„Það er svo skrýtið – í svona miklum veikindum – þá er engin tilfinning sterkari en þakklæti. Ég er svo fegin vegna þess að þakklæti er æðst allra dyggða. Það er það sem manni er gefið í gegnum veikindi. Það er þakklæti fyrir allt það minnsta. Maður sér oft ekki aðalatriði lífsins. Maður er oft á tíðum frekar í því sem hindrar. Maður getur bæði grátið af gleði og sorg. Núna ef ég græt, er ég að gráta af þakklæti,“
segir Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Vídalínskirkju. Jóna Hrönn greindist með sjaldgæft krabbamein síðasta haust og gengst nú undir meðferð á háskólasjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð.
Bolli Már Bjarnason, sonur Jónu Hrannar og þáttastjórnandi Ísland vaknar á K100 hringdi í móður sína í beinni útsendingu fyrr í vikunni.
Jóna Hrönn segir frá því að hún hafi verið kvíðin fyrir viðtalinu og hvað hún ætti að segja. Sjúkraliði að nafni Helena hefði þá sagt við hana:
„Jóna, þú átt að vekja hugrekki hjá fólki. Þú ert hérna núna – og fleiri eiga eftir að koma.“
Helena er íslensk, en flutti til Svíþjóðar sjö ára gömul. Jóna Hrönn segir lækna frá Grikklandi, Serbíu, Íslandi, Ítalíu og Svíþjóð, ásamt sjúkraliðum og hjúkrunarfólki skapa einstakt umhverfi. Jóna Hrönn hefur nú yfirgefið legudeildina og er komin á dagdeild í Lundi, þar sem starfa meðal annars tveir íslenskir læknar.
Jóna Hrönn segir frá því að þegar hún lagðist fyrst inn á sjúkrahúsið hafi yfirlæknir tekið á móti henni og farið yfir mögulegar áskoranir í meðferðinni. Þegar hann kvaddi Jónu Hrönn benti hann á sjúkrahúsrúmið og sagði: „Þetta er versti óvinur þinn.“ Jóna Hrönn segir þessi orð hafa fest sig í minni hennar, að hreyfa sig, að taka þátt í eigin bata, það væri lykillinn, sama hvernig manni liði.
Jóna Hrönn lýsir ógleymanlegu atviki sem hafði djúp áhrif á hana, þegar hún lenti í krefjandi aðgerð við skipti á lyfjabrunni og missti mikið blóð. „Þá var þetta alveg klukkutími í að stöðva blæðingu og sjá til að hægt væri að stinga aftur í brunninn. Þetta átti bara að taka tíu mínútur. Ég fór bara með æðruleysisbænina alveg ofsalega oft og reyndi að vera þjóð minni til sóma. Þegar það er verið að stinga mig, með alls konar nálum, þá verð ég átta ára. Það er rosalega skrítið,“ segir hún hlæjandi.
Þremur dögum síðar þurfti svo að skipta aftur um nálar. Þá kom kona inn á stofuna, jafnaldri Jónu, með hvíta slæðu. Jóna áttaði sig á því að þær tilheyrðu ekki sömu menningu né trú, en konan var röggsöm, fagleg og hlý. Þegar aðgerðin tókst án vandræða fylltist Jóna létti og gat ekki haldið aftur af tárunum.
„Ég náttúrulega fyllist svo miklu þakklæti að þegar hún er búin að setja brunninn í, þá ligg ég alveg flóandi í tárum. Ég var bara eins og lítill gosbrunnur,“ lýsti Jóna Hrönn. Konan tók utan um axlir hennar, horfði í augun á henni þar sem hún lá í rúminu og sagði: „Don’t be afraid. Trust in God.“
„Og ekki „Your God“ eða „My God“. Heldur bara: „Treystu á Guð“. Við þurftum ekki að skilgreina þennan Guð.“ lýsti Jóna sem bætti við að konan hefði þá deilt eigin reynslu: Hún hafði þá sjálf þurft að vera með lyfjabrunn í baráttu við krabbamein – en að þá hafi hún sagt börnunum sínum að treysta Guði. Þetta var móment sem ég mun aldrei gleyma.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.