Fyrsti þáttur af Veiðin með Gunnari Bender er nú aðgengilegur hér fyrir neðan. Í þættinum er Gunnar meðal annars viðstaddur opnun Langár á Mýrum, þann 19. júní í fyrra. Þar fylgir hann meðal annars tónlistarmanninum Jógvan Hansen og félögum hans eftir í fullkomnu veiðiveðri, mígandi rigningu.
Hópurinn er með þá skemmtilegu hefð að fyrstu vaktina er aðeins teknar með kartöflur og sítróna niður að árbakkanum og undir þeim komið að veiða í soðið. „Það væri gott að fá smá prótín með“ sögðu menn vongóðir og við sjáum hvernig til tekst.
Þættirnir eru unnir í samstarfi við Veiðar.is sem er nýr frétta- og upplýsingavefur um sport- og laxveiðar í íslenskri náttúru. Á vefnum eru nýjustu fréttir úr veiðinni og því sem þar gerist á hverjum tíma, auk viðtala og frásagna af veiðiferðum, reynslu og upplifun einstaklinga og hópa í veiðimennsku.
Gunnar Bender ritstjóri er annálaður áhugamaður um stangveiðar í ám og vötnum, með áratuga reynslu af sportveiði og veiðimennsku. Gunnar hefur ferðast um landið árið um kring og hitt sportveiðifólk og aðra áhugasama um veiðar og útivist.
Í þessum ferðum sínum dreifir Gunnar m.a. Sportveiðiblaðinu, einu mest lesna og virtasta tímariti um laxveiðar á Íslandi en Gunnar stofnaði til útgáfunnar fyrir 40 árum og hefur verið þar ritstjóri og útgefandi síðan.
Veiðiþætti Gunnars þekkja margir en hann hefur framleitt slíka þætti um veiðar í villtri náttúru Íslands og frá helstu laxveiðiám landsins. Nokkrir af veiðiþáttum Gunnars eru aðgengilegir á veidar.is og á YouTube rásinni Veiðar.
Veiðin 2025 þáttur 1 Opnun Langá.mp4