Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.
Hún skrifar færslu á Facebook um vini og hverjir verðskulda þann sess í þínu lífi.
„Félagsleg tengsl geta nært okkur, en líka keyrt taugakerfið lóðrétt upp í himinhvolfið,“ segir hún.
„Stundum þarf að gera vorhreingerningu í félagsnetinu og skrúbba út fólk sem lætur kvíða og streitu grassera í taugakerfinu fyrir og eftir samneyti við þau.“
Hún tekur nokkur dæmi, eins og fólk sem við þurfum að setja upp grímu og getum ekki verið við sjálf. Fólk sem hefur aldrei samband að fyrra bragði, nema það vantar eitthvað frá okkur.
„Fólk sem er á sjálfshátíð þegar þið hittist. Gubbar yfir þig öllu sem þau hafa gert, séð, sagt. En ekki ein spurning um þína hagi. Fólk sem hlustar ekki. Fólk sem mergsýgur batteríið okkar,“ segir hún.
Eflaust tengja einhverjir við lýsingar Ragnhildar. Hún nefnir fleiri dæmi.
Eins og fólk sem reiðist þegar þú setur mörk. „Beita klækjabrögðum, þríhyrningum, samviskubitsvæðingu, fýlustjórnun. Fólk sem þvingar þig til að gera sér greiða með því að planta samviskubiti og sektarkennd gegnum tilfinningalegt ofbeldi.“
Færslan hefur slegið í gegn hjá netverjum og yfir 500 manns líkað við hana.