fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Fókus

Fannst hún hafa verið „tekin í bakaríið“ á verkstæði í Reykjavík – „Hvað bjóstu við að þetta kostaði?“

Fókus
Mánudaginn 28. apríl 2025 10:19

Myndir/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Netverjar takast á um hvort kona hafi verið „tekin í bakaríið“ og látin borga of mikið fyrir þjónustu á trésmiðju, eða hvort um sé að ræða sanngjarnt verð fyrir slíka þjónustu.

Konan greindi frá málavöxtum í Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi sem er afar vinsæll og með rúmlega 34 þúsund meðlimi. Hún segir „sorglegt hversu stöðugt maður þarf að vera á verði gegn því að vera „tekinn í bakaríið“ og að aðrir nýti andvaraleysi manns sem féþúfu.“

Færsluna má lesa hér að neðan, en til að gera langa sögu stutta þurfti konan að láta saga fyrir sig bút til að loka gati, og borgaði hún 18.500 krónur fyrir þjónustuna. Hún tekur fram að hún hafi ekki spurt um verð fyrir fram því hún taldi þetta vera svo lítið mál að það væri ekkert til að hafa áhyggjur af.

„Fór í trésmiðju (valinni af handahófi) með tréborð sem mér áskotnaðist og bað um að saga fyrir mig bút skv máli því ég þarf að loka gati sem þurfti að saga vegna flutnings á krana fyrir þvottavél. Því miður spurði ég ekki fyrirfram hvað þetta myndi kosta því ég hélt að þetta væri svo mikið smáræði að það myndi ekki þurfa að hafa áhyggjur af því. Verkið tók mjög stutta stund, ég var látin vita með símtali að það mætti sækja en ég kom daginn eftir. Þá kom í ljós að mér var gert að greiða kr 18.500,- fyrir þetta litla verk. Mér finnst þetta fáránlegt okur og eiginlega líka sorglegt hversu stöðugt maður þarf að vera á verði gegn því að vera “tekinn í bakaríið” og að aðrir nýti andvaraleysi manns sem féþúfu.“

Það er óhætt að segja að meðlimir hópsins skiptast í fylkingar. Sumir taka undir með henni og kalla þetta okur, meðan aðrir segja að um sé að ræða sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir þessa þjónustu.

„Þetta er nú bara sanngjarnt tímagjald á verkstæði sem er með vélar sem kosta mikið en gerir það að verkum að verkið er fljót unnið,“ segir einn netverji.

„Hvað bjóstu við að þetta kostaði? Þetta er almennt verð iðnaðarmanns plús vaskur,“ sagði annar.

„Þetta er nú bara eðlilegt gjald fyrir svona vinnu, tímagjald verkstæðisins er ekki hátt og taka þarf með í reikninginn húsnæðið og tækin sem þarf til að geta rekið svona fyrirtæki. Veit ekki við hverju þú bjóst en þetta er bara eðlilegt verð,“ sagði einn og annar spurði af hverju konan hafi ekki keypt handsög og séð um verkið sjálf.

Ósáttir við „okrið“

Fólk gagnrýndi verkstæðið fyrir að rukka klukkustund fyrir verk sem virðist hafa tekið mun styttri tíma.

„Það tala dálítið margir hérna um að klukkutíminn kosti bara þetta og það sé alltaf rukkaður klukkutími en hvaðan kemur þessi regla og hver eru rökin á bak við, að það verði alltaf að rukka heilan klukkutíma? Ef verkið tekur korter með öllu, af hverju er þá ekki hægt að rukka bara fyrir korter? Restin af klukkutímanum er ekki bara einhver afskurður sem ekki er hægt að nýta,“ segir einn.

„Svakalega eru margir meðvirkir okrinu hér inni,“ sagði annar.

„Miðað við þetta þá skiptir engu þó verkið taki 5 mínútur þá er alltaf skrifað lágmark 1 klst. Þeir fá margar klukkustundir úr einni klukkustund, þetta er rugl. En auðvitað er betra að saga svona bara sjálfur,“ sagði einn.

„Þetta er algert okur og svona iðnaðarmenn ættu bara skammast sín 150 sinnum hið minnsta, og oft skila góðir fúskarar miklu betri vinnu fyrir minni pening,“ sagði annar.

Iðnaðarmaður tjáir sig

Einn vanur iðnaðarmaður deildi sinni reynslu: „Nú hef ég unnið á trésmíðaverkstæðum í mörg ár . Það fer nú soldið eftir því hvernig stendur á hvernig svona er rukkað en oft er það nú lítið sem ekkert. Hinsvegar þá þurfa sum verkstæði að hafa þetta svona, sérstaklega verkstæði sem eru í alfaraleið, einfaldlega vegna þess að svona smáviðvik eru alltaf truflun á því sem er verið að vinna og þetta eru því viðskipti sem menn vilja helst vera lausir við. En auðvitað hefði verið hreinlegra að segja þér fyrirfram að þetta kostaði eitthvað. Sumstaðar eru menn með lágmarksgjald sem er þá kannski á bilinu 15 til 20 þúsund.“

Annar segir einfaldlega: „Það er ódýrast að spyrja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar dularfullu skilaboðin sem voru upphafið að óvæntu ástarsambandi

Afhjúpar dularfullu skilaboðin sem voru upphafið að óvæntu ástarsambandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bubbi kemur Unu Torfa og félögum til varnar eftir útreið hjá Símoni – „Ég trúði þeim öllum og ekkert stakk mig í augun“

Bubbi kemur Unu Torfa og félögum til varnar eftir útreið hjá Símoni – „Ég trúði þeim öllum og ekkert stakk mig í augun“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þórhildur opnar sig um erfið sambandsslit – „Ég var týnd þegar það byrjaði að flosna upp úr sambandinu“

Þórhildur opnar sig um erfið sambandsslit – „Ég var týnd þegar það byrjaði að flosna upp úr sambandinu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Amy Schumer um kynlífsatriðið rosalega með John Cena – „Hann var í rauninni inni í mér“

Amy Schumer um kynlífsatriðið rosalega með John Cena – „Hann var í rauninni inni í mér“