Hackman var orðinn 95 ára en Betsy var 65 ára en talið er að þau hafi verið látin í þó nokkuð marga daga áður en þau fundust.
Ýmsum kenningum hefur verið varpað fram um andlátin, allt frá gasleka til sameiginlegs sjálfsvígs. Báðar kenningar þykja þó langsóttar og var til dæmis greint frá því í gær að nær útilokað væri að gasleki hefði átt þátt í dauðsföllunum.
James Gill, læknir og yfirmaður deildar sem hefur yfirumsjón með læknisfræðilegum rannsóknum á dánarorsökum í Connecticut, segir í samtali við People að mögulega hafi Arakawa dáið úr því sem stundum er kallað harmslegill, eða „broken heart syndrome“.
Tekið er fram í umfjölluninni að Gill komi ekki með neinum hætti að rannsókninni og því sé aðeins um að ræða getgátur.
Þetta fyrirbæri er ekki óþekkt og segir Gill að hugsanlega hafi Arakawa komið að eiginmanni sínum látnum og hún hafi í kjölfarið fengið heilkennið sem líkist um margt hjartaáfalli.
Gill segir líklegast, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, að Hackman og Arakawa hafi dáið af náttúrulegum ástæðum og það ýti undir þá kenningu að Arakawa hafi dáið úr „broken heart syndrome“.