fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
Fókus

Evert: „Þar sem eru svona miklir peningar er stutt í einhvers konar spillingu“

Fókus
Föstudaginn 25. apríl 2025 08:37

Evert Víglundsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Evert Víglundsson, heilsusérfræðingur og athafnamaður segir lítinn sem engan pening í því að gera fólk heilbrigt, en mikinn bisness í óheilbrigði. Evert, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir tíma kominn á alvöru samfélagsumræðu um versnandi heilsufar Íslendinga, sem sé jafnvel þegar orðinn kostnaðarsamasti útgjaldaliður ríkisins.

„Heilbrigður einstaklingur á sér þúsund drauma, en óheilbrigður á sér bara einn. Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og við ættum ekki að þurfa að missa heilsuna til að átta okkur á því. Ég er á því að ef allir væru heilbrigðir myndu mjög mörg af vandamálunum í okkar samfélagi leysast að sjálfu sér. Heilbrigt fólk hugsar öðruvísi en óheilbrigt fólk og á meira að gefa öðru fólki. Því miður er margt sem bendir til þess að fólk almennt hugsi betur um heilsu hundsins síns heldur en sína eigin heilsu. Ég hef ekki einfalda skyndilausn til að breyta þessu, en ég er á því að það sé allt auðveldara í hóp og með því að tilheyra réttu samfélagi,“ segir Evert, sem segir að hrakandi heilsa almennt sé á ákveðinn hátt stærsta mál samfélagsins, bæði út frá mannúðarsjónarmiðum, en einnig sé ríkissjóður hreinlega að sligast undan kostnaðinum.

„Það er svo margt sem við getum gert og haft áhrif á ef við ákveðum að taka ábyrgðina í eigin hendur og horfa á heilsu sem eitthvað sem við getum haft áhrif á með lífsstílnum okkar á hverjum einasta degi. Með sama áframhaldi mun ekkert kerfi ráða við kostnaðinn við hrakandi heilsu fólks. Við verðum að byrja þessa umræðu og gera eitthvað í þessu sem samfélag.“

„Þar sem eru svona miklir peningar er stutt í einhvers konar spillingu“

Evert, sem er eigandi CrossFit Reykjavíkur og hefur í áraraðir lifað fyrir allt sem snýr að heilsu segir það stórt vandamál í sjálfu sér að mjög litlir fjármunir séu í því að gera fólk heilbrigt. Peningarnir séu fremur í því að selja fólki lyf eða taka við því eftir að það er orðið veikt.

„Við getum breytt þessu öllu, en það verður alltaf erfitt á meðan peningarnir eru í því að selja öll þessi lyf og í veikindum fremur en heilbrigði. Að minnsta kosti hluti af vandanum er hvað það eru litlir peningar í því að gera fólk heilbrigt. Mörg af stærstu fyrirtækjum í heiminum eru lyfjafyrirtæki og það þarf ekki að kafa djúpt til að byrja að spyrja spurninga. Þar sem eru svona miklir peningar er stutt í einhvers konar spillingu. Allir stærstu lyfjarisarnir eru með einhvers konar dóma á bakinu fyrir að ljúga að fólki, sem eitt og sér ætti að fá okkur til að hugsa okkur um. Læknarnir okkar og heilbrigðisstarfsfólkið eru frábært fólk, en það er eitthvað í kerfinu sjálfu sem er ónýtt.“

„Heilbrigðiskerfið ætti líklega frekar að heita sjúkdómakerfið“

Evert hefur í áraraðir unnið við heilsu og er leitun að meiri viskubrunni á því sviði. Hann er með sterkar skoðanir á því hver staðan er og að við verðum að grípa inn í.

