fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fókus

„Ég þrái að fólkið upplifi ekki að það sé ósýnilegt, að það skynji að við virkilega sjáum það“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 19. apríl 2025 16:00

Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Sif Magnúsdóttir kom ekki illa nestuð inn í starf forstöðumanns Kaffistofu Samhjálpar. Í malnum sínum hafði hún ástríðufulla löngun til að hjálpa fólki og víðtæka reynslu af að eiga samskipti við fólk í erfiðum aðstæðum. Engu að síður segist hún hafa lært mikið á undanförnum mánuðum og enn vera að læra eitthvað nýtt.

Hvernig líst henni á starfið nú þegar hún hefur um nokkurra mánaða skeið staðið vaktina á Kaffistofunni?

„Mér líst ótrúlega vel á starfið,“ segir Linda Sif. „Þetta er ótrúlega krefjandi en mjög gefandi líka. Hjarta mitt er uppfyllt á hverjum degi vegna þess að ég fæ að taka þátt í að gera samfélagið okkar betra og vera til staðar fyrir einstaklinga sem eiga um sárt að binda. Það hefur verið mjög margt að læra og margvíslegar aðstæður komið upp sem ég hef aldrei verið í áður. Ég hef því þurft að læra nýjar aðferðir við að nálgast fólk og hef gaman af því.“

Linda Sif er í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í nýjasta blaði Samhjálpar.

„Alveg frá því ég var lítil stúlka hafði ég áhuga á fólki með fjölþættan vanda. Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að sjá fólk rísa upp og eignast heilbrigðara líf hvort sem það glímir við fíknivanda eða annars konar erfiðleika.“ Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Úrræðaleysið kom á óvart

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart, eitthvað sem þú áttir alls ekki von á að fælist í þessu starfi?

„Þegar ég byrjaði var búið að útskýra mjög vel fyrir mér allar aðstæður. Ég hafði einnig fengið virkilega góðan undirbúning. Aðstæður á Kaffistofunni eru auðvitað mjög krefjandi. Við þjónustum veikasta hóp samfélagsins. Helst kom mér á óvart hve mikil neysla er inni í húsinu en við erum að reyna að draga úr henni. Sömuleiðis kom mér svolítið í opna skjöldu hversu erfitt það er að komast áfram í velferðarkerfinu. Fólk berst oft í bökkum í langan tíma áður en það kemst á betri stað. Það eru langir biðlistar í öll úrræði og úrræðaleysi er líka töluvert fyrir fólk með fjölþættan vanda. Annars var fátt sem kom mér á óvart.“

Hver er þinn bakgrunnur? Hvaðan sprettur löngun þín til að hjálpa fólki?

„Alveg frá því ég var lítil stúlka hafði ég áhuga á fólki með fjölþættan vanda. Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að sjá fólk rísa upp og eignast heilbrigðara líf hvort sem það glímir við fíknivanda eða annars konar erfiðleika. Ég fór að læra félagsráðgjöf og er með BA-próf í því fagi. Það kom fyrst og fremst til vegna þess að mig langaði að vera hluti af kerfi sem tekur þátt í að bæta líf fólks. Ég kem úr Breiðholtinu, var alin þar upp, og maður sér alls konar fólk í því hverfi, manneskjur á mjög mismunandi stöðum í lífinu. Bæði fólk háð félagslega kerfinu og annað í mjög góðri stöðu. Auk þess er einstaklingur mjög nákominn mér sem hefur verið að glíma við fíknivanda og það hefur svolítið litað mína sögu. Haft mikil áhrif á líf mitt, bæði varðandi meðvirkni og gagnvart því að sjá og skilja hvernig kerfið vinnur ekki rétt. Undir niðri býr þó alltaf þessi von um að sjá einstaklinginn eignast heilbrigðara og betra líf.

Ég tilheyri einnig Fíladelfíu og er öldungur þar. Í því starfi hittir maður alls konar fólk og heyrir margvíslegar sögur, oft upprisusögur, þar sem fólk hefur eignast nýtt líf bæði í gegnum það að öðlast trú á Jesús Krist og að komast inn í heilbrigt samfélag. Ég hef auðvitað kynnst Samhjálp vel í gegnum kirkjuna og séð hvernig samtökin hafa reynst mörgum stoð og stytta gegnum verstu tímabil í lífi þeirra. Eins hvernig Samhjálp hefur stutt vel við samfélag okkar. Ég hef líka upplifað hvernig fólk hefur í gegnum góða stofnun eins og Hlaðgerðarkot náð heilbrigði og góðum bata.“

„Kaffistofan á ekki bara að vera staður þar sem fólk kemur saman til að hanga og við gefum þeim eingöngu mat heldur á þetta líka að vera staður þar sem gestir okkar mynda uppbyggjandi samfélag, fá gefandi samtöl og geta fengið aðgang að einhvers konar ráðgjafa, kannski félagsráðgjafa. Flestir í þessari stöðu eru raunar með sinn félagsráðgjafa en stundum er þörf á að ræða hlutina strax. Það væri gott að hafa einhvern reiðubúinn til þjónustu sem getur komið inn í þegar eitthvað vantar. Mig langar líka að efla uppbyggilega nálgun og valdeflingu inni á Kaffistofunni.“ Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Öldungar taka á sig andlega byrði

Það hljómar ofurlítið skringilega í eyru blaðamanns að heyra Lindu Sif lýsa sér sem öldungi. Hún er sannarlega ekki gömul manneskja og ber það fyllilega með sér. En þetta er starfstitill og öldungar þurfa hvorki grátt hár, hrukkur né síð skegg til að starfa.

