Texti: Svava Jónsdóttir
Daður er eins konar listfengi í samskiptum fólks, oft skemmtilegt og saklaust, en það getur líka valdið ruglingi og jafnvel vanlíðan þegar það er endurtekið án raunverulegs ásetnings. Það getur því verið tvíbent athöfn á mörkum gamansemi, forvitni og áhuga. Þegar daðrarinn er flagari sem virðir ekki samskiptamörk getur það haft áhrif á sjálfsmynd þess sem daðrar er við og tilfinningu hans, hennar eða háns; óvissa verður um markmið, tilgang og skuldbindingu. Þetta vekur mikilvæga spurningu: Er verið að senda skýr skilaboð eða er marklaust verið að leika með dýrar tilfinningar? Ef boðið er upp í dans þurfa báðir aðilar að vera fúsir til að dansa.
Samskipti kynjanna geta verið flókin. Haukur Ingi Jónasson sálgreinir segir að við séum meðvituð dýr og þó að samskipti dýra geti verið flókin þá séu samskipti fólks enn flóknari þar sem fólk hefur, að við teljum, sjálfsvitund. Með uppeldi, skorti á því og reynslu mótast vitund um það hvað sé viðeigandi, æskilegt og hvað ekki. Þetta er einstaklingsbundið og sitt sýnist vissulega hverjum; það sem einum þykir vera eðlilegt getur öðrum fundist vera óeðlilegt. „Mikið af þeim vandræðum sem tengjast kynverunni stafa af þessu. Við erum undir „oki siðmenningar” og samfélagið leggur til alls kyns „samviskuviðmið“ sem það vill að við lifum eftir. Sögulega hafa þessi viðmið verið allt frá því að vera mjög uppbyggileg og styðjandi til þess að vera okkur mjög andstæð og fjandsamleg.“
Einstaklingur sem reynir að finna farveg fyrir hvatir, þrár og ástríður sínar þarf í megindráttum að sögn Hauks Inga að gera það í sátt við samfélagið eða fela það ella. Í gegnum tíðina hafa mörkin á milli þess hvað er „einkamál“ og hvað samfélagið hefur lögsögu yfir breyst mikið og hafa lög og réttur þróast mikið hvað þetta varðar. Haukur Ingi bendir á hvernig félagsleg viðmið hafa breyst mikið á allra síðustu árum og áratugum. Það sem var óviðeigandi er nú viðeigandi og það sem var viðeigandi er nú algjörlega óásættanlegt.
„Það er spurning hver á að setja reglurnar um samskipti kynjanna. Löggjafinn eða siðferðisviðmið samfélagsins? Eða ætti einstaklingurinn að finna út úr þessu sjálfur? Við erum kölluð til ábyrgðar og þurfum meira og meira að vera meðvituð um að við verðum hvert og eitt að hugsa okkar gang. Þetta er oftast til heilla en ég veit að fólk á öllum aldri strögglar við að fóta sig á þessu sviði. Það er í lagi, við erum öll að læra eitthvað mjög mikilvægt. Það er bæði tragískt og fallegt að mannveran þurfi að leita út á samfélagsmiðin í leit að fullnægju. Og þegar kemur að kynverunni; þó að allir séu „að gera það“ þá er líka stutt í að fólk dæmi, bæði sjálft sig og aðra, ef það misstígur sig á þessu sviði. Við erum öll viðkvæm í þessari leit. Stundum virðist eina leiðin vera sú að taka enga áhættu og leita ekki út heldur vera bara með sjálfum sér, en svo virkar það ekki heldur.“
Haukur Ingi segir að þegar stofnað er til tengsla sem tengjast kynverunni þurfi í reynd að fá svör við mörgum spurningum: „Vilt þú að ég reyni við þig? Hvað finnst þér viðeigandi þegar ég reyni við þig? Hvernig get ég gert mig aðlaðandi fyrir þinn smekk? Hvað þykir þér óaðlaðandi? Hvað finnst þér viðurkvæmilegt? Hvað finnst þér óviðurkvæmilegt?“ Og ef stefnir í holdleg tengsl þá þarf að fá svör við spurningum eins og: „Hver er þín skuldbinding? Hvað viltu til lengri tíma? Hvaða aðrar skuldbindingar hefur þú? Hvar liggja mörkin? Hvað finnst þér gott? Hvað finnst þér vont? Hvar eru mörk þín? Hvað viltu að gerist í framhaldinu? Hvar hefur þú verið; ertu mögulega með sjúkdóma eða sýkingar? Hvað með getnaðarvarnir? Hver ber ábyrgð á þeim? Hvað ef til getnaðar kemur? Hvað á að gera ef upplifun eða samkomulag breytist í miðjum leik? Hvernig eigum við að kveðjast? Hvernig eigum við að umgangast í framtíðinni? “ Og svo mætti áfram telja; kynþokkafullt, ekki satt?” segir Haukur sposkur á svip og bætir við að báðir aðilar þurfi að vera meðvitaðir um mögulegar afleiðingar þess að stofna til náinna tengsla. „Það getur glatt, eflt og þroskað en einnig sært, valdið vonbrigðum, ýft upp gömul sár og skapað tilfinningu um höfnun. Allt þetta er partur af mannlegum kjörum.“
Haukur Ingi segir að það sé mikilvægur hluti af eðli okkar að reyna við hvert annað. „En sá eða sú sem er reynt við þarf að standa fast á því hversu langt hann, hún eða hán vill ganga og gefa skýr skilaboð; og þessi skilaboð þarf að taka mjög alvarlega. Sum vilja daðra og önnur ekki. Sum vilja frelsi – og það getur verið allavega – sum vilja spennu og sum vilja bara frið og spekt.” Hann telur að yfirleitt gangi vel að finna lögnina í þessu en það er ekki alltaf svo.
„Sá eða sú sem reynir við gæti mögulega ekki átt innistæðu fyrir framhleypninni, eða búið við skertar forsendur, og sá sem tekur við og reyndar þau bæði gætu þá lent illa í því. Það er mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum málum og vera skýr varðandi mörkin og gera ekki málamiðlanir nema að ígrunduðu máli. Það þarf tvo í tangó. Ef báðir aðilar hafa þroska og getu til að gefa af sér og þiggja frá hinum þá getur orðið til fallegur dans.
Ef eitthvað fer úrskeiðis er oft freistandi að láta mótaðilann bera ábyrgðina í staðinn fyrir að axla hana sjálf(ur). Dæmi um óviðeigandi framgöngu eru líka mörg; til dæmis þegar einstaklingur í valdastöðu krefst fylgilags við einstakling sem á mikið eða jafnvel allt undir þeim fyrri og tekur þátt, ekki vegna gagnkvæms áhuga eða vilja heldur af ótta við afleiðingarnar af því að gera það ekki. Þetta er auðvitað algjörlega ótækt. Einstaklingur í slíkum aðstæðum, þar sem ógnun eða drottnun er til staðar, þarf að reyna að standa fast í fæturna og komast úr aðstæðunum sé þess nokkur kostur. Frammi fyrir ofbeldishótun er mikilvægt að hugsa hvað það muni kosta að berjast á móti eða láta á sér brotið. Þetta er hræðileg staða en viðbrögðin geta verið spurning um líf eða dauða. Einn maður bjargaði sér úr slíkum aðstæðum með því að þykjast gefast ofbeldismanninum til að byrja með og fékk svigrúm þegar hinn hélt að gagnkvæmni væri til staðar. Þannig náði hann að flýja og komast út til fólks sem gat varið hann. Kona nokkur náði að beita endurskilgreiningu (e. reframing) með því að skapa mannleg tengsl við ofbeldismanninn með því að að spyrja: „Hvað er klukkan?“ Og það dugði til að opna á samtal og ná honum út úr árásarhamnum.
Maður á sveitaballi þurfti að flýja konu sem greip í klof hans og klukkustund síðar að losa sig frá konusem setti tunguna fyrirvaralítið upp í hann. Annar sagðist vilja láta fólk gera við sig hluti sem hann taldi þau hin sömu ekki vilja láta gera við sig. Það er vandlifað og allt eru þetta fremur róttækar aðstæður og kannski ekki viðfangsefni okkar hér. Ég vil þó segja að ákveðni, staðfesta og óttaleysi kemur manni langt; undir svona aðstæðum á maður allt undir því að bregðast rétt við. Og svo er fólk sem hefur litlar varnir vegna erfiðrar reynslu og það flækir málið enn frekar.“
Oftast leiðir daður þó ekki svo langt að til náinna kynna komi eða að það veki áhuga á slíku; og jafnvel þvert á móti. Það getur staðið yfir í stuttan eða langan tíma og í sumum tilfellum er ekkert á bak við það heldur kann að virðast að viðkomandi sé bara að leika sér að tilfinningum hins.
