Dimmey Rós Lúðvíksdóttir valdi hinseginleikann sem málstað til að vekja athygli á þegar hún keppti í Ungfrú Ísland í byrjun apríl. Hún þekkir það af eigin raun að verða fyrir fordómum en hún og kærasta hennar hafa þurft að þola mótlæti og áreiti vegna sambands þeirra. Dimmey er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsrásum.
Dimmey lenti í fimmta sæti í Ungfrú Ísland þann 3. apríl síðastliðinn. Hún er 25 ára, vinnur í gæludýrabúðinni Móri og er í grunnámi í Listaháskóla Íslands til að læra fatahönnun.
Í Ungfrú Ísland þarf hver keppandi að velja sér málefni til að vekja athygli á. Dimmey valdi hinseginleikan og útskýrir af hverju.
„Eftir að ég keppti síðast 2023 fékk ég mikið af spurningum varðandi hvort ég væri leyfð í keppninni út af ég væri tvíkynhneigð. Hvort að ég þyrfti að fela það, hvort það væri ekki óþægilegt fyrir hina keppendurna, sem það var náttúrulega ekki,“ segir Dimmey.
Dimmey flutti til Grikklands árið 2023 og um svipað leyti byrjuðu hún og kærasta hennar, Birta Ísabella, saman. Þannig fyrstu stundir þeirra saman sem pars voru því í Grikklandi þegar Birta kom að heimsækja Dimmeyju.
Dimmey viðurkennir að hún hafi verið smá kvíðin fyrir heimsókninni, að þeim yrði ekki tekið opnum örmum og þeim myndi mæta mótlæti ef þær myndu til dæmis haldast í hendur úti á götu. En svo var ekki raunin. Hún segir Grikkland langt komið í hinsegin málum og að það hafi verið komið fram við þær eins og hvert annað par. Annað var hins vegar uppi á teningnum þegar heim til Íslands var komið.
„Þegar ég flutti heim um sumarið tók ég eftir hvað var mikið af fordómum ennþá miðað við hvernig það var úti,“ segir hún.
„Munurinn að labba úti á götu með henni. [Á Íslandi] var alltaf verið að horfa, hvíslast og stundum var fólk bara hlæjandi að benda sem var mjög óþægilegt og ég var ekki vön þessu, þar sem ég var bara búin að vera með henni úti. Þannig að ég dró úr því og það særði hana svolítið að ég dró mig aðeins til baka að vera að leiða hana úti á götu.“
@fatherdix Smá real talk fyrir keppnisdag🤍 @missicelandorg #getreadywithme #lgbtq #realtalk #fyrirþig ♬ original sound – Dimmeyros
Dimmey segir að það sé ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að segja, sérstaklega undir áhrifum áfengis. „Sum komment eru bara ótrúlega óviðeigandi þannig maður bara snýr sér við og reynir að hugsa ekki um það.“
Hún segir að það sé erfitt að horfa upp á áreitið sem Birta þarf að þola, en hún fær að finna meira fyrir fordómum og fáfræði. Sumt stingur meira en annað.
„Þegar fólk er að spyrja hana af hverju hún er eins og hún er, að hún sé ekki búin að vera með réttum manni eða eitthvað svoleiðis, það er eitthvað sem hún hefur fengið að heyra sem lesbía síðan hún var krakki, sem er hræðilegt að þurfa að alast upp með þetta,“ segir Dimmey og bætir við: „Ég er ógeðslega stolt af henni að hlusta ekki á þetta.“
Þáttinn má horfa á í heild sinni hér að ofan eða hlusta á Spotify: