fbpx
Þriðjudagur 15.apríl 2025
Fókus

Ólafur var milli lífs og dauða – Kom heim til að deyja en fann sig í að aðstoða aðra – „Stundum hafa komið dalir“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 15. apríl 2025 12:30

Ólafur Haukur Ólafsson. Mynd: Stína Terrasaz.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Haukur Ólafsson kom heim til Íslands árið 2010 til að deyja en annað átti fyrir honum að liggja. Þess í stað öðlaðist hann nýtt líf sem snýst um að hjálpa þeim sem glíma við fíkn til bata. Hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni Elínu Örnu áfangaheimilið Draumasetrið í húsi sem var engan veginn íbúðarhæft og fyrir ótal kraftaverk tókst þeim að koma því á laggirnar og í dag reka þau tvö hús. Hann segir að í hjarta sínu brenni eldur og raunveruleg angist þegar kemur að því skapa þessum einstaklingum umhverfi sem hlúir að þeim og byggir þá upp að nýju.

Þrisvar sinnum hefur Ólafur Haukur sokkið niður á botn og jafnoft spyrnt sér upp aftur. Hver var aðdragandinn að því að þú gekkst inn í Hlaðgerðarkot nánast fullviss um að nú biði þín ekkert annað en endalokin?

„Ég er alinn upp á Seltjarnarnesi, á yndislega foreldra og fjóra bræður. Áfengi var alltaf eitthvað að klóra utan í okkur bræðurna. Mér fannst vín ekkert virka fyrir mig í byrjun en svo gerðist það einn daginn að ég drakk mig ofurölvi. Þá kviknaði eitthvað sem sagði að þetta væri einhver lausn. Frá hverju veit ég ekki, það hefur aldrei komið í ljós. Ég er lærður matreiðslumeistari og vann við það. Á þeim tíma var gríðarleg neysla í kringum veitingabransann og ég var fljótlega kominn í dagdrykkju. Steig mín fyrstu skref í meðferð árið 1981 á Vífilsstöðum. Það gekk í einhverja tvo eða þrjá mánuði.

Árið 1985 fór ég í meðferð inn á Vog og þá náði ég tæpum tíu árum edrú. En svo tók ég upp á því að fara til Svíþjóðar til að fara í Biblíuskóla, var að selja fyrirtæki á Íslandi og þurfti að fara nokkuð oft milli landanna tveggja og það endaði með að ég fór aldrei í skólann en byrjaði að drekka á leið út. Fjölskyldan ákvað að ég færi heim en ég hafði tekið að mér vinnu úti í Svíþjóð, þriggja mánaða verkefni, og fannst ég þurfa að klára það. Þeir mánuðir urðu að tíu árum, gengdarlaus drykkja allan tímann, tvö hjartastopp og alveg hræðilegur tími. Ég rak fyrirtæki úti og var alltaf undir áhrifum. Áfengi fer rosalega illa með taugaenda og ég var orðinn mjög illa farinn. Fingurnir voru farnir að festast og ég allur að stirðna. Á hverju kvöldi grét ég og bað Guð að hjálpa mér að komast heim en ég tók aldrei skrefið að panta miðann.

Að lokum var að það góður vinur minn sem ég hafði kynnst í kristilegu starfi hér heima á Íslandi sem kom í heimsókn til mín. Hann var fallinn sjálfur á þeim tíma en sá hvað var að gerast. Hann sagði bara: „Nú förum við heim, Óli. Þú verður ekki hér.“ Ég var bara að deyja og gat ekki opnað hurð, var allur skakkur og skældur. Í raun var ég alveg sáttur við að þetta væri búið og kom heim til deyja.“

Ólafur Haukur er í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í nýjasta blaði Samhjálpar.

„Ég hef alltaf haft meðlíðan með þeim sem eru úti að þjást, fólk sem á sér ekkert bakland í samfélaginu og er jaðarsett bæði af yfirvöldum og öðrum.“
Mynd: Stína Terrasaz.

Dansaði á línunni milli lífs og dauða

Ólafur Haukur var með sænska kennitölu og dottinn út úr íslenska sjúkratryggingakerfinu eftir að hafa búið utanlands þetta lengi. Það stóðu því engar dyr opnar fyrir honum þegar hingað var komið.

„Fyrrverandi eiginkona mín og barnsmóðir hjálpaði mér mjög mikið. Ég reyndi að komast inn á Vog og fleiri staði en svo var það forstöðufólk hér í Samhjálp, sem hafði starfað með mér á sínum tíma, sem sá að ég var farinn að dansa á línunni milli lífs og dauða. Guðrún yndislega Einarsdóttir forstöðukona Hlaðgerðarkots tók við mér þótt ég væri í raun Svíi, ákvað að taka bara á því síðar ásamt Heiðari, þáverandi framkvæmdarstjóra Samhjálpar. Það varð mín lífsbjörg. Ég lenti í flogi og var alveg við hjartastopp 21. febrúar 2010, svo dvaldi ég þar á þriðja mánuð. Ég man að þegar ég vaknaði eftir þrjá daga, fann ég að Guð var ekki búinn að gefast upp á mér. Hann sagði það meira að segja. Síðan þá hef ég öðlast mikla og sterka trú. Hann hefur verið með í öllu sem hann ætlaði sér með mig upp frá því þótt ég vissi ekki á þeim tíma hvað það væri.

Hann gerði algjört kraftaverk og gaf mér fulla starfsorku. Ég var í raun orðinn öryrki og það átti að setja mig á bætur þegar ég var í Hlaðgerðarkoti. Ég vildi ekki trúa að það væri það sem biði mín og beið því með að skrifa undir pappírana. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að þannig fór. Ég hef nóg þrek og Guð læknaði taugaendana. Þetta eru auðvitað skemmdir sem ekki ganga alveg til baka en ég hef fullkomna heilsu þrátt fyrir það. Ef ég ofgeri mér fer ég að finna fyrir því í fingrunum svo það er ágætis viðvörunarkerfi í mínu lífi.“

Þráði að hjálpa heimilislausu fólki

Eftir að Ólafur Haukur útskrifaðist frá Hlaðgerðarkoti fór hann að vinna sem kokkur á BSÍ og þar kviknaði hugsýn sem ekki átti eftir að láta hann í friði fyrr en honum hafði tekist að gera hana að veruleika.

„Á BSÍ kom margt heimilislaust fólk um hver mánaðamót að fá sér kótilettur í raspi,“ segir hann. „Þá áttu þau peninga. Ég hef alltaf haft meðlíðan með þeim sem eru úti að þjást, fólk sem á sér ekkert bakland í samfélaginu og er jaðarsett bæði af yfirvöldum og öðrum. Ég leigði þess vegna húsnæði ásamt vini mínum og við vorum komnir með fjóra til fimm einstaklinga þar inn og þar fékk fólk að búa meðan það var að ná sér og reyna að verða edrú. Þá strax sá maður að eitthvað varð að gera. Á þessum tíma voru skráðir um sex hundruð manns á götunni á Íslandi og í raun var talan hærri. Það voru margir sem voru með lögheimili einhvers staðar en var samt götunnar fólk. En þarna urðu aðstæður þeirra mér mikið hjartans mál.

Ég var í miklu kirkjulegu starfi á þessum tíma og þar kynntist ég Elínu Örnu Arnardóttur Hannam. Hún er konan mín í dag og áfengis- og vímuefnaráðgjafi að mennt. Hún deildi með mér þessari hugsjón að vilja hjálpa og grípa inn í aðstæður þeirra sem glíma við fíkn. Við stofnuðum Draumasetrið árið 2012 fyrst og fremst fyrir þá sem áttu enga að, annaðhvort búnir að missa allt eða brenna allar brýr að baki sér. Við vildum hjálpa því fólki fyrst og fremst.“

Fór í pöntunartröppuna og bað

Draumasetrið er áfangaheimili og saga þess og uppbygging er ævintýri líkust og nafnið þess vegna réttnefni.

„Áfangaheimili er ekki leigumiðlun,“ segir Ólafur Haukur, „heldur úrræði til hjálpar fólki til að halda áfram og vinna í sínu lífi. Einhverju sinni vorum við að ræða saman í síma ég og Elín um það hvað við gætum gert til að aðstoða. Ég var búinn að finna hús sem ég taldi að hentaði. Pabbi hennar heyrði á spjall okkar og kallar til hennar: „Á ég ekki að hjálpa ykkur að fá þetta hús?“ Og það varð úr. Þann 6. desember 2012 gengum við inn í Draumasetrið, gersamlega í rúst. Skömmu áður hafði sérsveitin farið þarna inn og hreinsað út hústökufólk en mikil neysla hafði farið þarna fram. Hiti og rafmagn höfðu ekki verið á húsinu í fleiri mánuði. Þrjár tröppur liggja niður að aðaldyrunum og ég man að ég stóð í miðtröppunni þennan dag, horfði á húsið allt í niðurníðslu og hugsaði; hvað ertu nú búinn að gera? Og ég heyrði bara þegar Guð svaraði að ég væri ekki að fara að gera neitt. Hann ætlaði að gera allt. Ég kallaði miðtröppuna upp frá því pöntunartröppuna því þar stóð ég alltaf þegar eitthvað vantaði og bað.

Síðan er það bara kraftaverkasaga hvernig þetta fór af stað. Við byrjuðum á að taka til á fyrstu hæðinni, um leið og eitt herbergi var tilbúið var flutt inn í það og þannig gekk það koll af kolli. Í dag eru fjörutíu og tvö herbergi í þessu húsi með kaffistofu og öllu. Eitt sinn fór ég niður í pöntunartröppuna og sagði: „Jæja, Guð, nú vantar milliveggi, einangrunarull og gólfefni, vaska og sturtur.“ Sama dag hringdi í mig ung stúlka og spurði hvort hún geti fengið pláss hjá okkur. Ég svaraði að það gæti verið að við værum með laust herbergi eftir hádegi. Þá sagði hún að pabbi hennar og mamma treystu henni ekki og þau vildu fá að sjá aðstæður þar sem hún flytti inn. Ég sagði henni að koma með þau og eftir hádegi komu þau. Það var allt í rúst á efri hæðunum en fyrsta hæðin var að verða klár. Þau fóru með mér um allt og skoðuðu og ég skýrði fyrir þeim áætlanir. Við útihurðina sögðu þau: „Við finnum að þetta er staður sem stelpan okkar á að vera á. Það er magnað að sjá hvað þið eruð að gera hérna án þess að hafa nokkurn stuðning til þess.“ Faðirinn fór svo ofan í vasa sinn, rétti mér nafnspjald og sagði: „Ef þig vantar eitthvað, eins og vaska, sturtu, gólfefni eða annað, sendu mér þá tölvupóst og ég gef ykkkur það.“ Þetta var þá maður sem átti stóra byggingavöruverslun og þær eru margar fleiri svona sögur.“

„Við höfum séð alveg stórkostlega hluti gerast og eigum í einstöku sambandi við fólk sem hefur verið hjá okkur og fjölskyldur þeirra.“
Mynd: Stína Terrasaz.

Skiptir sköpun að lengja meðferð

Draumasetrið hefur aldrei fengið styrki frá hinu opinbera þessi tólf ár sem það hefur starfað fyrr en nýverið að þau fengi styrk til að halda námskeið.

„Við höfum verið með yfir 300.000 gistinætur á þessum tíma. Þau sem eru að koma úr meðferð geta fengið inni hjá okkur og einnig þau sem hafa farið í þrjátíu meðferðir og ekkert virðist ætla að ganga en eru edrú. Við hjálpum þeim að taka næstu skref. Við höfum séð alveg stórkostlega hluti gerast og eigum í einstöku sambandi við fólk sem hefur verið hjá okkur og fjölskyldur þeirra. Um síðustu áramót voru 62% af þeim sem voru í húsunum búnir að vera edrú í ár eða meira. Það er stórkostlegur árangur. Á Íslandi er ekki boðlegur árangur út úr meðferðum, eina ljósið í myrkrinu er Hlaðgerðarkot sem breytti sinni meðferð og lengdi hana. Ég vil meina að hvergi á Íslandi sé betri meðferð en þar. Maður tekur við gerbreyttum einstaklingum þaðan og það segir manni að það sem þurfi sé þessi lenging á meðferðartímanum.

Maður verður hálfsorgmæddur þegar fólkið úr Kotinu fer úr húsunum því maður vill ekki missa það. Þau bera með sér svo mikið og gott pepp til hinna sem eru að koma ný. Neyslan í dag er orðin svo alvarleg. Hún er miklu verri í dag en hún var fyrir tveimur árum, að ég tali nú ekki um fyrir tólf árum. Fíknefnaheimurinn er ljótur og það eru til lyf sem fólk tekur sem valda því að það endar í geðrofi. Sumir eru fastir inni  í geðrofi og þurfa ekki einu sinni að vera í neyslu til þess. Þetta er orðin mun meiri vinna en var og það þarf að vera mjög vakandi yfir heimilunum í dag en var. Ég gæti trúað að níutíu af hverjum hundrað sem fara í meðferð í dag séu byrjaðir í einhvers konar neyslu aftur innan tveggja ára. Ef einhver getur sýnt mér aðrar tölur skal ég feginn skoða þær. Margir þurfa að glíma við gríðarleg áföll. Við störfum mikið með Teen Challenge sem eru stærstu meðferðarsamtök í heimi. Þar eru sjötíu og fimm af hverjum hundrað edrú eftir tvö ár. Þar er veitt ársmeðferð en hana vantar á Íslandi, sérstaklega fyrir þau sem eru illa farin.“

Trúin aðlögun en ekki áróður

Ólafur Haukur tekur fram að Krýsuvík veiti einnig langtímameðferð og það sé vel en betur megi ef duga skal.

„Í sporunum er talað um að trúa að æðri kraftur og máttur okkar eigin vilja geti gert okkur heilbrigð að nýju og ég vil meina að þetta sé grundvallaratriði í edrúgöngunni fyrir utan uppgjöfina sem felst í fyrsta sporinu. En við verðum að vinna rétt úr því. Við megum ekki taka stjórnina, í fyrsta sporinu segir að við viðurkennum vanmátt okkar gagnvart áfengi og okkur sé um megn að stjórna eigin lífi, það er uppgjöfin. En svo förum við að trúa að það sé til eitthvað æðra en við sem getur hjálpað okkur. Trúin er aðlögun en ekki áróður. Ég tel að það sé rangt að troða trú upp á fólk. Það er aðlögunarþáttur og þetta kemur ekki alltaf einn, tveir og þrír. Ég er með starf sem heitir United Reykjavík, hef verið með það á mánudögum frá 2011. Það höfðu ekki allir trú á því í byrjun en þangað koma frá hundrað fimmtíu til tvö hundrð og fimmtíu manns í hvert skipti til að sækja sér hjálp, samveru og vináttu. Það er gríðarlegur fjöldi fólks sem hefur farið þar í gegn og við þráum að sjá það fólk taka næstu skref.

Það er rosalegur hraði í þjóðfélaginu og við erum alltaf að reyna fixa eitthvað. Þótt maður sé alkóhólisti og búinn að berjast við eiturlyfjafíknina, erum við samt sköpuð í Kristi og það er mikilvægt að vera innan tólf spora samtaka. Þar er stærsti akur sem til er og það er gríðarlega margt fólk sem þarfnast hjálpar. Við þurfum að vera til staðar fyrir þetta fólk og ég trúi ekki á að troða trú upp á það en við getum verið gangandi vitnisburður um hver Guð er í lífi okkar, sýnt fólki kærleika og vináttu, reist það upp og hjálpað því ganga þessi fyrstu skref. Ég hélt að líf mitt væri búið 20. febrúar 2010 en í ljós kom að þá hófst nýtt líf sem ég hef alltaf litið á sem óslitna sigurför. Ég er sannfærður um að það er allt í boði fyrir okkur ef við leggjum okkur öll í það.“

Viljinn til að hjálpa fæðist í hjartanu

Ólafur Haukur segir að hann hafi verið trúaður og starfað í kristilegu starfi áður en hann upplifði þá uppgjöf sem hann fann uppi í Hlaðgerðarkoti þá.

„Eitthvað varð þess valdandi að ég fór í neysluna aftur,“ segir hann. „Ég held að grunnurinn að því hafi verið að ég þekkti ekki Guð eins og ég þurfti að þekkja hann. Það er varnagli fyrir líf mitt núna. Ég reyni þess vegna að vera til staðar fyrir fólk í dag, og við Elín bæði, þótt það geti verið ótrúlega erfitt stundum. Sérstaklega að vera hunsaður af yfirvöldum ár eftir ár eftir ár. En stundum er líka betra að vera bara laus því enginn getur þjónað tveimur herrum og geta rekið þetta á því hjarta sem Guð setti í okkur í byrjun. Við bjuggum í Draumasetrinu fyrstu fjögur árin og unnum launalaust í þrjú ár. Ég vann sem kokkur og hún á næturvöktum á heimili fyrir fatlaða. Við lögðum allt í þetta því þetta var okkur svo mikið hjartans mál. En Guð hefur alltaf blessað reksturinn. Hver mánaðamót þarf að láta enda ná saman og þá er gott að hafa traust á þeim sem leiðir okkur áfram, höfundi trúarinnar, Jesú Kristi. Stundum hafa komið dalir en hann hefur alltaf leitt okkur út þeim.

Í Hebrabréfinu 11. kafla stendur að menn verði að trúa án þess að efast. Það er svo gott að vera á þeim stað. Ég þarf ekki að sjá til að trúa. Það er svo gott, sérstaklega fyrir okkur sem erum að berjast við fíkn, að geta bara treyst og vera ekki alltaf að grípa inn í og fara okkar eigin leiðir. Þetta er eins og stilla GPS-inn á einhvern punkt en vera svo alltaf að beygja af leið einhverja slóð sem þú heldur að sé betri. Það er best að treysta bara á hann og þurfa enga króka til að komast upp á veginn aftur. En við erum að berjast við þessa fíkn vegna þess að við höfum ekki stjórnina. Stærsti og mesti þyngdarpunkturinn í að ná árangri er að eiga samfélag við aðra. Það stendur í AA-bókinni að bati sé undir einingunni kominn og einingin felst í því að við höldum utan um hvert annað og elskum fólk til lífs. Það er það sem við Elín höfum reynt að gera. Ef það er ekki fætt í hjarta þínu að hjálpa þessu fólki þá verður þú að hætta.“

Í dag reka þau tvö áfangaheimili með sextíu og sjö herbergjum og hafa þurft að takast á við margskonar erfiðleika og áföll.

„Mikið ofbeldi er komið inn í þetta núorðið og ég hef oft orðið fyrir því og starfsmenn hafa verið stórslasaðir. Margir bera vopn og þú getur horfst í augu við að einstaklingur ráðist á þig í geðrofi en þremur mánuðum síðar kemur þessi sami aðili til þín og biður um hjálp. Þá reynir á hver þú ert og til hvers þú ert í þessu. Það er ekki einstaklingurinn sem gerir þetta heldur sjúkdómurinn. Þá er svo mikilvægt að geta tekið utan um einstaklinginn og geymt hann í hálsakotinu og sagt: „Þetta verður í lagi, við tökum á þessu saman.“ Þú verður að hafa þessa angist í hjartanu sem er djúpur sársauki og meðlíðan gagnvart þeim sem eru enn úti að þjást. Þess vegna höfum við Elín Arna alltaf haldið áfram,“ segir hann að lokum.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kornið sem fyllti mælinn hjá Garðari: Hvatti fólk til að taka smálán og yfirdrátt – Sjáðu myndbandið

Kornið sem fyllti mælinn hjá Garðari: Hvatti fólk til að taka smálán og yfirdrátt – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Garðar segir að hjartaáfallið árið 2019 hafi ekki dugað til en síðan small eitthvað – „Ástæðan af hverju ég er í bata í dag er þrennt“

Garðar segir að hjartaáfallið árið 2019 hafi ekki dugað til en síðan small eitthvað – „Ástæðan af hverju ég er í bata í dag er þrennt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye bað Jay-Z afsökunar – Spurði síðan mjög óviðeigandi spurningar um Beyoncé

Kanye bað Jay-Z afsökunar – Spurði síðan mjög óviðeigandi spurningar um Beyoncé
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þekktur leikari greindur með alvarlegan sjúkdóm

Þekktur leikari greindur með alvarlegan sjúkdóm
Fókus
Fyrir 5 dögum

Söngvarinn hefur misst meira en 80 kíló – Sjáðu hann í dag

Söngvarinn hefur misst meira en 80 kíló – Sjáðu hann í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

Garðar birtir skjáskot af frægum Íslendingum auglýsa hættulegan leik – „Hræsnarar. Punktur“

Garðar birtir skjáskot af frægum Íslendingum auglýsa hættulegan leik – „Hræsnarar. Punktur“