„Ég held að almennt séð sé línan skýr: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig. Og ef þú ert í vafa um hvað það merkir þá skaltu bíða, hugsa þinn gang og mögulega ræða við viðkomandi um hvernig hann, hún eða hán sér þetta. Við þurfum öll að gera þetta. Það er mikilvægt að ræða ítarlega um hvað er viðeigandi og hvað ekki þó að í reynd sé þessi lína almennt mjög skýr. Hún snýst um að báðir aðilar séu upplýstir og meðvitaðir um hvað er að gerast og séu fúsir að taka þátt, auk þess að vera meðvitaðir um hvað gæti mögulega gerst í framhaldinu.“
Hvað með fólk sem daðrar jafnvel í langan tíma af og til en þykist svo ekki kannast við þessa hegðun. Hvað skýrir það? „Það er kannski merki um lausung eða vangetu til að finna það sem viðkomandi er að leita að. Eða merki um afneitun á eigin hegðun eða vanskilning á eigin tilfinningalífi. Það getur margt spilað inn í. Sum hafa ekki fengið neina fræðslu og við höfum mörg lent í einhverju sem er skrýtið, skakkt eða óvenjulegt en það þýðir þó ekki alltaf að eitthvað alvarlegt sé að. Kannski er viðkomandi óforbetranlegur flagari og þá þarf að setja viðkomandi mörk. Þegar á hólminn er komið er hver og einn ábyrgur fyrir sjálfum sér og það þarf með staðfestu að stöðva þau sem virða ekki mörk. Kannski þarf viðkomandi að læra, kannski hefur hann, hún eða hán aldrei fengið raungóða leiðbeiningu á þessu sviði og kannski er daðrið frumstæð leið til að takast á við vanda tilverunnar. Hvernig sem á það er litið þá er staðfest og uppbyggileg leiðbeining betri en fordæming. Við erum viðkvæm og getum átt mjög bágt á þessu sviði.“
Sumir sem daðra svona eru jafnvel á sama tíma á stefnumótasíðum. Er það eðlilegt? „Kannski má taka líffræðina á þetta en líffræðingar á borð við Anthony Cashmore við Pennsylvaníu-háskóla og Robert Sapolsky við Stanford-háskóla telja að okkur sé alls ekki sjálfrátt, að það sé enginn frjáls vilji heldur að við séum skilyrt í einu og öllu af erfðum og umhverfi. Ef það er svo þá gæti það sem þú lýsir tengst þörf um að gera aðra spennta fyrir sér og að verða spenntur fyrir öðrum; eða kannski er þetta einhvers konar eltingar- eða veiðihvöt. Ég veit það ekki en ég held að flest hætti þessu fljótlega; því þetta er slítandi og ófrjálsi viljinn – ef hann er ófrjáls – gefst á endanum upp á þessu. Þetta verður innantómt. Hins vegar ef þetta keyrir um þverbak og stendur flagaranum fyrir þrifum þá gæti hann, hún eða hán haft gott af sálrænni meðferð.”
Haukur Ingi segir að marklaust daður geti tengst veikri sjálfsmynd daðrarans. „Sum geta aðeins daðrað en geta ekki átt tilfinningaleg tengsl. Þau vilja kannski vel en hafa einfaldlega ekki innistæðu fyrir því. Sumt fólk daðrar til að ná völdum og þegar þeim er náð þá snýr það baki við eða snýst gegn hinum. Þetta er kallað „beita og viðsnúningur“ (e. bait-and-switch) eða „valdatafl“ (e. power play) og er vel þekkt fyrirbæri. Það er því mikilvægt að vera á varðbergi. Það sem getur líka gerst er að eftir að slíkur daðrari hefur dregið á tálar talar hann, hún eða hán iðulega niðrandi um þann sem tók beituna, spilar sig sem fórnarlamb og kjamsar á því að hafa „lent í“ þessum eða þessari. Einstaklingur sem gengst upp í stöðu fórnarlambsins horfir ekki inn á við og skoðar ekki eigin hegðun, því hvers vegna ætti hann, hún eða hán að gera það?
