina eins og við gerum þá alltaf. Jafnvel þó að við vitum að við séum að fara fram af bjargbrúninni. Við viljum ekki að það verði of seint að breyta um hegðun þegar við ákveðum að gera það. Þess vegna eigum við ekki að bíða með að sjá hvert við erum að fara. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn á það sem er framundan, einfaldlega af því að ég held að það sé svo yfirgnæfandi meirihluti fólks sem vill sjálfu sér og öðrum vel. En við verðum að vera mjög vakandi svo að hlutirnir fari ekki í ranga átt.“
Hægt er að nálgast viðtalið við Helga og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is