„Ég á Grensásdeildinni mikið að þakka og þess vegna þykir mér vænt um að geta lagt þeim lið,“ segir Aðalbjörg Sif Kristinsdóttir, ein af fjórum Sjávarsystrum sem hafa einsett sér það að synda sjósund á fimmtíu mismunandi stöðum í kringum landið næstu mánuði.
Systurnar, sem auk Sifjar eru þær Erna Héðinsdóttir, Íris Hrund Halldórssdóttir og Monika Katarzyna Waleszczynska, kynntust í þessum lífstíl sem sjósundið. „Við erum allar að verða fimmtugar á árinu og þaðan er þessi fjöldi sunda komin,“ segir Sif.
Sjávarsystur eiga annað sameiginlegt því allar hafa þær glímt við einhverja kvilla og leitað í sjósundið til þess að öðlast betri líðan.
Saga Sifjar er sú að hún var ein af vinkonum fimm sem slösuðust illa þegar pálmatré féll á þær á spænsku paradísareyjunni Tenerife fyrir tæpum fjórum árum síðan. Talsvert var fjallað um slysið í fjölmiðlum en tréið féll á öxl Sifjar með þeim afleiðingum að hægri handleggur lamaðist og vöðvar í öxlinni eru að hluta óvirkir, þá brotnaði hryggjarliður brotnaði og varð hún fyrir alvarlegum meiðslum á baki. „Hryggjarliðurinn var vitlaust spenntur úti sem olli miklum verkjum en það var síðan lagað hér heima,“ segir Sif.
Vinkona Sifjar, Svava Magnúsdóttir, varð fyrir enn alvarlegri meiðslum en hún varð fyrir mænuskaða. Þær tvær slösuðust mest í slysininu og voru sendar í sjúkraflugi til Íslands tæpro viku síðar og lögðust báðar inn á Grensásdeild þar sem við tók löng endurhæfing. „Ég var inni á Grensás í mánuð og síðan á dagdeild í sjö mánuði. Það var tekið afskaplega vel á móti mér og þarna sá maður hvað starfsfólkið yndislega er að vinna frábært starf,“ segir Sif.
Það blasti þó við að endurnýja þarf ýmis tæki á tól á deildinni og þess vegna vildur vinkonurnar endilega synda sundin fimmtíu til styrktar Grensásdeildinni.
Eftir að langri endurhæfingu Sifjar lauk á Grensás tók við barátta að halda skrokknum í lagi. Afleiðingar slyssins eru meðal annars hvimleiðar síbólgur sem og verkir í efra baki og mjóbaki. Fljótlega ákvað hún að prófa sjósundið og segist Sif hafa fundist strax að þetta gerði henni afar gott. „Ég slæ í raun tvær flugur í einu höggi með þessu, fæ kælingu og hreyfingu. Ég verð aldrei góð en sundið lætur mér líða betur,“ segir hún.
Þegar Sif byrjaði í sjósundinu fór hún ekkert rólega í byrjun og rétt stakk tánum ofan í. Nei, hún þrammaði beint út í og upp að höku.
„Ég er að glíma við meiðsli í efri hluta líkamans þannig að það þýddi lítið fyrir mig að vaða upp að hnjám. Ég lét bara reyna á þetta strax hvort þetta gerði mér gott,“ segir hún og hlær.
Hún viðurkennir fúslega að sér finnist ennþá stundum hálf ógeðslegt að vaða út í sjóinn enda ýmislegt í botninum. En af hverju ekki láta þá köldu pottana í sundlaugunum duga? „Vatnið er einhvern veginn harðara í köldu pottunum. Sjórinn tekur mýkra á móti manni og það er auðveldara,“ segir Sif.
Þá virðist hún vera ein af þeim sem þolir kuldann afskaplega vel. „Ég er ein af þessum skrýtnu,“ segir Sif og hlær en hún fer í sjóinn í öllum veðrum og brýtur sér stundum leið í gegnum klaka til þess að komast ofan í ískalt Atlantshafið. Það eru talsvert færri sem að láta sig hafa sjósundið yfir vetrartímann en um leið og sól rís og hitastig sjávar fer að komast yfir fimm gráðurnar þá fjölgar í hópnum.
Þrátt fyrir ástina á kuldanum þá kynntust hins vegar Sjávarsystur á hlýrri stað. Í heita pottinum eftir sjósundið. cÞað er mikill og góður félagsskapur í sjósundinu, ef maður er opinn,“ segir Sif og hlær. Þá eiga margir það sameiginlegt að vera vinna sig út úr ýmsum veikindum, slysum eða kvillum. „Svo eru margir sem koma alveg úrvinda eftir daginn eða vikuna og skella sér í sjóinn til þess að endurhlaða batteríin,“ segir Sif.
Sjávarsystur hafa þegar synt átta sund, víða um landið. Hægt er að fylgjast með ævintýrum þeirra á Facebook-síðu þeirra og þá er áhugasömum bent á styrktarreikning Hollvina Grensás.