Tónlistarmennirnir og vinirnir Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson ákváðu að heiðra minningu vinar síns, veitingamannsins Jose Luis Freyr Garcia, með því að gefa út nýja ábreiðu. Lagið nefnist Kysstu mig.
„Sagan á bak við þetta tiltekna lag, ástæðan fyrir hljóðritun þessa lags er til minningar um góðan vin okkar sem lést í fyrra, hann Jose García veitingamann á Caruso. Hann hélt mikið upp á þetta lag og þannig var að þeir fóru í nokkrar sjóferðir, Eyjólfur og Jose og fleiri, í siglingar út frá Flórída ef ég man rétt. Og það er farið árlega í svona sérstaka seventís siglingu þar sem að gamlar kempur frá sjöunda og áttunda áratugnum troða upp. Og meðal annars þessi söngvari á sínum tíma og og þá vatt Jose sér að Eyjólfi og sagði við hann: „Heyrðu, næst tþegar þið takið upp ábreiðu takið þið þetta lag og ég er með hugmynd að heiti lagsins. Kysstu mig.“ Þetta var fyrir nokkrum árum. Og þetta hefur setið í okkur síðan og létum við verða af því að hljóðrita þetta svona í hans minningu,“ segir Stefán við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni.
„Við héldum okkur við nafnið sem að Jose vildi hafa; Kysstu mig. Svo er það líka svolítið jákvætt. Gott fyrir þjóðfélagið að kyssast svolítið,“ segir Eyjólfur.
Félagarnir segja lagið sprottið frá áttunda áratugnum enda séu þeir miklir aðdáendur tónlistar þess tíma. „Eyjólfur ólst eiginlega upp með þessari músík og með Kananum. Þetta var nú svona þekkt á sínum tíma, einna helst á Kananum, ég held þetta hafi nú ekkert verið svo þekkt hér,“ segir Stefán.
Jose varð bráðkvaddur á heimili sínu 17. júní 2024.
Félagarnir eru á leið í árlegan páskatónleikatúr sinn í 18. eða 19. sinn og hefja leika á afmælisdegi Eyjólfs þann 17. apríl í Ólafsvík.
„Þetta er nú bara fyrst og fremst bara skemmtilegur vinskapur og mikill húmor sem að hefur einkennt ykkar samstarf gegnum tíðina,.“ segir Ívar. „Já, óneitanlega. Við erum svona eiginlega bara eins og bræður tveir,“ samsinnir Stefán.
Kysstu mig var frumflutt hjá Ívari Guðmundssyni á Bylgjunni á föstudag og kemur lagið á streymisveitur í næstu viku.