Hljómsveitin Dimma fagnar tíu ára afmæli sinnar vinsælustu plötu, Vélráð, með endurhljóðblöndun, afmælisútgáfu á geisladisk og tónleikum í Iðnó þar sem hún verður leikin í heild sinni. Platan markaði vatnaskil í sögu hljómsveitarinnar.
„Það var platan sem gerði Dimmu að því sem hún hefur verið. Ég get sagt það án þess að vera feiminn að við urðum vinsælasta rokkhljómsveit landsins út frá því,“ segir Ingó Geirdal, gítarleikari Dimmu í viðtali við DV í tilefni af þessari afmælisútgáfu.
Vélráð var fjórða plata Dimmu. Fyrstu tvær plöturnar voru sungnar á ensku með upprunalegri liðskipan. Það er bræðurnir Ingó og Silli, sem spilar á bassa, sem og söngvarinn Hjalti Ómar Ágústsson og trymbillinn Bjarki Magnússon. Þriðja platan Myrkraverk var allt öðruvísi, bæði sungin á íslensku og í stað þeirra tveggja síðarnefndu voru gengnir til liðs við sveitina Stefán Jakobsson og Birgir Jónsson, sem sagt núverandi liðskipan.
Myrkraverk kom út árið 2011 og útgáfutónleikarnir voru haldnir í Hörpu. En það var í fyrsta skipti sem þungarokkssveit lék þar.
„Við fundum fyrir miklum meðbyr og ákváðum að hamra járnið á meðan það var heitt,“ segir Ingó.
Vélráð var unnin mjög hratt og tekin upp við frekar frumstæðar aðstæður. Í upphafi árs 2014 var haldið að stað í leiðangurinn.
„Í lok janúar ákváðum við að gefa út plötu um sumarið og bókuðum Hörpu 12. júní til að setja pressu á okkur,“ segir Ingó. „En þá vorum við ekki búnir að semja lögin.“
Sum lögin voru samin á staðnum í upptökuverinu. Þekktasta lagið af plötunni, Ljósbrá, hafði Ingó hins vegar gengið með í maganum í tuttugu ár.
„Ég samdi grunninn að Ljósbrá árið 1994 og fyrir hverja plötu var þetta skoðað. En af einhverjum ástæðum þá var aldrei rétti tíminn fyrr en þá,“ segir Ingó.
Dimma var ekki með útgefenda heldur framleiddu þeir plötuna sjálfir í litlu stúdíói sem Silli átti og hann var helsti upptökustjórinn í ferlinu. Hljóðið og herbergið reyndist hins vegar erfitt til upptöku en útkoman var góð og platan sló í gegn. Ljósbrá varð þeirra vinsælasta lag og lög á borð við Ég brenn og Vélráð eru enn þá spiluð á hverjum einustu tónleikum.
En með tímanum fannst þeim bræðrum Vélráð ekki hljóma eins og hún ætti að gera. Einkum vegna þess að þetta er stærsta plata Dimmu.
„Þetta er okkar vinsælasta plata og ansi vel heppnuð. Það eru svo flottar útsetningar á henni. Okkur hefur fundist sem að hljómurinn hafi ekki náð að skila því öllu,“ segir Ingó.
Myrkraverk var endurhljóðblönduð á tíu ára afmæli hennar og tókst það svo vel upp að ákveðið var að endurtaka leikinn í þetta skiptið. Að sögn Ingó munar talsverðu um hljóminn.
Endurhljóðblandaða útgáfan af Vélráð er nú komin inn á streymisveitur. En einnig kemur út sérstök afmælisútgáfa í takmörkuðu upplagi á geisladisk í vikunni.
Þá hefur verið blásið til afmælistónleika í Iðnó 12. apríl næstkomandi. Í fyrri hluta tónleikanna verður Vélráð spiluð í heild sinni og í seinni hlutanum verður spiluð blanda af vinsælustu lögum Dimmu af ferlinum sem og nokkur lög sem sveitin hefur sáralítið spilað í mörg ár.
„Þetta verður show að hætti Dimmu. Við erum búnir að ráða topp tæknifólk bæði hvað varðar hjóð og ljós. Að koma á Dimmu tónleika, það eru engin rólegheit. Það verður allt gefið í þetta,“ segir Ingó að lokum.
Miðasala fer fram á tix.is.