Parið kom aðdáendum verulega á óvart á páskadag þegar leikkonan birti mynd af þeim saman. Fyrir það hafði fólk ekki hugmynd um að þau væru að stinga saman nefjum.
Billy Ray skildi við eiginkonu sína, áströlsku söngkonuna Firerose, síðasta sumar eftir sjö mánaða hjónaband.
Fyrst þegar greint var frá skilnaði þeirra í júní í fyrra kom fram að Cyrus væri dauðfeginn að losna við eiginkonuna sem hafi reynst úlfur í sauðargæru að hans sögn. Firerose sakaði söngvarann um andlegt og tilfinningalegt ofbeldi. Í upptöku sem var lekið af samtali Firerose og Billy Ray má heyra hann kalla hana öllum illum nöfnum, í annarri upptöku má heyra hann kalla dóttur sína, poppstjörnuna Miley Cyrus, hóru og djöful.
Í þættinum The Ty Bentli Show sagði Billy að tíminn eftir skilnaðinn hafi verið erfiður og að hann hafi fengið falleg skilaboð frá dularfullri konu.
„Hæ, ég veit að lífið er erfitt núna en ég vildi bara láta þig vita að ég er með þér í liði, þú ert með vin í þínu liði.“
Billy Ray vissi ekki hver hafði sent honum skilaboðin og svaraði einfaldlega: „Hver er þetta?“
Þá kom í ljós að það var Elizabeth sem hafði sent honum skilaboðin. Þau þekktust fyrir. Billy Ray, 63 ára, og Elizabeth, 59 ára, léku saman í myndinni Christmas in Paradise árið 2022.
Billy Ray sagði að leikkonunni tókst alltaf að koma honum í gott skap og að þau hafi hlegið mikið saman. En síðan misstu þau samband í tvö ár, þar til Elizabeth sendi honum skilaboðin.
Heimildarmaður Page Six segir að það séu nokkrar vikur liðnar síðan samband þeirra þróaðist og ástin byrjaði að blómstra.