Þetta tengist oft bjagaðri sjálfsmynd og í reynd er sjálfsmynd okkar allra viðkvæm. Mér sýnist til dæmis að eftir skilnað, sérstaklega erfiðan skilnað, þá sé mótaðilinn iðulega dæmdur sem „narsissisti“. Þetta heyrir maður aftur og aftur þar sem það krefst mikils þroska að enda sambönd á góðum nótum og á jafnræðisgrunni. Oft enda sambönd, þar sem mikil nánd var til staðar, þannig að annar eða báðir aðilar sjá hinn sem sjálflægan andstæðing sem hugsar einungis um sjálfan sig; sá sem stendur eftir gerir sig að fórnarlambi. Auðvitað getur það verið þannig í raun og reynd en það þarf ekki endilega að vera það.“
Daður sem gengur langt og þar sem engin innistæða er á bak við getur haft vond áhrif. „Þetta getur haft mjög slæm áhrif og það er mikilvægt að þau sem hafa tilhneigingu til að fara yfir strikið skoði sinn gang. Ég tel einnig að þau sem eru líkleg til að verða fyrir áreitni þurfi að styrkja varnir sínar til að vera betur undirbúin að setja mörk. Fólk er misjafnt. Sum okkar hafa verið niðurlægð og margir hafa orðið fyrir miklum skaða. Sá sem daðrað er við á þennan hátt og vill það ekki þarf að horfa inn á við og stöðva þetta áreiti. NEI þýðir NEI. Það er mjög alvarlegt ef daðrarinn heldur áfram eftir að hann, hún eða hán hefur fengið „NEI“. Ef ég daðra við þig og þú biður mig um að hætta, en ég held engu að síður áfram, þá er það farið yfir mörkin. Það er ekki hægt að banna fólki að daðra en ef mótaðilinn segir „stopp“ þá er daðrið orðið óviðeigandi. Það er miklu heillavænlegra að segja „stopp“ heldur en að ætlast til að hinn átti sig sjálfur og síðan dæma hann í kjölfarið. Það er betra að segja afgerandi „STOPP“ og draga línuna skýrt. Hafandi sagt þetta þá er líka þekkt að sum okkar eiga mjög bágt með að setja mörk eða eru jafnvel ófær um það vegna atvika og áfalla sem hafa mótað kynveru þess.“
Haukur Ingi segir að þegar daður gengur of langt í langan tíma án þess að nokkur raunverulegur áhugi sé á bak við það þá geti það haft svipuð áhrif og einelti. Sá eða sú sem daðrað er við verður varnarlaus. „Ég held að við ættum öll, til að viðhalda sálrænu heilbrigði, að geta stöðvað þann sem er að reyna við okkur ef við viljum það ekki. Við eigum að standa í lappirnar. Þetta þurfum við líka að kenna börnum okkar. En viðvarandi óviðeigandi daður getur orðið að áfallaminni fyrir þann sem daðrað er við og brotið viðkomandi niður. Þetta getur haft margvísleg alvarleg áhrif. Viðkomandi getur til dæmis orðið hræddur við náið samneyti og þróað með sér skerta getu til að upplifa eigin líkama og kynveru; misbeitingin fer að hafa áhrif á okkar ríkustu tilfinningar sem tengjast trausti, þrá og ást.“
Þegar sá eða sú sem daðrað er við er í raun hrifinn – þó ekki endilega ástfanginn – af daðraranum sem á ekki innistæðu þá getur það valdið sorg. „Það er sérstaklega erfitt að vinna úr sorg þar sem bæði ást og hatur blandast saman gagnvart viðkomandi. Þetta er vegna þess að sá eða sú sem elskar heitt, en finnur sig niðurlægða(n), þarf einnig að glíma við hatrið. Það er stutt á milli ástar og haturs. Það er mun auðveldara að skilja þegar allt hefur verið í góðu.“
Haukur Ingi segir að það þurfi að fara varlega í að skilgreina þetta sem „ofbeldi“ þó að það sé slæmt þegar fólk misbýður ástvini sínum. En lífið getur verið flókið og allt fólk getur læst sig inni í misskilningi, mistúlkunum eða lent í vandræðum með ástina sem það vonaði að yrði þeirra lausn og líkn. „Ofbeldi myndi ég skilgreina það þegar einstaklingur veldur öðrum einstaklingi skaða, líkamlega eða andlega, með valdi, hótunum eða kúgun. Það er ofbeldi. Og það getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt eða fjárhagslegt.“
Við viljum trúa því að flest séu að leita að hinni einu sönnu ást. Hvað gerist þegar fólk verður ástfangið?