„Stærsti hlutinn af kostnaði heilbrigðiskerfisins núna er vegna lífsstílssjúkdóma. Heilbrigðiskerfið ætti líklega frekar að heita sjúkdómakerfið. Það er meira réttnefni. Lyf og veikindi ættu að vera undantekningin og, en þannig er það ekki lengur. Fyrir mér er mjög augljóst að það er að stórum hluta til komið vegna þess að lífsstíllinn hjá Vesturlandabúum hefur versnað. Við vorum ekki svona veik bara fyrir 50 árum síðan. Við borðum alltaf meira og meira rusl í staðinn fyrir hollan mat, höfum aldrei neitað okkur jafnmikið um svefn og hreyfum okkur allt of lítið. Þetta þarf ekki að vera svona. Þekkingin á líkamanum og hvernig hann virkar er orðin það mikil að við getum mjög oft auðveldlega gripið inn í áður en fólk verður veikt. En það sem verið er að gera núna er að grípa eingöngu inn í eftir að fólk er orðið veikt, sem fyrir mér er algjörlega brengluð leið. Ég hef persónulega engan áhuga á því að lifa lengi og vera veikur síðustu áratugina. Við þurfum að breyta umræðunni þannig að þetta snúist ekki bara um að lengja lífaldur, heldur að bæta heilbrigði við árin sem við lifum,“ segir hann.

„Væri tilraun sem væri vert að prófa“

Evert segir að það geti ekki verið eðlilegt að meirihluti Íslendinga sé á lyfjum, líka unga fólkið.

„Staðan er sú að meira en 70 prósent Íslendinga eru að taka lyf að staðaldri, en ég myndi vilja sjá það alveg öfugt. Í raun ætti það að vera minnihlutinn sem væri að taka lyf. Við sem samfélag þurfum að leggjast á eitt til að gera okkur öll heilbrigðari og ekki sjá það sem eðlilegan hlut að flestir séu að taka lyf, þó að auðvitað eigi þau oft rétt á sér. Ísland getur orðið og ætti í raun að vera heilbrigðasta land í heimi. Við sáum það vel í Covid faraldrinum að þegar við viljum, þá getum við öll gengið í takt. Fólk virðist geta farið eftir fyrirmælum, þannig að það er spurning hvort ekki sé komið að tilmælum og fyrirmælum um að hreyfa sig, borða hollan mat og hugsa um svefninn. Ég er almennt ekki mikið fyrir boð og bönn, en við erum komin á stað þar sem heilsuleysi þjóðarinnar er orðið eitt stærsta vandamál samtímans. Við getum vel séð til þess að fólk fari að borða mat en ekki rusl og fólk fari að hreyfa sig meira. Við þurfum bara að finna leiðina til þess. Hvað myndi gerast ef við myndum til dæmis hafa þjóðarátak þar sem allir myndu ganga í takt í 30 daga til þess að vera besta útgáfan af sjálfu sér? Væri það ekki tilraun sem væri vert að prófa. Það er auðveldara að framkvæma hluti í hóp og þegar aðrir eru að gera sömu hluti.“

Í þættinum fara Evert og Sölvi yfir það hvað það er að vera heilbrigður, hvaða skref er hægt að taka ef fólk vill breyta um stefnu, hver eru algengustu mistökin og margt margt fleira.

Hægt er að nálgast viðtalið við Evert og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir Timothée Chalamet um hvað henni finnst í raun og veru um Kylie Jenner

Móðir Timothée Chalamet um hvað henni finnst í raun og veru um Kylie Jenner
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stærðfræðiþrautin sem gerir fólk alveg vitlaust – Þú mátt bara bæta einu striki við

Stærðfræðiþrautin sem gerir fólk alveg vitlaust – Þú mátt bara bæta einu striki við
Fókus
Fyrir 1 viku

„Shit hvað þetta er leiðinlegt lag“

„Shit hvað þetta er leiðinlegt lag“
Fókus
Fyrir 1 viku

Lætur tilætlunarsaman áhrifavald heyra það – „Ég vona að þú verður rekinn úr ræktinni“

Lætur tilætlunarsaman áhrifavald heyra það – „Ég vona að þú verður rekinn úr ræktinni“