Hún segir að það sé engin furða að depurð og kvíði farið stígvaxandi með hverju ári. „Gegndarlaus samanburður við tvívíðar verur á skjánum veldur kvíða, depurð og mylur sjálfstraustið mélinu smærra,“ segir hún.
Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.
Ragnhildur birti sjálfsmynd og deildi spurningu sem hún fékk frá barni.
„„Af hverju ertu með svona rautt nef?“ Spurði barnið sem enn á eftir tvo áratugi í fullþroskaðan framheila og enginn filter á sannleikanum sem rennur frá raddböndunum.
Nef Naglans er eins og á Gísla Súrssyni í útlegð á hálendinu. Rauðfjólublátt sem nær djúpum purpuralit á köldum vetrardögum. Svæðið milli nefs og munns og hökugreyið líka fengið sinn skerf af sprengdum æðum.
Kinnarnar eins og landakort af æðum eins og á vel lífsreyndum bónda sem hefur marga fjöruna sopið í veðráttu Íslands.“
Ragnhildur segir að niðurstaða húðlækna sé að háræðar hennar liggja þétt upp að húðinni, að þetta sé ekki rósroði.
Ragnhildur segir að glansmyndir samfélagsmiðla blekkja.
„Við eyðum enn meiri tíma en áður með smettið borað ofan í snjallsímann á Insta og TikTok, og við blasir fullkomnun mannskepnunnar sveipuð feistjúni, filterum og fótósjoppi,“ segir hún og bætir við að þetta verði til þess að fólk líði eins og það sé ekki nóg.
„Gegndarlaus samanburður við tvívíðar verur á skjánum veldur kvíða, depurð og mylur sjálfstraustið mélinu smærra. Það þarf engan að undra hvers vegna kvíði og depurð stígur ár frá ári, sérstaklega hjá ungum stúlkum, þegar samanburður á þrotuðum þriðjudegi er við ondúleraðan og vatnsgreiddan sýndarveruleika.“
Ragnhildur segir að það sem samfélagsmiðlar „sýna okkur ekki eru hrukkur, undirhöku, línur, sigin augnlok, veðurbarðar kinnar, rauð nef, bólur, þreytuleg andlit.“
„Þessi mynd af Naglanum er dæmi um konu eins og hún kemur af kúnni,“ segir hún um myndina sem hún birti með færslunni.
„Tekin í morgunsárið og ekki snefill af farða sem annars er smurður þykku lagi til að fela allar misfellur, rauðku og hrukkur. Augnblýantur á augu og maskari til að fá Disney augu.“
Ragnhildur bendir á að við eigum það til að fara hratt í gegnum efni samfélagsmiðla og stöldrum því ekki oft nógu lengi við til að sjá í gegnum fótósjoppið og filterana. Því sé gott að sjá náttúruleg andlit, sem er ekki búið að farða eða breyta með fegurðaraðgerðum eða filterum.
„Konur eldast eins og restin af mannkyninu… það er lögmál lífsins. Andlitið segir sögu hvers og eins. Hver hrukka er merki um bros, hlátur, grátur og áhyggjur. Elliblettir eru reynslublettir. Slitför eftir meðgöngu eru ummerki um fallegustu reynslu mannsins.“
Lestu allan pistil Ragnhildar hér að neðan.