„Hugmyndir um hina einu sönnu ást breytast og stór hluti mannkyns hefur enga hugmynd um rómantíska ást. Sigmund gamli Freud sagði að tilgangur lífsins væri að vinna og elska en líkti ástinni líka við eins konar sjúkdómsástand. Þú sérð einhvern sem þú verður ástfanginn af og allt annað fer úr fókus. Þú ímyndar þér aðeins að þessi eini eða eina geti uppfyllt þig og að það sé enginn annar eða önnur sem standist samanburð. Þ
að er bara þessi eini, þessi eina eða þessi ein. Þetta er gefandi tilfinning sem tengist frumþörf okkar fyrir að elska og vera elskuð. Ef viðkomandi bregst jákvætt við þá verður mikil sælutilfinning og þú vilt bindast viðkomandi. Þú getur varla án hans, hennar eða hánar verið og vilt alltaf vera nálægt þeim – allavega til að byrja með. Sé þetta dýpra skoðað þá er það mögulega eins konar frávarp þar sem þú speglar þig í hinum aðilanum og telur að hann, hún eða hán geti fyllt tómið. Svo er allur gangur á því hvort þetta gangi upp. Kannski hefur viðkomandi hvorki getu né burði til að standast væntingar þínar og það er stundum áfall þegar raunveruleikinn „kikkar“ inn. Stundum gengur þetta vel en stundum fer það í vaskinn.“
Haukur Ingi bætir við: „Það er kannski gaman að vitna í Martein Lúther sem sagði: „Þegar tveir einstaklingar raunverulega elska hvorn annan, njóta hvors annars og trúa á ást sína á milli, hver kennir þeim þá hvernig þau eiga að breyta gagnvart hvort öðru? Hvað þau eiga að gera og hvað ekki, segja eða ekki segja, hvað þau eiga að hugsa? Enginn! Trú þeirra kennir þeim þetta allt og það jafnvel í ríkara mæli en nauðsyn krefur. Fyrir slíka einstaklinga er engin aðgreining í verkum. Þau gera það stóra og mikilvæga jafnfúslega og það smáa og léttvæga, og öfugt. Og ekki nóg með það, heldur vinna þau saman í glaðværð, af friðsemd, og af góðum ásetningi, og þau eru auðfúsir félagar hvors annars.” Þessu til viðbótar má líka minna á orð þýsk-austurríska ljóðskáldsins Rainer Marie Rilke sem sagði eitthvað á þessa leið: „Þegar við áttum okkur á því að jafnvel á milli innilegustu elskenda er óendanleg gjá, þá getur unaðslegt líf, hlið við hlið, farið að vaxa, ef þeim tekst að elska fjarlægðina á milli sín þá fara þau að sjá hvort annað sem heild frammi fyrir heiðríkum himninum.”
„Heilt yfir þá er vegur ástarinnar flókinn. Við þurfum því að vera opin og varkár í senn. Það er líka mikilvægt að hafa húmor fyrir þessu öllu saman því ástin og sambönd eru um sumt alveg kostuleg. Við lifum siðferðilegu lífi en á sama tíma erum við öll að pæla í að leggjast saman, þefa hvort af öðru og tengja saman líkamsparta – með öðrum orðum að maka okkur. Þetta er á vissan hátt absúrd og fríkað – og þess vegna þurfum við að geta hlegið að þessu; og stundum dátt. Eða eins og var sagt í frægri skýrslu um kynhegðun Bandaríkjamanna: „Allir eru að gera það – og ekki endilega á hefðbundinn hátt.“