Það má segja ýmislegt um Donald Trump Bandaríkjaforseta og hvort sem þú ert með honum eða á móti honum ættu flestir að viðurkenna að Trump er vægast sagt langrækinn, einkum hvað varðar fólk sem honum finnst hafa gert eitthvað á sinn hlut.
Fyrir viku síðan greindi NBC News frá því að jafnvel þó Joe Biden hafi ekki einu sinni boðið sig fram í síðustu kosningum virðist Trump þó enn vera með forvera sinn á heilanum. Frá því að Trump tók við embætti hafði hann minnst 580 sinnum minnst opinberlega á Biden, ríkisstjórn hans eða fjölskyldu, eða að meðaltali 6 sinnum á daga, alla daga vikunnar. Á fyrstu 50 dögum sínum í embætti nefndi forsetinn nafn Biden oftar en hann nefndi nafn þjóðar sinnar, Bandaríkjanna.
Það kemur því fáum á óvart að Trump er enginn aðdáandi tónlistarkonunnar Taylor Swift, sem studdi opinberlega við mótframbjóðanda Trump, Kamala Harris. Þar sem Swift er ein vinsælasta poppstjarna Bandaríkjanna fór þessi stuðningur verulega í taugarnar á forsetanum sem, eins og fyrri daginn, hefur ekki gleymt og ekki fyrirgefið.
Ameríska fótboltaliðið Philiadelphia Eagles mætti í Hvíta húsið á dögunum í boði forsetans, en liðið sigraði ofurskálina í febrúar í úrslitaleik gegn Kansas City Chiefs. Einn leikmaður Chiefs er Travis Kelce sem er kærasti Swift.
„Ég var þarna eins og Taylor Swift,“ sagði forsetinn í ávarpi í heimsókn Eagles. „Hvernig gekk það upp? Hvernig endaði það?,“ sagði forsetinn og viðstaddir hlógu.
Þetta er nú smá viðsnúningur hjá forsetanum sem mætti einmitt á úrslitaleikinn sem stuðningsmaður Chiefs og var fljótur að láta sig hverfa þegar ljóst varð að Eagles hefðu sigrað. Hann sagðist einkum styðja Chiefs út af fyrirliðanum Patrick Mahomes og eiginkonu hans, Íslandsvininum Brittany Mahomes sem spilaði um tíma fyrir Aftureldingu/Fram í 2. deild kvenna á Íslandi. Trump sagði í viðtali fyrir leikinn: „Mér þykir leiðinlegt að gera þetta [lýsa stuðningi við annað liðið] en ég hef fylgst með þessum frábæra fyrirliða sem á dásamlega eiginkonu. Hún er MAGA-aðdáandi. Hún er yndisleg manneskja. Ég held að maður komist ekki hjá því að þegar fyrirliði hefur unnið eins oft og hann, að styðja Kansas City.“
Nú hefur Trump þó fundið leið til að bjarga andlitinu, að Chiefs hafi átt skilið að vinna því þar leikur kærasti Swift.
Gagnrýnendur Trump voru fljótir að tjá sig um ávarp forsetans sem þeir saka um að vera með söngkonuna á heilanum.
„Ég sver að þetta er bara því hún dregur að sér stærri áhorfendahópa en hann. Hann er í leynilegri samkeppni við hana og kemst ekki hjá því að opinbera það stöku sinnum.“
„Einhver ætti að setja honum að Taylor hefur bókstaflega gert betri alþjóðlega efnahagssamninga en hann.“
„Svo kúl að vera með leiðtoga sem á í deilum við poppstjörnur. Hvílíkur gagnslaus ónytjungur.“
„Það sem gerir þetta skondnara er hversu einhliða þessar deilur eru. Það er klárt mál að hún mun ekki bregðast við þessu. Hún hefur bara tjáð sig með pólitískum hætti einu sinni síðasta árið, ef ég man það rétt, og það var þegar hún steig fram og kallaði sig barnlausa kattarkonu sem styður Kamala Harris.“
Trump hefur einnig skotið á söngkonuna á samfélagsmiðlum, einkum þegar baulað var á hana á ofurskálinni á meðan Trump var fagnað.“
Hann tók svo af öll tvímæli þegar hann birti færslu á Truth Social þar sem hann sagði hreinlega: „ÉG HATA TAYLOR SWIFT“