„Já, það er satt,“ segir Linda Sif og brosir. „Þetta snýst um andlega byrði og þennan andlega hluta kirkjunnar. Við veitum ráðleggingar og siðferðilega vegvísa. Við biðjum með fólki og fyrir fólki, reynum að vera til staðar fyrir fólk og biðjum fyrir starfinu.“

En þetta er ekki eina uppspretta reynslu af krefjandi spurningum og þungbærum aðstæðum sem Linda Sif hefur. Áður en hún kom til Samhjálpar hafði hún unnið með börnum og foreldrum.

„Já, ég var að vinna á leikskóla í sjö ár og var sérkennslustjóri þar í fjögur,“ segir hún. „Ég lærði mjög mikið í því starfi, ótalmargt um mannleg samskipti og hvernig best er að nálgast fólk í erfiðri stöðu. Foreldrar fá stundum átakanlegar fréttir af greiningum barna sinna og eru misjafnlega undir þær búnir. Það gat tekið á að tala við fólk í mikilli sorg og sorgarferli er oft lengra en maður heldur. Sumir eru ekki tilbúnir að fá greiningar á börn sín og aðrir vilja ekki taka ráðleggingum varðandi uppeldi eða hvernig taka eigi á agavandamálum eða hegðunarvanda. Ég vann þess vegna með fjölbreyttum hópi foreldra og var einnig í tengslum við aðila innan kerfisins. Hafði mikið samband við barnaverndaryfirvöld, þjónustumiðstöð og ráðgjafa þar. Í gegnum það fékk ég að læra mikið um hvernig kerfið virkar en vissulega á annan hátt og í gegnum aðra ferla en í Samhjálp.“

„Ég þrái að fólkið upplifi ekki að það sé ósýnilegt, að það skynji að við virkilega sjáum það. Í stað þess að ganga skeytingarlaus fram hjá þeim séum við virkilega að gera okkar besta til að bæta líf þeirra og líðan. Ég á líka ýmsa drauma um framtíð Samhjálpar, um aukna uppbyggingu áfangaheimilanna okkar og nýtt húsnæði fyrir Kaffistofuna.“ Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Vill að fólk skynji að það sé ekki ósýnilegt

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Kaffistofunnar, áttu þér einhvern draum um hlutverk hennar á næstu árum?

„Undanfarið höfum við í Samhjálp rætt um hversu mikilvægt það sé að veita einstaklingunum uppbyggingu. Ég hef séð það mjög skýrt undanfarna mánuði að mikil þörf er fyrir það. Kaffistofan á ekki bara að vera staður þar sem fólk kemur saman til að hanga og við gefum þeim eingöngu mat heldur á þetta líka að vera staður þar sem gestir okkar mynda uppbyggjandi samfélag, fá gefandi samtöl og geta fengið aðgang að einhvers konar ráðgjafa, kannski félagsráðgjafa. Flestir í þessari stöðu eru raunar með sinn félagsráðgjafa en stundum er þörf á að ræða hlutina strax. Það væri gott að hafa einhvern reiðubúinn til þjónustu sem getur komið inn í þegar eitthvað vantar. Mig langar líka að efla uppbyggilega nálgun og valdeflingu inni á Kaffistofunni.

Ég sé það fyrir mér að Kaffistofan gæti orðið meira dagdvöl og við gætum hjálpað kerfunum að tala betur saman. Á hverjum degi koma til okkar einstaklingar í þörf fyrir þjónustu og það væri frábært ef við gætum leiðbeint þeim inn í næstu skref í stað þess að vera eingöngu biðstöð. Minn draumur er að Kaffistofan verði meiri stuðningur og mig langar að sjá fleiri virkniúrræði og meiri mannlegan kærleika. Ég þrái að fólkið upplifi ekki að það sé ósýnilegt, að það skynji að við virkilega sjáum það. Í stað þess að ganga skeytingarlaus fram hjá þeim séum við virkilega að gera okkar besta til að bæta líf þeirra og líðan. Ég á líka ýmsa drauma um framtíð Samhjálpar, um aukna uppbyggingu áfangaheimilanna okkar og nýtt húsnæði fyrir Kaffistofuna,“ segir Linda að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Daði nær óþekkjanlegur – Stutthærður með alskegg

Daði nær óþekkjanlegur – Stutthærður með alskegg
Fókus
Fyrir 4 dögum

Áfallið þegar hún komst að því að Steven Tyler væri pabbi hennar

Áfallið þegar hún komst að því að Steven Tyler væri pabbi hennar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Linda Pé öfundar ekki aðrar konur – „Ég hef oft upplifað þetta gagnvart mér“

Linda Pé öfundar ekki aðrar konur – „Ég hef oft upplifað þetta gagnvart mér“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Óttar selur í Vesturbænum

Óttar selur í Vesturbænum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Nína fór í matarbúð í Portúgal og tók eftir miklum mun – „Verðlag á Íslandi er óþarflega hátt“

Nína fór í matarbúð í Portúgal og tók eftir miklum mun – „Verðlag á Íslandi er óþarflega hátt“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Valli notaði stjórnsemi til að reyna að laga son sinn – „Endalaus óbein skilaboð um að ég elskaði hann ekki og að hann væri ekki nógu góður“

Valli notaði stjórnsemi til að reyna að laga son sinn – „Endalaus óbein skilaboð um að ég elskaði hann ekki og að hann væri ekki nógu góður“