Garðar birti myndband á TikTok fyrir stuttu þar sem hann ræddi um spilafíkn og vandanum sem blasir við okkur í dag þegar áhrifavaldar, rapparar og önnur þekkt andlit eru fengin til að auglýsa fjárhættu- og veðmálafyrirtæki og virðist markhópurinn aðallega vera ungir karlmenn. Garðar segist vita til þess að drengir í níunda og tíunda bekk í grunnskóla séu að veðja í stærðfræðitímum.
Hreinskilið og hispurslaust myndband Garðars vakti mikla athygli og er hann mættur í Fókus, viðtalsþátt DV, til að ræða um eigin reynslu af sjúkdómnum, baráttunni og batanum. Hann brennur fyrir að vekja athygli á málefninu en hann óttast um heilsu og líðan þeirra sem er verið að soga í þennan heim með fölskum loforðum um peninga og skemmtun. Hann segir þetta grafalvarlegt og hættulegt, en hann þekkir það vel. Hann hefur sjálfur komist nálægt því að svipta sig lífi og hefur misst vin vegna sjúkdómsins.
Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Það muna margir eftir Garðari sem rapparanum og snapparanum Kíló. Undanfarin fjögur ár hefur hann látið fara lítið fyrir sér en þegar hann sá enn annað myndband frá tónlistarmanni, með stóran fylgjendahóp með aðallega ungmennum, þar sem veðbankafyrirtæki var auglýst eins og þetta væri toppurinn á tilverunni, þá gat hann ekki orða bundist og varð að gera eitthvað.
Garðar er spilafíkill í bata. Hann hefur einnig glímt við matarfíkn, eiturlyfja- og áfengisfíkn og klámfíkn, en spilafíknin kostaði hann mest. Ekki bara fjárhagslega heldur andlega.
„Fólk skilur ekki hvað fíkillinn fórnar miklu. Þú fórnar sjálfsvirðingunni þinni, sjálfshatrið og eyðileggingarhvötin fer á hæsta stig. Ég lýsi þessu eins og að vera í þoku og það eina sem þú getur hugsað um er að redda þér meiri pening. Og ég og fleiri spilafíklar höfum aldrei lagt okkur svo lágt, það er engin sjálfsvirðing, þangað til þú vaknar upp úr þessari þoku þegar þú ert orðinn pínu edrú eftir á, og þú ert bara svona: „Vó, hvað var ég að gera?“ Og þá rignir inn skömmin. Þess vegna er þetta svona hættulegt, maður fer strax í sjálfsmorðshugleiðingar,“ segir hann.
Garðar segir að hann hafi fengið að heyra ótal sögur frá bæði eldra og yngra fólki sem hefur misst ástvini vegna sjúkdómsins. „Þetta er miklu alvarlegra en fólk gerir sér grein fyrir.“
Markhópurinn hjá þessum fyrirtækjum virðist vera ungmenni, sér í lagi ungir karlmenn og strákar, þar af leiðandi hafa margir, sem ekki falla undir þennan hóp, ekki hugmynd um auglýsingarnar og hversu kræfar þær geta verið. Auglýsingarnar birtast ekki á Facebook-veggnum þínum, en kannski á Instagram eða TikTok hjá barninu þínu. Eins og var sýnt í bresku þáttunum Adolescence á Netflix, þá hafa foreldrar og annað fullorðið fólk oft ekki hugmynd um heiminn sem ungmenni þrífast í á netinu. Við báðum Garðar um að útskýra hvernig svona auglýsingar virka.
„Það er verið að gera þetta eins og þetta sé kúl, fá einhverja tónlistarmenn í flottum bílum með flotta skartgripi, hvað það er kúl að vera að veðja í tölvunni sinni,“ segir hann.
Það er ólöglegt að auglýsa netspilavíti en það eru fundnar ýmsar krókaleiðir til þess, eins og gjafaleikir þar sem verðlaunin eru inneign á slíkri síðu. Sumir klæðast fatnaði með nafni netspilavítsins og svo framvegis.
„Þetta eru frægir menn að peppa þetta og mikið af þessu AA-menn, fólk sem peppar edrúmennsku, kærleik og auðmýkt, síðan er það að peppa andlega veiki, spilafíkn. Hræsnarar. Punktur. Það er ekki hægt að rökræða neitt við mig um ástæðu þess sem þú gerir þetta. Ef þú ert AA-maður og stundar þetta, þá ertu hræsnari.“
Garðar segir þetta ekki aðeins auglýsingar heldur séu sumir að streyma á Twitch og leyfa áhorfendum að horfa á sig veðja á þessum fjárhættuspilasíðum. „Hvað er fullorðinn maður að gera að veðja á netinu á meðan krakkar [horfa á]? Þetta meikar engan sens að mínu mati.“
Garðar segist vita til þess að grunnskólabörn séu að stunda þetta. „Ég hef fengið skilaboð um að krakkar í níunda og tíundabekk eru að veðja í stærðfræðitímum,“ segir Garðar.
„Ég hef rætt við foreldra frá Akranesi, ungmenna og íþróttafélagið var með einhverja gjafaleiki og ein verðlaunin voru 100 evrur á Coolbet, og það var tilkynnt en síðan tekið niður.“
Garðar segir þetta aðeins tvær sögur af mörgum og hvetur hann fólk til að lesa fleiri reynslusögur og kynna sér þetta betur á Instagram-síðu hans, Kilokefcity. Hann birti þær allar í Highlights – undir Spilafíkn 2.
Talið berst aftur að Adolescence, þegar faðir drengsins segir: „Ég hélt að sonur minn væri öruggur inni í herbergi.“
„Það er ekki staðreynd í dag með símana og tölvurnar. Hann er kannski inni í herbergi bara að gambla frá sér vitinu, fá lán og annað. Ég er búinn að fá fullt af skilaboðum frá unglingum sem voru að gera þetta, eru enn í þessu eða að koma sér upp úr þessu,“ segir Garðar.
„Aðalmarkmiðið mitt er ekki að shame-a þetta lið. Ég skil að við erum öll mannleg, ég þekki það vel sjálfur. Ég vil bara að fólk taki ábyrgð. Opni augun og geri eitthvað í þessu. Jafnvel þótt þið voruð að peppa þessar síður eða eruð, the damage is done,“ segir hann og bætir við: „Ég vil að fólk taki þessu alvarlega, þetta er ekki djók.“
Að lokum segir Garðar: „Við erum alltaf að tala um að vernda börnin, jæja, nú er tíminn til að vernda börnin.“