Áslaug ræðir um málið í grein í Morgunblaðinu í dag.
„Það er flókin staða að vera kona með fíknisjúkdóm, einkum og sér í lagi sé hún líka móðir. Fordómar gagnvart þeim grassera ekki síst í kerfum sem eiga að hlúa að þeim og börnum þeirra. Nýleg bresk rannsókn sýnir að konur með fíknivanda mæta miklu meiri hörku og fordómum en karlar með sama vanda. Neysla þeirra markast frekar af því að slökkva á sársauka sem fyrir er fremur en að skemmta sér. Þær eru oftar en ekki með brotna sjálfsmynd og þjakaðar af áfallastreitu. Þær eru einmana, örvæntingarfullar og hjálparlausar og fá síður stuðning frá sínum nánustu. Þeim er síður treyst og þær þurfa stöðugt að sanna sig þrátt fyrir staðfesta edrúmennsku,“ skrifar hún.
„Í barnaverndarkerfum er þeim oft mætt með skilningsleysi og dómhörku þrátt fyrir viðleitni þeirra til að sækja sér aðstoð við fíknivanda sínum.“
Áslaug segist vita til þess að margar mæður hafa mætt fjandsamlegu og miskunnarlausu viðmóti í kerfinu.
„Fordómarnir fylgja þeim svo löngu eftir að þær hafa náð fullum bata og það getur þeim reynst þrautin þyngri að fá eðlilega umgengni við börn sín þrátt fyrir lengri edrúmennsku. Sumar þeirra sjá á eftir afkvæmi sínu fyrir fullt og allt þrátt fyrir bót og betrun. Ekkert barn ætti þó að búa við slíkt,“ segir hún og bætir við að það sé eðlilegt að fólk sé á varðbergi og að viðbrögðin litist af tortryggni.
„En öðru máli gegnir um að svipta fólk mannréttindum og ógilda það um ókomna tíð. Þetta veldur svo óafturkræfum tilfinningalegum og félagslegum skaða. Þeim er ekki gefið tækifæri til að bæta ráð sitt heldur eru þær dæmdar fyrir fram.“
Áslaug segir að mæður með fíknivanda veigri sér jafnvel við því að leita sér aðstoðar vegna ótta um að missa frá sér börnin og velvild annarra.
„Skömmin verður dýpri og feluleikurinn flóknari sem ýtir svo enn frekar undir meiri þörf til að deyfa sig og meiri neyslu. Þetta er vítahringur sem viðheldur sér og erfitt að sjá leið út úr. Því má segja að viðhorfið gagnvart þeim í samfélaginu og nærumhverfi sé jafnvel skaðlegra en efnin sem þær innbyrða.“
Áslaug segir að mæður sem missa tökin á tilverunni vegna fíknisjúkdóms elska börnin sín ekkert minna en aðrar mæður.
„Fíknin drepur ekki móðurástina. Börnin þjást mest vegna þeirra hrikalegu fordóma, grimmdar og harðstjórnar sem mæður þeirra verða fyrir og þau sakna mæðra sinna og elska þær alveg jafn mikið þótt þær séu með fíknisjúkdóm.“
„Karlmenn og feður fá allt annan hljómgrunn og viðmót í samfélaginu þegar bata er náð. Því ber vissulega að fagna að vel sé við þeim tekið en það þarf viðhorfsbreytingu gagnvart mæðrum með sama vanda og að gefa þeim færi á uppreisn æru. Innkoma móðurinnar í líf barnsins á ný þarf að vera trygg og örugg og henni ætti alltaf að fagna eftir að bata er náð,“ segir Áslaug.
„Þarna þarf barnaverndarkerfið að skerast í leikinn og gefa mæðrum sem hafa algjörlega snúið við blaðinu kost á því að eiga eðlilega umgengni við börn sín. Þetta er líka ákall um vitundarvakningu um líðan fólks og úrræði til að takast á við vanlíðan. Þetta er ákall um miklu meiri þekkingu á uppbyggilegum úrræðum og aðferðum til að takast á við tilfinningalegan sársauka.“
Áslaug segir að við þurfum að vera vakandi fyrir því að ungt fólk, sérstaklega ungar stúlkur, byggi upp sterka sjálfsmynd og eigi uppbyggilegt sjálfstal.
„Þetta er líka ákall til þjóðarinnar um að gefa þeim gaum sem eru þarna úti og lifa í þögulli angist þar sem móðurhjartanu blæðir og barna þeirra sem hafa verið svipt mæðrum sínum,“ segir hún.
Áslaug gaf nýverið út lag tileinkað dóttur sinni en einnig þeim mæðrum sem sakna barna sinna vegna fíknivanda og fordóma.